08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

139. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan segja nokkur orð um þetta mál áður en það fer til nefndar.

þáltill., sem hér er til umr., fjallar óneitanlega um mjög mikilvægt málefni sem vert er að ræða ítarlega og þá einnig frá ýmsum hliðum. Ég get tekið undir mjög margt af því sem stendur í grg. og hv. fyrri flm. hefur um hana sagt í ræðu sinni. Menningarmál eru mjög snar þáttur í nútímaþjóðfélagi og þeim ber að sinna ekki síður en þegar um önnur þjóðmál er að ræða.

Þó er því ekki alltaf að heilsa, að umræður um menningarmál veki almennan áhuga hér á landi. Þar á meðal er því alls ekki að heilsa, að þessi mál veki almennan áhuga hér á hv. Alþingi, eins og reyndar mæting á þessum fundi vottar. Og það er ekki alveg laust við það, að sumum þyki eins og tíma þingsins sé spillt ef stofnað er til umræðna um þessi efni fram yfir það sem bráðnauðsynlegt getur talist. Og jafnvel þá má benda á það, að efnt sé stundum til umr. um menningarmál af heldur leiðu tilefni ellegar að slíkar umræður fái á sig lítt þekkilegan blæ, ef satt skal segja.

Ég vona einlæglega að sú þáltill., sem hér er flutt, verði til þess að vekja upp jákvæðar umræður um menningarmál og stöðu þeirra í þjóðfélaginu yfirleitt. Ég tel að á því sé mikil þörf að slíkar umræður geti farið fram sem almennast og víðast í þjóðfélaginu, og þær mættu vissulega setja meiri svip á stjórnmálaumræður en raun ber vitni, því að auðvitað heyra opinber menningarmál stjórnmálunum til. Hér er um svo víðtækan málaflokk að ræða, að nauðsynlegt er að kynna sér marga og ólíka þætti ef eitthvað gagnlegt á að koma út úr slíkum umræðum.

Hitt er líka jafnvíst, að menningarmál eru áhugavert og skemmtilegt umræðuefni sem enginn þarf að sjá eftir að sinna ef hann gefur sig að þeim. Því er það vel þegar flutt eru þingmál sem líkleg eru til þess að vekja jákvæðar umræður um menningarmál.

Ég tel ekki ástæðu til að rökstyðja í afar löngu máli hvers vegna nauðsynlegt er og skylt að menningarmálum sé sinnt af kostgæfni. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að helsta samfélagsmarkmið íslenska ríkisins er að tryggja stjórnarfarslegt sjálfstæði landsins og að efla þjóðmenningu Íslendinga. Öll okkar stjórnmála- og efnahagsstarfsemi hlýtur að stefna að því, að þessum meginmarkmiðum sé náð. Að þessu leyti eru menningarmálin mikilvægari í raun og veru heldur en önnur þjóðmál, að sjálfstæðismálunum þá einum undanteknum.

En hvað eru menningarmál? Eins og ég hef sagt hér áður ná þau yfir mjög vítt svið. Ég bendi á að varast verður tilhneigingu til þess að þrengja merkingu þessa orðs. Ég ætla að nefna nokkra þætti í upptalningu, nokkra þætti mannlegra víðfangsefna og áhugamála sem felast í orðinu menningarmál. Ég nefni bókmenntir og útgáfustarfsemi, tónlist, myndlist og byggingarlist, leiklist, danslist, íþróttir, skák, minjasöfn, þ. e. menningarsöguleg söfn, bókasöfn og handritasöfn, skjalasöfn, fræðimennsku hvers konar og rannsóknarstörf. Þetta er ekki tæmandi upptalning og gerir ekki betur en gefa svolitla hugmynd um það, hversu vítt svið menningarmálanna er. Hver einstakur þáttur þessa yfirgripsmikla málaflokks er marggreindur. Þannig segir það ekki mikla sögu þótt talað sé um bókmenntir í einu orði. Og hið sama er að segja um tónlist og myndlist og aðrar listgreinar. Safnheiti af slíku tagi gefa aðeins hugmynd um hvað við er átt. Þau marka útlínur án allrar nákvæmni.

