08.05.1980
Sameinað þing: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

157. mál, gjaldskrárbreytingar þjónustustofnana

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram till. til þál. um gjaldskrárbreytingar þjónustustofnana sem orðast þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um, að þjónustustofnunum ríkisins verði gert skylt að senda allar till. um gjaldskrárbreytingar til umsagnar Neytendasamtakanna.“

Grg. með þessari þáltill. er stutt, enda þarf ekki að hafa mörg orð um svo auðskilið efni.

Það er ljóst, að ríkið er stærsti og öflugasti framleiðandi þjónustu og hefur í langflestum tilvikum einokunarrétt á þeirri framleiðslu. það er þess vegna eðlilegt að reynt sé að efla almennt eftirlit og aðhald með gjaldskrám og verðlagningu á þjónustu ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Í raun og veru erum við alla tíð að rembast við það að herma eftir markaðnum þegar við höldum úti okkar aðhaldsstefnu gagnvart framleiðslu ríkisins, og það má segja að gjaldskrárnefndir og rn. og þeir aðilar aðrir, sem fara með völd Alþingis í þeim efnum, komi í stað markaðsaflanna sem notuð eru þar sem þau eiga við og um heilbrigða samkeppni er að ræða.

Ég kemst ekki hjá því í þessari framsöguræðu að nefna örlítið einn slíkan aðila sem hefur eftirlit með verðhækkunum í landinu, og það er gjaldskrárnefnd. Í gjaldskrárnefnd sitja nú Georg Ólafsson verðlagsstjóri, sem jafnframt er formaður, Þórður Friðjónsson og Ragnar Árnason, sem báðir eru viðskiptafræðingar. Í erindisbréfi þeirrar nefndar er gert ráð fyrir að gjaldskrárnefnd sé nokkurs konar trúnaðarnefnd ríkisstj. eða umsagnaraðili hennar. Ríkisfyrirtæki og stofnanir, sem selja þjónustu, senda viðkomandi rn. erindi sín um hækkunarbeiðni. Síðan er farið yfir þetta erindi af viðkomandi fagráðuneyti og málið síðan sent til gjaldskrárnefndar. Fallist hún á beiðnina um breytinguna, sem kemur frá fagráðuneytinu, er málið útkljáð, en ef ágreiningur rís á milli gjaldskrárnefndar annars vegar og fagráðuneytis hins vegar fær ríkisstj. málið til úrskurðar, og er nýlegt dæmi um þetta svokallað hitaveitumál sem lesa má um í dagblöðum bæjarins í dag, þar sem fram kemur að Hitaveita Reykjavíkur hefur farið fram á yfir 50% gjaldskrárhækkun. Iðnrn. hefur lagt til að hækkunin verði 40%, gjaldskrárnefnd leggur til að hækkunin verði 10% og ríkisstj. fellst síðan á þá niðurstöðu. Þetta er aðeins tekið sem dæmi um það, hvernig verðlagning á opinberri þjónustu á sér stað.

Núverandi gjaldskrárnefnd hefur sömu reglur til að fara eftir og þær fyrri sem hér hafa starfað frá árinu 1977, nema að nú hefur það bæst við, að gjaldskrárnefnd á að starfa ekki aðeins eftir eðlilegum verðlagsreglum, ef ég má nota það orð, heldur einnig eftir þeim viðhorfum sem koma fram í sáttmála ríkisstj., og er henni þess vegna ærið þröngur stakkur skorinn.

Fyrsta nefndin var sett á laggirnar 1977, eins og ég sagði fyrr, og þá sátu í henni Georg ólafsson, Ólafur G. Einarsson og Halldór Ásgrímsson. En á dögum vinstri stjórnarinnar síðustu sátu í nefndinni Finnur Torfi Stefánsson, Gísli Árnason og Guðmundur Ágústsson, og sést á þessari samsetningu á mannvali, sem í nefndinni hefur setið, hvernig nefndin hefur verið skipuð fyrst og fremst eftir pólitískum hlutföllum á hverjum tíma og líta má á gjaldskrárnefnd alfarið sem fulltrúa ríkisstj. í verðlagningu opinberrar þjónustu. (StJ: Gildandi réttlætis hverju sinni). Það má orða það þannig fyrir þá sem hafa slíka réttlætisvitund sem hv. þm.

