21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

Umræður utan dagskrár

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki í þeim fáu orðum, sem ég segi hér við þessa umr., að blanda mér í deilur stuðningsmanna ríkisstj. sem sprakk í haust. Ég held þeir þurfi að gera upp sín mál um það, hvernig þeir hafa gengið frá málum til fjárlagaafgreiðslu og til afgreiðslu og útborgunar fyrir fjmrh. Ég ætla ekki að blanda mér í það.

Hitt er vitanlegt öllum, sem hafa lítið til landbúnaðarins á þessu ári, að þar eru erfiðleikar fyrir dyrum hjá fjölda bænda og það svo; að Framleiðsluráð hefur orðið að leggja þann skatt á bændur að þeir fái ekki borgað fyrir framleiðslu s.l. árs svo að nemur milljörðum kr. Það hefur þegar verið innheimt, eins og kunnugt er. Ég er ekki að áfellast Framleiðsluráð fyrir þetta, þetta var þess eina vörn, fyrst og fremst vegna þess að ég tel og get fært á það sönnur að fyrrv. ríkisstj. vann slælega að þessum málum fyrir landbúnaðinn og því er komið sem komið er.

Ég segi, að það hafi verið unnið slælega að þessum málum, og styð það þeim rökum að á s.l. sumri, mig minnir að það væri 5. júní, skipaði fyrrv, landbrh. nefnd sem var skipuð fulltrúum frá öllum þingflokkunum og frá Stéttarsambandi bænda og frá Búnaðarfélagi Íslands. Hún átti að gera till. um hvernig komið yrði til móts við bændur í þeim erfiðleikum, sem stöfuðu frá vöntun útflutningsbóta, og erfiðleikum með sölu búvörunnar. Meiri hl. þessarar nefndar, sem í voru fulltrúar þriggja flokka, Framsfl., Sjálfstfl. og Alþb., komst að þeirri niðurstöðu, að hún lagði til að ríkisstj. legði fram fé til að bæta bændum það tjón, sem þeir hefðu orðið fyrir, að upphæð 3 milljarðar kr. Þessum till. skilaði meiri hl. nefndarinnar til ríkisstj. eða til landbrh. 28. júlí í sumar. En það merkilega gerðist, að ég veit ekki til að þetta nál. og þessar till. nefndarinnar hafi neins staðar verið lagðar fram til þess að koma þeim áfram. Ég veit með fullri vissu að þær voru ekki lagðar fyrir aðalfund Stéttarsambands bænda, því að hann sat ég og veit það þess vegna. Bændur gerðu því enga samþykkt um þessar till. sem nefndin hafði gert. Ég veit ekki til að landbrh. hafi heldur lagt þessar till. fram í ríkisstj., og tel ég það ámælisvert. Ég tel að það, að ekki var farið að þessum tillögum, hafi leitt til þess öngþveitis í fjármálum hjá mörgum bóndanum, sem nú er kunnugt um, og það hafi orðið til þess að magna það öngþveiti.

Vegna tilmæla forseta mun ég ekki lengja mál mitt að þessu sinni, en ástæða væri til þess við annað og betra tækifæri að kafa betur ofan í þessi mál.