Því er það, að þegar rætt er um menningarmál og stöðu þeirra í þjóðfélaginu verða menn að hafa víðan sjóndeildarhring. Ekki á það síst við þegar rætt er um þörf þess að móta stefnu í menningarmálum. Ég geri alls ekki litið úr þeirri þörf og þeirri nauðsyn að marka slíka stefnu, en skilyrði allrar skynsamlegrar og jákvæðrar stefnumótunar er þekking á staðreyndum sem snerta þau mál sem á að móta stefnu um. Því er mikilvægt, áður en farið er að tala um stefnumótun, t. d. í menningarmálum, að menn safni upplýsingum og hvers kyns gögnum sem auka mönnum heildarþekkingu á viðfangsefninu. Þar á meðal er nauðsynlegt að menn séu fúsir til að taka þátt í opinskáum umræðum og rökræða mál fremur en að sækja þau af ofurkappi áróðursmannsins. M. ö. o.: ég legg mikið upp úr því, að samfara löngun og vilja til þess að efla menningarlega starfsemi sé skilningur á gildi menningarmála almennt og vilji til þess að afla þekkingar um alla þætti þessara mála og stöðu menningarmálanna í heild. Ég er ekki í vafa um að flm. þessarar till. eru mér sammála um þetta.

Þegar rætt er um stefnumótun í menningarmálum er gjarnan látið í veðri vaka að mikill misbrestur sé á mótun menningarmálastefnu hér á landi, jafnvel sagt sem svo, að hér á Íslandi sé engin stefna í menningarmálum fyrir hendi. Einnig er þess oft og einatt getið, að í öðrum löndum sé meiri skilningur á mótun menningarmálastefnu, enda sé stefnumörkun í þessum efnum miklu skýrari og lengra á veg komin en hér í okkar landi. Þetta kann að vera rétt. En ég hef samt tilhneigingu til að taka slíkum fullyrðingum með nokkrum fyrirvara, án þess að ég sé að gera meira úr góðu ástandi þessara mála hér á landi en efni eru til, það er siður en svo. Sannleikurinn er sá, að flestar þjóðir, sem okkur eru kunnastar, eru að þreifa fyrir sér í þessum efnum.

Það er rétt, að umræður um menningarmál og menningarmálastefnu hafa aukist víða um lönd og á alþjóðaþingum á síðari árum. Hins vegar mun talsvert skorta á það í öðrum löndum, eins og reyndar hér á landi, að mótuð hafi verið slík heildarstefna, hvort heldur er fræðilega eða í framkvæmd, að ekki séu einhverjir meinbugir á slíkri stefnu. Ég er stundum að velta því fyrir mér, hvort um þetta útlenda orð: „kúltúrpólitík“, leiki ekki oft og einatt einhvers konar dýrðarljómi sem hafið hefur merkingu orðsins í æðra veldi, þ. e. á þann hátt að menn telji að búið sé að móta og verið sé að framkvæma heildstæða og efnismikla menningarmálastefnu alls staðar þar sem haldnar hafa verið ráðstefnur um „kúltúrpólitík“.

Hugmyndum af þessu tagi tek ég með miklum fyrirvara. En ég neita því alls ekki að svo geti verið, að aðrar þjóðir standi okkur miklu framar í þessum efnum. En til þess að fá úr því skorið þarf meiri upplýsingar og gleggri samanburðaraðferðir en fyrir hendi eru. Það, sem ég hef kynnst af eigin athugun á þessum efnum, virðist mér benda til þess, að áhugamenn um menningarmál erlendis séu að velta fyrir sér mjög svipuðum spurningum og glíma við sömu vandamál og við sem erum áhugamenn um þessi efni hér uppi á Íslandi. Ég held að eðlismunur vandamála á þessu sviði frá einu landi til annars sé lítill. Ég held að allt áhugafólk um menningarmál, um listir og bókmenntir o. s. frv., hvort heldur er á Norðurlöndum eða á Íslandi, eigi við sams konar vanda að etja. Ef lesnar eru ályktanir alþjóðafunda um menningarmál, og ég hef reyndar setið suma slíka fundi, þá nefni ég m. a. margt af því sem ályktað hefur verið á fundum ráðherra og þingmanna á vegum Evrópuráðsins. Slíka fundi hef ég setið. Þær ályktanir eru flestar og fyrst og fremst viljayfirlýsingar og tillögur um það sem betur mætti fara í meðferð menningarmála. Slíkar ályktanir eru ábendingar um æskileg markmið í menningarmálum og áskoranir á ríkisstj., en eru því miður ekki alltaf vitnisburður um að slíkum markmiðum hafi verið náð né að skelegglega sé að ~eim unnið í hinum ýmsu löndum.

Ég hef ekki tök á því að gera almenna úttekt á stöðu menningarmála hér á landi, hvað þá að bera hana saman við önnur lönd. Til þess skortir mig gögn og upplýsingar. Ég held hins vegar að nauðsynlegt sé að gera slíka úttekt. Og ef það er meiningin að móta til langs tíma heildstæða menningarmálastefnu, þá er það undirstöðuatriði að víðtæk könnun verði gerð á þessu sviði.