Þessi till., sem ég hef flutt hér, fjallar um það, að Neytendasamtökin fái rétt til umsagnar um gjaldskrárbreytingar. Ég vil taka það strax fram, að þegar nefndar eru gjaldskrárbreytingar á ég fyrst og fremst við breytingar á kostnaðarþáttum gjaldskránna, þ. e. tilfærslur á milli kostnaðarliða, sem oft eiga sér stað, en ég á ekki við það þegar um almennar verðlagshækkanir er að ræða.

Í Neytendablaðinu, blaði Neytendasamtakanna, birtist á s. l. ári mjög greinargóð grein eftir Gísla Jónsson prófessor sem ber nafnið: „Viðskipti neytenda við hið opinbera.“ Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa hér örstuttan katla út þessari grein, svo hljóðandi:

„Þau opinber þjónustufyrirtæki, sem hinn almenni borgari á viðskipti við, eru rafveitur, hitaveitur og Póstur og sími. Meginmunurinn á þessum viðskiptum og almennum viðskiptum er að ekki er um að ræða afhendingu á efnislegum hlutum gegn greiðslu söluverðs. Hjá rafveitum er um að ræða sölu á orku sem notandi fær inn í húsveitu sína eftir dreifikerfi rafveitunnar. Hjá hitaveitum er ýmist um að ræða sölu á heitu vatni, sem notandi fær inn í hús sitt frá pípukerfi hitaveitunnar og getur nýtt að eigin vild, ef um er að ræða sölu á þeirri varmaorku sem notandinn getur náð út úr vatni því sem inn í húsið streymir, en skilar henni aftur inn í pípukerfi hitaveitunnar. Varðandi Póst og síma verður einungis fjallað um símaþjónustuna, en þar er um að ræða að notendur greiða fyrir afnot af símakerfi landsins. Hjá öllum þessum fyrirtækjum er það sameiginlegt, að þau eru einokunarfyrirtæki þar sem þau hafa einkarétt til rekstrar síns.

Sameiginlegt með þessum þjónustufyrirtækjum er að þau starfa öll samkvæmt sérstökum reglugerðum. Við lestur þeirra virðist að með útgáfu þeirra sé einkum verið að gæta hagsmuna fyrirtækisins, en minna fer fyrir ákvæðum um rétt notandans. Þegar litið er til þess, að reglugerðirnar eru yfirleitt samdar af stofnununum sjálfum og staðfestar af hlutaðeigandi ráðh., án þess að samtökum notenda, þ. e. Neytendasamtökunum, sé gefinn nokkur kostur á að koma á framfæri athugasemdum, kemur það engum á óvart þótt réttur notandans vilji verða fyrir borð borinn. Reglugerðir rafveitna og hitaveitna sveitarfélaga eru samþykktar af þeim sjálfum og síðan staðfestar af hlutaðeigandi ráðh. Eðlilegt væri að ætla að sveitafélögin gættu hagsmuna íbúanna, en reynslan hefur yfirleitt orðið sú, að þau líta fyrst og fremst á sig sem eigendur veitnanna og yfirstjórnanda þeirra og gæta því fyrst og fremst hagsmuna þeirra.

Þegar reglugerðir þjónustufyrirtækja hafa verið staðfestar eru þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Af því, sem hér hefur verið rakið, er ljóst að mjög æskilegt er að Neytendasamtökunum verði gefinn kostur á veita umsögn um reglugerðir opinberra þjónustufyrirtækja áður en þær eru samþykktar eða staðfestar. Sameiginlegt með öllum umræddum þjónustufyrirtækjum er að þau selja orku sína eða þjónustu samkv. gjaldskrám sem fyrirtækin semja og hlutaðeigandi ráðh. staðfestir. Sú venja hefur komist á, að gjaldskrár rafveitna og hitaveitna eru sendar orkumálastjórn til umsagnar, en Neytendasamtökunum hefur aldrei verið gefinn kostur á að gera aths. við gjaldskrár áður en þær eru staðfestar. Að vísu væri tilgangslaust að senda Neytendasamtökunum til umsagnar gjaldskrár sem einungis fælu í sér jafna hlutfallslega hækkun á öllum liðum. En ef um efnislegar breytingar væri að ræða væri æskilegt að Neytendasamtökin fengju tækifæri til að láta í ljós álit sitt.

