08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég þakka umburðarlyndið. Hér hefur í fjölmargar vikur verið á dagskrá í Sþ. örstutt fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um fyrirtækið Olíumöl. Þessu máli hefur aftur og aftur verið vikið af dagskrá. Fyrst var borið við veikindum fjmrh., sem auðvitað er ekkert við að segja, en síðan, eftir að hann mætti aftur, hefur málinu verið vikið af dagskrá.

Vandinn við þetta mál er sá, að eftir 3. umr. fjárlaga var fjvn. og hæstv. fjmrh. falið að taka ákvörðun um þetta. Það er vitað í öllum þingflokkum, að núna á þessum dögum, jafnvel á þessum klukkustundum, er málið komið á ákvörðunarstig í fjvn. Þess vegna, herra forseti, vil ég gera um það þá þinglegu kröfu, að þessi fyrirspurn fáist rædd í þinginu og að hv. þm. fái að tjá sig um málið áður en þessi ákvörðun er tekin í fjvn. Málið er komið alveg að ákvörðunarstigi og ég teldi til mikillar vansæmdar ef þessi ákvörðun yrði tekin áður en þetta Olíumalarmál er rætt hér í sameinuðu þingi.

Ég kveð mér hljóðs um þingsköp vegna þess að ég hafði spurt forseta persónulega um þetta margítrekað. Mér hafði skilist að fyrirspurnir yrðu teknar fyrir í dag. Honum er jafnljóst og mér og öðrum að þetta hefur dregist óeðlilega lengi, en ég geri um það þá þinglegu kröfu, að fyrirtækið Olíumöl og samskipti þess við skattgreiðendur fáist rædd hér áður en þessi ákvörðun er tekin.