08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér hér í hugmyndafræðilegar deilur um það, til hvers eigi að nota rafmagnið eða hvort orðið hafi mistök og hvers vegna við Kröflu á sínum tíma í sambandi við þær ákvarðanir sem þar voru teknar. En ég vil leyfa mér að lýsa því strax yfir og án þess að hafa um það mjög mörg orð, að ég tek undir þennan tillöguflutning hjá þeim þremenningunum, hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, Vilmundi Gylfasyni og Karli Steinari, um það að fela ríkisstj. að láta fara fram ítarlega könnun á flutningi á gufuhverfli frá Kröflu suður á Reykjanesskaga.

Ég vil hins vegar taka það fram, að ég tel að þetta mál þurfi mjög gaumgæfilegrar könnunar við. Staðreyndin er sú, að ég held að það sé samdóma álit þeirra, sem gerst þekkja til, að fá háhitasvæði á landinu séu betur þekkt í dag en háhitasvæðin á Reykjanesi og þá sérstaklega við Svartsengi. Og það hefur komið í ljós við þær kannanir, sem þar hafa farið fram og Hitaveita Suðurnesja hefur látið gera, að jarðhitageymirinn sjálfur er minni en áætlað var í upphafi. Þess vegna held ég að það hefði verið heppilegra að keyptar hefðu verið fleiri en minni túrbínur vegna Kröflu. Það hefði verið heppilegra að flytja minni túrbínur suður og reyna fyrir sér.

Hjá Hitaveitu Suðurnesja hefur verið framleitt rafmagn með því sem sumir hafa kallað tvínotkun gufunnar, ef svo má taka til orða til einföldunar, og hefur stjórn hitaveitunnar viljað, áður en ákvarðanir eru teknar um frekari boranir og frekari úrtöku úr svæðinu, fá Keflavíkurflugvallarsvæðið inn til þess að sjá hvernig jarðhitageymirinn bregst við þeirri úrtöku.

Ég bendi hins vegar á ágæta grein sem Jónas Elíasson prófessor skrifaði í Vísi nú ekki alls fyrir löngu, þar sem hann bendir einmitt á eða varpar fram þeirri spurningu, hvort rétt sé að flytja aðra túrbínuna suður og þá fyrst og fremst til notkunar sem varastöð. Ég held að það væri e. t. v. miklu girnilegra núna a. m. k., eða uns reynslan af stöðugri úrtöku úr jarðhitapottinum hefur komið í ljós, að nýta hverfilinn sem vararafstöð. Og staðreyndin er sú, að mjög langan tíma ársins er hægt að nýta svona túrbínu þarna sem vararafstöð án mjög margra nýrra borhola og mikils borunarkostnaðar. Einnig er þetta háð því hvernig vatnsbúskapur í landinu stendur. Fróðir menn hafa sagt mér, að tæknilega mæli ekkert gegn því að gera þetta, það sé hins vegar spurningin hvað svæðið þolir í raun og veru.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég mæli mjög með því, að þessi till. verði samþ. og þessi könnun fari fram, svo úr því verði skorið hvort þetta sé skynsamlegt eða ekki, og þá ekki til þess að draga úr þeim framkvæmdum, sem þyrfti að gera norður við Kröflu, heldur sýnist mér, eins og dæmið stendur í dag, að þó að næstu holur, sem búið er að ákveða að ráðast í, takist vel, þá verði það ekki meira en til að nýta þann hverfil sem þegar er búið að setja upp við Kröflu.