Samkv. gildandi lögum getur gjaldskrá ekki tekið gildi fyrr en hún hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Á þessu hefur verið talsverður misbrestur undanfarin ár, en vegna tveggja málaferla, sem ein rafveita hefur lent í vegna ófullnægjandi birtingar og getið verður nánar síðar, er nú svo komið, að rafveitur og hitaveitur gæta sín á því, að fá gjaldskrár sínar birtar áður en þær eru látnar taka gildi. Árvekni og einbeitni eins og raforkunotanda hefur þannig knúið rafveitur og hitaveitur landsins til að fara að lögum við framkvæmd gjaldskrárhækkana. Reynslan hefur sýnt að komi upp ágreiningsatriði milli notenda og opinbers fyrirtækis eru notendur yfirleitt alveg varnarlausir vegna þekkingarleysis á lögum, reglugerðum og gjaldskrám, sem gilda um hlutaðeigandi fyrirtæki. Aðstoð við viðskiptavini, opinberra þjónustufyrirtækja hefur að undanförnu verið til umræðu í stjórn Neytendasamtakanna, sem hefur í hyggju að láta þennan þátt neytendamála til sín taka í framtíðinni“.

Hér lýkur lestrinum, en greinin er miklu lengri og ítarlegri. Þar er fyrst fjallað um rafveitur, lýst málaferlum á hendur rafveitum. Síðan um hitaveitur, og auðvitað nær mín tillaga ekki til þeirra þar sem í henni er um að ræða fyrst og fremst stofnanir á vegum ríkisins, því hér er ekki um atriði að ræða sem þarf að festa í lög og ég tel að Alþ. sé fyrst og fremst aðili sem getur beint sínum tilmælum til ríkisstj. — (Gripið fram í.) en síður til sveitarstjórna, þótt sama grundvallaratriði gildi auðvitað fyrir fyrirtæki eða stofnanir sem reknar eru af sveitarfélögum landsins.

Þá er í lokin fjallað um Póst og síma. Allir kannast við ágreining við Póst og síma um það, að Póstur og sími hefur beinlíms verið staðinn að því að heimta inn samkv. gjaldskrám sem ekki stóðust þegar til kastanna kom.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þátt Neytendasamtakanna og þessa grein Gísla Jónssonar prófessors. En það er annar aðili sem hefur sýnt þessu máli áhuga og það er Verslunarráð Íslands, sem hefur sett á laggirnar nefnd af sinni hálfu og hefur hún unnið ágætt starf, gert samanburð á gjaldskrá Pósts og síma og samsvarandi stofnana erlendis. Mér hefur borist eftirfarandi bréf frá framkvæmdastjóra Verslunarráðsins, Árna Árnasyni, sem ég vil lesa, með leyfi forseta:

„Þann 18. júní 1979 skipaði framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands nefnd til að kanna gjaldskrá og þjónustu Pósts og síma. Skilaði nefndin niðurstöðum sínum nú í ársbyrjun og voru þær þá kynntar fréttamönnum. Fylgja þær hér með.

Þegar þessi vinna var unnin var sú hugmynd rædd m. a. við Neytendasamtökin, að æskilegt væri að samtökin fyrir hönd neytenda og Verslunarráð Íslands fyrir hönd atvinnulífsins ættu aðild að undirbúningi gjaldskrár Pósts og síma hverju sinni. Verslunarráðið fagnar því framkominni till. til þál. um gjaldskrárbreytingar þjónustustofnana. Það skiptir atvinnulífið miklu máli, hvernig gjaldskrám opinberra þjónustustofnana er háttað. Má þar einkum nefna rafveitur, hitaveitur og póst- og símaþjónustu. Eðlilegt má telja að við slíkar gjaldskrárákvarðanir sé fylgt ákveðnum meginreglum:

1) Starfsemin í heild standi undir kostnaði.

2) Hver þjónustuþáttur standi einungis undir þeim kostnaði, sem þeirri þjónustu er samfara, ásamt þátttöku í heildarkostnaði.

