08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

139. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Guðrún Hallgrímsdóttir:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorð. Ég fagna fram kominni þáltill. og ég er þeirrar skoðunar að hin mörgu afskiptu svið í menningarmálum beri þess glöggt vitni að stefnumótunar er þörf. Og þótt till. verði kannske ekki til annars en að hvetja til þess að hafin verði víðtæk umræða um menningarmál og mótun menningarstefnu, þá hefur töluvert áunnist, því að liður í slíkri umræðu yrði án efa spurningin: Menning fyrir hvern?

Við lifum í slíku þjóðfélagi að stórum hluta þjóðarinnar er meinuð þátttaka í félags- og menningarlífi. Ég á við hinn óhóflega langa vinnudag sem hér tíðkast og fyrir löngu er orðinn þjóðarósómi. Þjóðlífi okkar er svo háttað, að menn vinna daglega 12–14 tíma og jafnvel oft um helgar, og sér það hver heilvita maður að þá er enginn tími eftir til þátttöku í menningarlífi.

Um leið og ég læt í ljós þá von, að þessi till. verði samþykkt og með henni takist e. t. v. að vinna upp margra ára vanrækslu á sviði menningarmála, þá verði jafnframt gerð ítarleg könnun á óhóflegu vinnuálagi alls þorra vinnandi fólks og gripið til raunhæfra aðgerða til þess að ráða bót á því. Annars er ég hrædd um að íslensk menning verði aldrei neitt annað en sparimenning fyrir fáeina útvalda, eða eins og segir í grg. „minningin ein“.