08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

134. mál, geðheilbrigðismál

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól sem einn af flm. þessarar till. til þál. um geðheilbrigðismál sem hér er til umræðu. Eins og fram kemur í grg. með till. er hún flutt af þm. allra flokka í samráði við stjórn Geðhjálpar, sem er félag geðsjúklinga, aðstandenda og velunnara.

Í geðheilbrigðismálum stöndum við Íslendingar miður vel að vígi, þó að eitthvað hafi áunnist í þeim efnum og fleiri séu farnir að gera sér grein fyrir því, að geðsjúkdómar séu annað en gamanmál eða feimnismál, eins og fordómar í þeim efnum hafa því miður gefið tilefni til að álíta. Það eru ýmsir dapurlegir þættir í heilbrigðismálum geðsjúkra sem við getum ekki kinnroðalaust látið viðgangast lengur. Hér á ég t. d. við þá staðreynd, að nota þurfi fangageymslur til að geyma geðsjúklinga sem eru að bíða eftir plássi, þar sem ekki er hægt að fá rúm fyrir þá annars staðar, en vegna sjúkleika síns geta þeir ekki verið heima hjá sér. Þetta er staðreynd sem ekki verður fram hjá horft og gerist á hverri nóttu, að fangageymslur hýsa að jafnaði þrjá geðsjúklinga allan ársins hring. Og þá eru ekki meðtaldir áfengissjúklingar.

Það kom einnig fram í viðræðum við forráðamenn Geðhjálpar þegar þeir komu á fund heilbr.- og trn. Ed., að fimmtán sjúklingar séu á Litla-Hraun. Kleppsspítalinn getur aðeins sinnt neyðarþjónustu, þ. e. þeim sem eru veikastir. Margir sjúklingar eru á götunni og eiga hvergi athvarf. Geðsjúklingar, sem gætu séð fyrir sér ef þeir fengju endurhæfingu, fara á örorkubætur ævilangt. Það vantar sem sagt meðferðarheimili, athvarf og endurhæfingu. Eiturlyfjaneysla unglinga hefur aukist og ungt fólk, sem fær geðsjúkdóma, hefur enga möguleika, það er sett á örorkustyrk.

Herra forseti. Ég vildi aðeins leggja áherslu á þá samstöðu, sem er innan heilbr.- og trn. Ed. í þessu máli, með því að láta hér í mér heyra. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka frekar það sem fram kom í máli hv. 1. flm. till., 2. þm. Austurl., Helga Seljan, en hann flutti á fundi Sþ. s. l. laugardag mjög ítarlega framsöguræðu um þetta mál sem því miður allt of fáir hv. þm. hlustuðu á. Ég leyfi mér að benda hv. þm. á að lesa vel þessa þáltill. því að í henni koma fram öll helstu atriði sem þetta mál varða. Aðalatriðið er að skriður komist á þessi mál og að raunhæfar úrbætur sjái dagsins ljós hið bráðasta.