Á þessu hefur hins vegar verið töluverður misbrestur. Í Bandaríkjunum má nefna að neytendasamtök og verslunarráð eiga þess kost að kanna við gjaldskrárbreytingar, hvort notendum sé mismunað við gjaldskrá, og gagnrýna tilkostnað við þjónustuna. Er mjög æskilegt að koma slíku fyrirkomulagi á hér. Þar sem fyrirtæki úr flestum greinum atvinnulífsins eiga aðild að Verslunarráði Íslands gæti það verið hlutlaus aðili gagnvart atvinnulífinu til að koma fram fyrir þess hönd við gjaldskrárbreytingar. Eðlilegast er að Neytendasamtökin túlki hins vegar sjónarmið neytenda, eins og lagt er til.

Að lokum er rétt að undirstrika að gjaldskrá opinberra stofnana markist ekki af framfærsluskyldu við einstaka hópa, heldur komi slíkur stuðningur fram á fjárlögum hverju sinni.“

Varðandi síðastgreinda atriðið, sem segir frá í bréfi Verslunarráðsins, held ég að það væri full ástæða til að nefna svokallaðan félagslegan þátt, sem oft er til umr. hér á hv. Alþ. þegar rætt er um gjaldskrár í víðtækri merkingu, eins og t. d. gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins. Í fjvn. eru kynnt sjónarmið Rafmagnsveitnanna og þar er sagt að svo sem eins og 1 milljarður eða 1.5 milljarðar eigi að vera framlag ríkisins til svokallaðra félagslegra þátta. Þegar svo spurt er um það, hvað sé félagslegur þáttur, þá er svarið oftast á þá leið: Félagslegur þáttur er sá þáttur starfseminnar sem ekki ber sig. Og þegar maður spyr hvaða þættir beri sig ekki og hver velji þá þætti, þá kemur í ljós að það er aðeins geðþóttaákvörðun þeirra sem ráða ríkjum hjá viðkomandi stofnun. Ég tel að ákvörðunin um hvað sé félagslegur þáttur sé spurning um stjórnmálalegt mat og það mat eigi að vera hjá Alþingi hverju sinni. Þess vegna nefni ég þetta atriði, að ég tel að hv. Alþingi hafi brugðist skyldu sinni að meta það, hvað séu félagsleg atriði eða félagslegur þáttur við ákvörðun gjaldskrár. Þessi orð, sem ég segi nú, má alls ekki skilja þannig að ég sé á móti því að til séu félagsleg verkefni sem þarf að greiða beint úr vasa skattgreiðendanna. Þvert á móti er ég fylgjandi slíku, en vil að sjálfsögðu að það sé vel skilgreint hverju sinni, hvað sé félagslegur þáttur, en ekki eins og nú er gert að menn ani út í ófæruna og svo þegar kemur í ljós að eitthvað ber sig ekki, þá er það kallað félagslegur þáttur. Hér var fyrr á dagskrá, herra forseti, t. d. Kröflumálið. Þegar sú reynsla hefur fengist af Kröflu, að hún ber sig ekki, þá má með sömu rökum halda því fram, að Kröfluvirkjun sé félagsleg virkjun af því hún ber sig ekki. En ég er hræddur um að ýmsir þeir, sem kenna sig við félags- o. s. frv., félagshyggju t. d., þeir mundu ekki vilja kannast við það, að Krafla væri félagsleg framkvæmd af þeim sökum. Það er á því munur, hvort eitthvað er rekið með tapi, og hinu, sem sett er á laggirnar og bókstaflega rekið með halla, vegna þess að það hafi ákveðnu félagslegu hlutverki að gegna.

Þá má einnig nefna í þessu sambandi að vísitölur alls konar og sérstaklega þó verðbótavísitalan hefur mikil áhrif á gjaldskrárbreytingar og þó einkum gjaldskrárhækkanir. Ég ætla ekki sérstaklega að ræða um gjaldskrárhækkanir í þessu sambandi. Það er eðlilegt, á meðan við notum núverandi vísitölukerfi, að stjórnvöld sýni þann heybrókarhátt að þora ekki að leggja til atlögu við þann meinvald. En það er annað sem ég vil ræða örlítið, og það er það, að stundum er farið aftan að hlutunum í þessum efnum. Ég talaði örlítið áðan um Hitaveitur Reykjavíkur og benti á þann mun sem kemur fram í kröfum fyrirtækisins annars vegar og svo hins vegar í sjónarmiðum gjaldskrárnefndar. En athyglisvert er, þegar það mál er skoðað, að leyfðar voru hækkanir á þeim hluta sem ekki er í vísitölunni, t. d. heimtaugagjöldum. Hins vegar var ekki leyfð hækkun á heitu vatni sem mælist í vísitölunni. Þannig hreyfa þessir pólitísku aðilar, þeir réttlætisaðilar, sem gegna störfum á vegum ríkisstj. í gjaldskrárnefndum, sig alveg eftir pólitísku skákborði, hverjir sem í hlut eiga, og eru þar allir jafnsekir.