Ég vil geta þess, sem ég hef reyndar minnst stuttlega á áður í ræðu á hv. Alþingi, að í menntmrn. hefur að undanförnu verið unnið að því að gera yfirlit yfir framlög hins opinbera til menningarmála og reynt að meta þróun þessara mála í ljósi samanburðar milli ára. Fyrst og fremst hefur verið gert yfirlit yfir árabilið 1970–1978, að báðum þessum árum meðtöldum. Unnið er að því að fullgera skýrslu um þetta tímabil og þegar því verki er lokið verður hún birt. Í þessu yfirliti er þeirri reglu fylgt að túlka orðið menningarmál mjög rúmt, eins og ég hef lagt áherslu á í þessari ræðu minni að gera beri. Í yfirliti þessu verða framlög til menningarmála flokkuð eftir sameiginlegum einkennum, í framlög til bókmennta, lista hvers konar, myndlistar, tónlistar, leiklistar o. s. frv., einnig íþrótta, minjavörslu og safnmála og margra annarra þátta. Í þessu yfirliti verður gengið út frá því að meta framlög til menningarmála á þrennan hátt. Það verða, ef svo má segja, lagðir þrír mælikvarðar á framlög til menningarmála þetta tímabil.

Í fyrsta lagi má bera framlög til menningarmála saman við þjóðarframleiðslu. Í öðru lagi má bera þau saman við þróun verðlags og í þriðja lagi má bera þau saman við heildarútgjöld ríkissjóðs. Ef að er gáð hafa framlög til menningarmála miðað við þessa þrjá mælikvarða farið nokkuð vaxandi á árabilinu 1970–1978, þannig að á meðan framlög til menningarmála 19-földuðust milli áranna 1970 og 1978 16.9-földuðust ríkisútgjöld, 12.8faldaðist þjóðarframleiðsla að krónutölu og verðlag 8.2-faldaðist. Þrátt fyrir að heildarframlög til menningarmála hafi þannig aukist samkv. þessum upplýsingum hafa framlög til hvers einstaks þáttar ekki aukist jafnt.

Það kemur fram í þessu yfirliti að framlög til íþrótta- og æskulýðsmála hafa aukist mest, og munar þar mest um aukin framlög til Íþróttasjóðs. Næstmest hafa framlög til tónlistar aukist, og segir þar til sín stóraukin og vaxandi tónlistarfræðsla. Framlög til myndlistar og leiklistar hafa einnig aukist talsvert og munar þá mest um framlag til Listasafns og Þjóðleikhússins að því er virðist.

Það er athyglisvert í þessari skýrslu, og ég vil gjarnan benda mönnum sérstaklega á það, að framlög til stofnana og skóla hafa aukist mun meira en framlög til einstaklinga og félagasamtaka. Um það bil 3/4 hlutar framlaga til menningarmála á árinu 1978 fóru til stofnana og skóla sem tengdir eru listum og menningarmálum.

Til fróðleiks get ég nefnt það, að á árinu 1978 fóru u. þ. b. 19% af menningarmálaframlögum til leiklistarstarfsemi, 17% til tónlistar, 15% til bókmennta og 12% til íþrótta og æskulýðsstarfa. Önnur viðfangsefni fengu minna.

Ég hef ekki möguleika á því, herra forseti, að tala meira um þessa skýrslu, sem er verið búa til, eða yfirlit, sem kalla mætti um framlög til menningarmála á árunum 1970–1978, en það er unnið að því að fullgera þessa skýrslu og búa hana til prentunar. Ég vona að þessi skýrsla verði gagnlegt framlag til umræðu um stöðu okkar í menningarmálum þegar hún hefur verið birt og menn fá tækifæri til að meta þær upplýsingar sem hún hefur að geyma. Ég vona m. a. að hún geti komið að haldi í frekari umræðum um mótun menningarmálastefnu, þó að ein sér hafi hún ekki allsherjargildi og ekkert úrslitagildi.

Ég hef áður drepið á þá skoðun margra, að Íslendingar séu eftirbátar annarra menningarþjóða í framlögum til menningarmála. Ég hefði gjarnan viljað geta gert mér rökstudda grein fyrir hvort þannig sé í raun og veru. Mér er ekki kunnugt um að til sé aðgengilegur samanburður í þessu efni og hvað þá óumdeilanlegur. Ég held því að það sé mikil nauðsyn á því að hefja undirbúning undir að gera rækilega könnun á þessu efni. Og ég er fús til þess að veita atfylgi míns rn. í þessu efni. En mér sýnist að slíkt mál þurfi góðan undirbúning.

