08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

139. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Mér þótti miklu miður að hv. 1. þm. Vestf., sem ég vissi að ætlaði að leggja hér orð í belg, gat ekki komið því við, því það hefði án efa verið ágætur lestur sem þar hefði komið. Ég veit að áhugi hæstv. núv. menntmrh. á þessum málum í heild sinni er alveg ótvíræður. Ég tek fyllilega undir orð hans um undirbúning og umræðu. Það er vissulega þörf á því. Ég held að ég hafi líka sagt það, að tillögunni, eins og hún er orðuð, mætti breyta og við flm. hefðum síst við það að athuga. Sú úttekt, sem var nefnd af hæstv. ráðh., er vissulega góðra gjalda verð og ég heyri á honum að hann er þegar byrjaður á þeirri úttekt að nokkru leyti. Hún er nauðsynleg. Við erum þannig á vegi staddir í þessum efnum, að við verðum að vita eitthvað meira en þarna er slegið fram, og er ég þó ekkert að gera lítið út staðhæfingum þeirra sem mér hafa hjálpað við þessa þáltill.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði: það eru margir sem segja: Það er engin menningarstefna. Ég tek ekki undir þetta, því í mörgum málum er það svo, að við höfum ákveðna stefnu. Ég hef hins vegar sagt það, að þessi stefna væri of tilviljanakennd og fjárveitingarnar alveg sérstaklega of tilviljanakenndar. Og ég hef bent á það margoft í sambandi við fjárveitingar til þessara mála, að þær eru nokkuð fastbundnar og öruggar til þeirra föstu stofnana sem fást við listræn málefni og menningarstarfsemi, eins og Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveitin. En síðan vill verða allt lakara um ýmsa áhugastarfsemi sem ég tel engu síður mikils virði, og ég held að það fari ekkert á milli mála hjá þeim, sem hafa fylgst með því sem ég hef sagt hér á Alþ. um menningarmál, — nema þá hv. 9. þm. Reykv., sem er þá í þessu tilfelli í því hlutverki sem hann var að tala um annan hv. þm. áðan, — það hafi ekki farið fram hjá neinum, að öll mín menningarumræða hér hefur beinst að því, að menningin næði sem best til fólksins í landinu og fólkið sjálft tæki sem allra virkastan og bestan þátt í henni og að stofnanamennskan í þessu væri ekki allsráðandi. Um þetta eru töluverðar deilur meðal listamanna. Margir þeirra vilja hafa stofnanamennskuna allsráðandi. Og ég veit það, að meðan hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, var hér við völd, þá var svo sannarlega unnið að ýmsum verkefnum á sviði áhugamennskunnar. Hins vegar fannst mér þá stofnanamennskan tröllríða menningunni og fjárframlögum til hennar. Það er staðreynd. Ætla ég þó ekki að vanmeta það góða sem þó kom á miðju því tímabili, sem hann var við völd, varðandi leikfélögin. En það var í raun og veru það langmerkasta sem kom í sambandi við áhugamennskuna.

Ég er ekki einn af þeim mönnum sem eru með einhvern dýrðarljóma yfir þessari „kúltúrpólitík“, eins og hæstv. ráðh. sagði. Það er þveröfugt. Það er alveg rétt, þessi stefnumörkun er á hverjum tíma til endurmats og á að vera stöðugt til endurskoðunar. Þar af leiðandi er ég alveg sammála því, að við eigum auðvitað alltaf að vera með þetta í athugun og vissulega væri það best og eðlilegast. Ég tek alveg undir það. Hver sem það segir og hvað oft sem það er endurtekið jafnvel, þá tek ég alveg undir það, að við eigum auðvitað ekki að vera að fastbinda okkur neitt í þessu efni. Og við eigum líka að ætlast til þess, — þar er ég sammála, — að menntmrh. á hverjum tíma gegni þessari skyldu sinni. Þetta hefur bara ekki gerst hér.

Hins vegar hafa flokksbræður hv. 9. þm. Reykv. á Norðurlöndum séð alveg sérstaka ástæðu til þess að móta svona menningarstefnu. Og sem betur fer veit ég það með vissu, að hæstv. fyrrv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hafði mjög mikinn áhuga á því að koma einhverju slíku skipulagi á hér, eitthvað svipað og er á Norðurlöndunum. (VG: Það er ekki svona helvítis moð.) Moðið, sem þú finnur út úr þessu, Vilmundur, það last þú í reiði þinni áðan. Ef þú lest till. getur þú að vísu lesið hvað sem er út úr henni, vegna þess að við vildum hreinlega ekki orða hana sterkar en raun bar vitni. Það eiga aðrir að gera það, þeir sem eru til þess færari en jafnvel við Guðrún Helgadóttir, hv. þm., þó að við séum auðvitað mjög vel fær til þess ef við vildum leggja okkar tíma í það. Og það er velkomið fyrir hv. þm. Vilmund Gylfason að fá frá okkur nokkur lagafrv. í sambandi við þetta. Ég hef verið á ferðinni með lagafrv. í sambandi við þetta t. d. og unnið að lagafrv. í sambandi við þetta, m. a. varðandi leiklistarlögin, sem ég átti ágætan þátt í, en aðrir kannske miklu meiri. Og kannske hefur moðið verið þar frá mér, en dýrðin frá öðrum, ég segi það ekki.

Það er hins vegar alveg rétt, það má alltaf deila um hvernig framsöguræður eiga að vera. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. 9. þm. Reykv., sem er öllum mönnum snjallari í framsöguræðum, um hvernig þær eiga að vera.

Ég hef alltaf dálitlar mætur á þessum semínarisma í ræðustíl. Ég skil það vel, að þetta fari í taugarnar á hv. þm. Þetta mun hafa verið heimilisböl um langan aldur hjá honum. En ég hafði alltaf á þessu dálæti. Þessi hátíðlega skrúðmælgi í lok ræðna t. d., sem ég nota stundum og hæstv. fyrrv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, er auðvitað allra manna kunnastur fyrir, ég kann mjög vel að meta hana, mér finnst hún skapa stemmningu og ég kann vel við hana. Ég verð að segja nákvæmlega eins og er.

En það er rétt, að endurtekningar á áður sögðum hlutum geta verið hvimleiðar. Og ég skil það mætavel hjá hv. 9. þm. Reykv., sem yfirleitt endurtekur aldrei nokkurn skapaðan hlut, segir hann einu sinni skýrt og skorinort og síðan ekki söguna meir. Það er þó víst og satt.

En vegna þess að þarna fór hann þó út af sínu gamla lagi og endurtók ansi oft ýmis orð, þá var þó að vísu sá munur á þessari ræðu hans og mörgum öðrum, að ég vissi í lokin alveg hvað hann hafði verið að segja, var það alveg ljóst.

Að lokum vil ég svo aðeins segja það við hv. þm., af því að ég vil losa hann við reiði og reiði hans var mikil hér áðan, sennilega út af því að hann fékk ekki að ræða fsp. sina, sem mér finnst alveg réttmæt og eðlileg reiðiorsök, hann má til með að fá að ræða hana fyrir þinglok og tala um Olíumöl, mér finnst það ekki nema eðlilegt, — en út af þeim orðum, sem hann sagði áðan, vil ég aðeins láta það verða mín lokaorð, ég er nú ekki vanur að mæla með slíku, en svei mér ef ég mæli ekki með því við hv. þm., að hann geri frekar það sem hann minntist á í ræðu sinni: að fara og fá sér neðan í því, heldur en koma hér í ræðustól með svona ræðu — svei mér þá.