07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

83. mál, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., var lagt fyrir Alþingi — fyrir hv. Ed. — í jan. s. l. og ræddi ég það þá efnislega og mun ekki endurtaka það og skal vera stuttorður.

Í mjög stórum dráttum er frv. ætlað að sníða vankanta af lögum um sama efni sem sett voru í tímahraki vorið 1978. Frv. er ætlað að einfalda stjórnun og draga úr skriffinnsku og jafnframt að auðvelda og flýta fyrir þjónustu sem stöðinni er ætlað að veita. T. d. er gert ráð fyrir að Heyrnar- og talmeinastöðin afgreiði mál sín sjálf og beint í stað þess að nú þurfa menn að fá vottorð og framvísa þeim hjá Tryggingastofnun ríkisins til að fá endurgreiðslu vegna kaupa á hjálpartækjum og það jafnt þó að lög og reglur segi til um að ríkissjóður eigi að greiða þetta að fullu. Þá er og gert ráð fyrir að ríkið reki stöðina alfarið í stað þess að nú greiða sveitarfélögin 10% rekstrarkostnaðar þótt ríkið eitt eigi stöðina. Hefur þetta valdið óánægju ýmissa sveitarstjórnarmanna.

Hv. Ed. gerði þrjár minni háttar breytingar á frv. Fyrri tvær breytingarnar þ. e. breytingar á greinum 5 og 6, eru til bóta að mínu mati. Aftur á móti er ég ekki jafnánægður með breytingar á 7. gr. 1 upphaflega frv. var gert ráð fyrir að greinin hæfist þannig: „Stofnunin skipuleggur ferðir starfsmanna sinna til aðstoðar heyrnardaufum og málhöltum úti á landi.“ — Ég er sammála því að starfsmenn stofnunarinnar komi inn í lögin, en tel að þarna þurfi sérfræðingar líka að vera. Stöðin hefur aðeins á að skipa einum sérfræðingi, sem er læknir, og kemst hann ekki yfir að fara út á land í þeim mæli sem nauðsynlegt er til viðbótar við þau störf sem hann gegnir á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er nauðsynlegt að grípa til sérfræðinga, sem ekki eru starfsmenn stöðvarinnar og geta ekki talist það, til að fara ferð og ferð. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að í lögunum sé heimildarákvæði, og beini því til hv. heilbr.- og trn. þessarar hv, deildar hvort ekki megi hafa þetta orðalag: Stofnunin skipuleggur ferðir starfsmanna sinna og annarra sérfræðinga til aðstoðar heyrnardaufum og málhöltum úti á landi.

Ég vil þó ekki að þetta verði til þess að tefja frv. þannig að það nái ekki afgreiðslu á þessu þingi.