Þess vil ég þó geta, að á vegum menntmrn. hefur nú nýlega verið gerður einfaldur samanburður á framlögum íslenska og norska ríkisins til menningarmála og þessi samanburður er gerður miðað við verga þjóðarframleiðslu í þessum löndum. Þessi samanburður er fólginn í því að gefa upp þúsundarhluta eða pro-millehluta menningarframlaga af vergri þjóðarframleiðslu. Og þá sýnir þessi tafla, sem gerð hefur verið samkv. beiðni minni í rn., — þetta spannar yfir tímabilið 1972–1978, að menningarframlög af vergri þjóðarframleiðslu pro-mille eru árið 1972 á Íslandi 0.413, í Noregi 0.185. Árið 1973 er pro-mille-talan á Íslandi 0.384, í Noregi 0.185, sama og 1972. Árið 1974 kemur þetta út: Ísland með 0.444, Noregur 0.173. Árið 1975: á Íslandi 0.442, í Noregi 0.208. Árið 1976: 0.415 á Íslandi, 0.222 í Noregi. Árið 1977: 0.506 á Íslandi, 0.245 í Noregi. Árið 1978: 0.576 á Íslandi og 0.268 í Noregi.

Þessar tölur benda ekki til þess að Íslendingar séu eftirbátar Norðmanna í þessum efnum. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þessar tölur eða leggja neitt sérstaklega út af þessum samanburði. En ég held samt sem áður að það sé mjög gagnlegt fyrir okkur að safna ýmsum svona tölum og bera hlutina saman frá einu landi til annars og innbyrðis í okkar fjárlagaþáttum og efnahagsþáttum.

Herra forseti. Ég skal senn láta máli mínu lokið. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt, að ég tel þessa till. líklega til þess að stofnað verði til jákvæðrar og gagnlegrar umræðu um menningarmál. En ég bæti því hins vegar við, og ég legg á það áherslu, að mótun heildstæðrar stefnu í menningarmálum er ekki auðvelt verk. Menningarmál eru mjög víðtækt hugtak og margs að gæta þegar um þau er rætt. Ég vara við því að ræða þessi mál frá þröngu sjónarhorni, án þess þó að ég sé að gefa neitt í skyn um að það sé gert eða að það verði gert. En slík viðvörun á fullan rétt á sér.

Það er án efa rétt, að oft hefur skort skýra mótun menningarmálastefnu og fengur væri að því ef takast mætti að marka hana ljósar en við hefur viljað brenna. En í svo fjölgreindu lýðræðisþjóðfélagi eins og því sem hér ríkir verður að tryggja sem víðtækastar umræður, þar sem öll sjónarmið geta komið fram, og að eðlilegt jafnvægi verði milli hinna ýmsu þátta menningarmála þegar stefnan er mörkuð. En umfram allt legg ég á þessu stigi áherslu á nauðsyn upplýsingaöflunar um menningarmál. Á þeim er skortur í mörgum tilfellum og úr því þarf að bæta.

Þó að þessi till. gefi tilefni, herra forseti, til frekari umræðu í sjálfu sér ætla ég ekki að lengja mál mitt. Eins og hv. frsm. gerði mjög ítarlega, þá væri hægt að víkja miklu nánar að flestum atriðum sem þetta mál snerta. Það væri hægt að ræða ítarlega um stöðu rithöfunda og listamanna yfirleitt í þjóðfélaginu. Ég hygg að það væri mjög gagnlegt og nauðsynlegt verkefni. Einnig væri hægt að ræða náið um dreifingu listar meðal almennings og hvernig hægt væri að gera list að meiri almenningseign en nú er. Það er mikið mál að ræða þetta. Það væri einnig ástæða til þess að ræða sérstaklega um safnamálin, ekki síst stöðu þjóðfræða og menningarsögu í heildarumsvifum menningarmálanna, eins og kom réttilega fram og allrækilega í ræðu hv. frsm. hér áðan. Að svo komnu máli mun ég þó ekki fara frekar út í þessi mál, en læt þá von í ljós, að áhugi og skilningur á menningarmálum megi vaxa meðal almennings og reyndar meðal ráðamanna þjóðarinnar yfirleitt. Ég efast ekki um að margt mætti betur fara í stjórn og skipulagi menningarmála sem annarra opinberra mála, og þá er eðlilegt að gefa því gaum þegar ítarlegar umræður verða um þessi efni, ekki síst ef undirbúa á heildstæða stefnu í menningarmálum sem gilda skal um langa framtíð.