08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2516 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. þm. Vilmund Gylfason afsökunar á því að mér er óhægur rómurinn, afleiðingar af inflúensu, hæsi sem veldur, en hvergi nærri nein deigla í afstöðu minni til þeirra mála sem hér eru til umræðu. Raunar vissi hv. þm. þetta og rifjaði upp fyrir mér atburð sem ég lifði tæplega tvítugur. Ég hafði meitt mig í fæti og þurfti að vera í landi um sinn. Að mér kom á balli gamall skipsfélagi minn sem þóttist eiga mér grátt að gjalda, átti við mig orðastað og hljóp í kringum mig, þannig að hann hélt að ég næði ekki til hans. Ég náði til hans og hann hljóp ekki næstu vikurnar á eftir. Og einu skal ég heita hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, ef guð gefur mér heilsu til á þessu vori að þannig mun ég tala til hans að hann heyri það sem ég segi.

Ég sagði ekki áðan annað um afstöðu Alþfl. til borana við Kröflu á síðasta ári heldur en það, að hann hefði beitt neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir boranir eftir gufu á því ári, og það var satt. Og svo skulu menn furða sig á því, þótt fyrirtæki, orkuöflunarfyrirtæki sem komið hefur verið upp að öllum stofnkostnaði, hlaði á sig vöxtum af kapítali sem ekki fær þá orku sem til þess þarf að snúa vélunum svo sem til var ætlast sökum afstöðu, pólitískrar afstöðu, réttrar eða rangrar, eins af þeim flokkum, stjórnmálaflokkum, sem fóru með völd í landinu.

Þó var nú hvorugt þetta sem var erindi mitt hingað, hvorki að afsaka róm minn, eins og hann er í bili, né heldur að vekja athygli á því sem staðreynd var þó um afstöðu Alþfl. til frekari borana við Kröflu árið sem leið, heldur það sem hv. þm. Arni Gunnarsson sagði, að bændur úr Mývatnssveit færu nú til Akureyrar með friðarfána til stjórnar Laxárvirkjunar og bæðu um að reist yrði stífla í Laxárdal og virkjuð þessi megawött sem eftir eru. Ég skora á hv. þm. Árna Gunnarsson að nafngreina fyrir okkur þessa bændur úr Mývatnssveit, ellegar þá að öðrum kosti þá menn úr stjórn Laxárvirkjunar sem hafi sagt honum þau tíðindi að bændur hafi þessa afstöðu núna. Það væri þægilegt að fá þessar fréttir nú þegar í fjölmiðla, a. m. k. inn í þingtíðindi, ef verða mætti til þess að flýta fyrir því að hinn ugglausi sannleikur komi í ljós.