08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

130. mál, nýting kolmunna og vinnslustöð á Austurlandi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er að sjálfsögðu verið að fjalla um mikilvægt mál, sem allmikið hefur verið rætt á undanförnum árum, og ýmsar tilraunir hafa verið í gangi. Það verður að segjast eins og er, að það hefur gengið hægar en menn hefðu óskað að tileinka sér nauðsynlega tækni við veiðar á kolmunna. Hafa þó margvíslegar tilraunir verið í gangi. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar, að verðbætur á kolmunnann væru kannske enn líklegri til árangurs en flest annað til að stuðla að framförum í veiðitækninni, með því að þá mundu fleiri spreyta sig á þessu verkefni. Þess vegna var farið inn á þá braut, og ég fagna því að flm. þessarar till. tekur mjög eindregið undir það að sú leið sé farin. Mér segir svo hugur um að það þurfi að verðbæta heldur meira framan. af en síðar mundi verða reyndin þegar menn hafa komist upp á lag með veiðarnar.

Ég held að þær tilraunir, sem hafa verið gerðar með vinnslu á kolmunna til manneldis, lofi allgóðu, og það gildir reyndar líka um þær tilraunir sem gerðar hafa verið með geymslu á kolmunnanum vegna vinnslu í þessu skyni um borð í fiskiskipunum, t. d. í krapakössum. Ég er sammála flm. um að við eigum að leggja rækt við þennan þátt.

Ég held að það sé líka augljóst, að að því er varðar vinnslustöð liggja Austfirðir langbest við og hljóta fyrst og fremst að koma til álita vegna þess hvernig veiðisvæðin eru. Það kann að verða erfitt að uppfylla hitt skilyrðið, um hitaveituna. En ég þykist vita að þeir menn, sem fram á eru á Austfjörðum, muni leggja sig eftir því að finna þær landnytjar líka.

Að lokum vil ég ítreka það sjónarmið sem kom fram hjá flm., að það er auðvitað ekki síður mikilvægt að huga að vannýttum fisktegundum en ofnýttum. Og ég tel að sú braut, sem farið hefur verið inn á með verðbætur á vannýttar tegundir, sé eitthvert besta stjórntæki sem við getum haft til að ráða einhverju um veiðimagn úr einstökum fiskstofnum. Ég skil þessa till. þannig, að hér sé jafnframt að því er vinnsluna varðar verið að benda á það, að menn fikri sig áfram í tilraunaskyni, en ekki sé ætlunin að byggja einhvetja stórkostlega loftkastala. Í þeim skilningi þykir mér þessi till. góð.