21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag var frá því greint að komin væri upp sú staða að ekki mundi verða flogið t.d. til Ísafjarðar næstu daga, vegna fjárskorts bæði að því er varðaði kaup á eldsneyti á flugvélar svo og, að mér skildist, vegna fjárskorts til þess að hreinsa flugbrautir þar vestra. Að vísu var sagt í þessari frétt að veðurguðirnir væru nú þannig skapi farnir í dag að þeir leyfðu ekki flug á Ísafjörð, en það hefði engu breytt, vegna fjárskorts mundi ekki verða flogið þangað nú.

Ég tel þetta mikið alvörumál og tel ástæðu til að fá um það upplýsingar hér á Alþ. hvort sú staða er komin upp sem hér var frá skýrt.

Nú er það svo, og ég vænti þess að þm. almennt viti um það, a.m.k. ættu þeir að þekkja það margir hverjir, að t.d. var í síðustu viku ekki flogið til Ísafjarðar í 4 daga vegna óhagstæðs veðurfars. Það kæmi því illa við þennan landshluta ef til viðbótar því kæmi svo stöðvun af manna völdum, vegna þess að ekki hefði verið séð fyrir því að fé væri fyrir hendi til að greiða nauðsynlega aðstöðu vegna flugsins. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvað sé hæft í þeim fregnum sem birtar voru í Ríkisútvarpinu í dag um að flug gæti ekki farið fram með eðlilegum hætti til Ísafjarðar og hugsanlega fleiri staða vegna þess að það vantaði fjármagn til að greiða nauðsynlega þjónustu sem fluginu er samfara.