07.05.1980
Neðri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2475 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

6. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að sú brtt., sem hér er flutt af hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, var flutt skriflega eftir að málið hafði fengið umfjöllun í nefnd og eftir að það hafði jafnvel verið þar óeðlilega lengi, en þetta er 6. mál þingsins. Við í nefndinni höfum ekkert fjallað um brtt. sem hér er flutt, ekki haft beinar aðstæður til að kynna okkur þetta mál og meta það út frá tekjutapi ríkissjóðs.

Ég get út af fyrir sig fallist á þau rök sem hann flutti hér og má flytja varðandi fjöldann allan af vörutegundum sem tollaðar eru af ríkinu, svokallaðar hátollavörur. Það er eflaust rétt, að það má búast við því að ef hátollur er lagður niður og vörugjald lagt niður af mörgum þessara vörutegunda mundi salan aukast. Það er erfitt að rökstyðja það, að á þessar vörutegundir margar hverjar sé lagður svo hár skattur. Þetta er út af fyrir sig vandamál sem við höfum átt við að glíma hér um langt skeið og okkur hefur ekki gengið vel að taka á, kannske af þeirri einföldu ástæðu að tollalækkanir hafa verið miklar á undanförnum árum og tekjur ríkissjóðs af tollum hafa farið mjög ört lækkandi. En ég verð að segja það varðandi þetta mál, að ég get ekki mælt með því að brtt. sem þessi sé samþykkt án þess að hún hafi fengið umfjöllun í nefnd og án þess að nefnd hafi fengið tækifæri til að skoða hana, meta hana og ræða hana við þá aðila sem sjá um framkvæmd þessara mála. Af þeirri einföldu ástæðu verð ég að leggja til að þessi till. verði felld.