08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

163. mál, flutningur gufuhverfils Kröfluvirkjunar til háhitasvæðis á Reykjanesskaga

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær ágætu undirtektir við efnisatriði þessarar till. sem hv. þm. Stefán Jónsson bar hér fram, í miklum umbúðum af öðru tagi að vísu. En mér er ekki ljóst hvort hv. 5. þm. Vestf. styður þessa till. eða ekki. Málflutningur hans gaf ekki tilefni til þess að menn gætu gert upp hug sinn um það efni. En ég vænti þess, að hann snúist til réttrar áttar eftir næga umhugsun. Mér þykir auðvitað fyrir því að ekki skyldu höfð nógu mörg orð að dómi hv. 5. þm. Vestf. um þær athuganir og það mat sem nauðsynlegt væri að leggja á háhitasvæði. Ég taldi og tel nægilegt að benda á það, sem ætti að gera, og áleit að það væri jafnaugljóst þó orðin yfir það væru ekki á mörgum blaðsíðum, heldur rúmuðust í einni setningu. Ég tel að það sé fullskýrt í grg. hvað þarna skuli gera. Og ég vil taka það fram, að þegar notað er orðið athugun í þáltill. sjálfri, þá er ekki talað eingöngu um hagkvæmnisathugun, heldur almennt um athugun, og þá er innifalið allt sem upp er talið í grg. að athuga skuli.

Ég tel að hér sé í sjálfu sér um brýnt mál að ræða og það sé sjálfsagt að hefja þessar athuganir allar sem allra fyrst. Og ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan, að ósk mín er sú og ég trúi því og treysti að Alþ. muni afgreiða þessa till. áður en það fer í sumarfrí, þannig að það megi komast til framkvæmda sem hér er lagt til að verði gert. Á niðurstöðum athugunarinnar eiga menn síðan að byggja ákvarðanir sínar. Og það er auðvitað alrangt, sem mér fannst skína í gegn hjá a. m. k. einum ræðumanni hér áður, að í þessari till. felist ákvörðun. Það er ekki rétt. Hér er einungis um það að ræða að leggja í athugun af þessu tagi til þess að leitast við að koma málinu í skynsamlegri farveg og finna leið til þess að nýta — ja, 5 milljarða fjárfestingu að líkindum, sem liggur þarna án þess að skila neinum árangri og ekki verður séð að komist í notkun í fyrirsjáanlegri framtíð eða á næstu árum, þar sem þessi tæki eru nú niður komin.