Ég legg enn fremur áherslu á það í mínu máli, að hér er ekki um atriði að tefla sem þarf að setja í lög. Hér er aðeins um það að ræða, að viðkomandi rn. taki tillit til neytenda, sendi þeim till. til gjaldskrárbreytinga, í þeirri merkingu sem ég hef gert hér grein fyrir, til þessara aðila og fái umsögn. Svo er það auðvitað pólitískt mat viðkomandi stjórnvalda, hvort þau taka mark á slíkum umsögnum eða ekki. Það, sem skiptir máli fyrir neytendur, er að þeir viti að einhver einn aðili fái þetta í hendur og lesi yfir fyrir þeirra hönd og opinberi ágreining, ef um hann er að ræða. Slíkt mál hefur komið upp og ég leyfi mér hér með að gera örlitla grein fyrir nýlegu máli sem varðar Póst og síma.

Sú grein sem ég las upp úr áðan eftir Gísla Jónsson, var send þáv. samgrh. með svo hljóðandi bréfi, sem mig langar til þess að lesa, með leyfi forseta:

„Með vísun til greinar Gísla Jónssonar prófessors um viðskipti neytenda við hið opinbera, sem er í meðfylgjandi Neytendablaði nr 1/1979, er þess hér með óskað, að tillögur um efnislegar breytingar gjaldskrár og reglugerðar Pósts og síma, sem berst rn. til staðfestingar, verði sendar Neytendasamtökunum til umsagnar áður en þær verða teknar til afgreiðslu. Svar óskast við fyrsta hentugleika.“ Undir þetta ritar fyrir hönd stjórnar Neytendasamtakanna Jónas Bjarnason.

Rn. svaraði 11. jan. 1980, og ef forseti leyfir les ég hér svar rn., því það er athyglisvert og hefur með þetta mál að gera.

„Í 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála, nr. 36 frá 13. maí 1977, er ráðh. fengið óskorað vald til að ákveða gjöld þau, sem greiða ber Póst- og símamálastofnun fyrir þjónustu þá sem hún veitir. Hliðstæð heimild var í eldri lögum. Rn. hefur þó alltaf tekið á móti ábendingum og tillögum um breytingar sem talið var rétt að gera og rök færð fyrir. Slíkar ábendingar hafa ávallt verið kannaðar og metnar er gjaldskrá var breytt. Rn. hafa áður borist tilmæli um umsagnarrétt, eins og óskað er eftir í bréfi Neytendasamtakanna 18. okt. frá fyrra ári, en ekki hefur verið léð máls á að veita samtökum, þótt hagsmuna kynnu að hafa að gæta, slíkan rétt. Rn. er enn sömu skoðunar og telur að almenni löggjafinn hafi með 11. gr. þeirra laga kveðið nægilega skýrt á um vilja sinn til þess að málum sé tryggilega skipað.

Með hliðsjón af þessu getur rn. ekki orðið við beiðni yðar um að tillögur um efnislegar breytingar á gjaldskrá Póst- og símamálastofnunar verði sendar Neytendasamtökunum til umsagnar áður en þær verða teknar til afgreiðslu. Hins vegar mun rn. eins og hingað til taka við þeim ábendingum sem Neytendasamtökin og aðrir, sem hlut kunna að eiga að máli, óska eftir að koma á framfæri, og taka þær til greina, eftir því sem efni standa til.“ Undir þetta rita Magnús H. Magnússon, þáv. samgrh., og Brynjólfur Ingólfsson.

Í stuttu máli má segja að í þessu svari ráðh. felist það, að hann telji að Alþ. hafi framselt vald sitt til ráðh. og það komi nánast ekki nokkrum öðrum við, hvernig gjaldskrá er gerð á hverjum tíma, þótt hann allra náðarsamlegast segist vera reiðubúinn til þess að taka við ábendingum eftir því sem efni standa til.

Þessi till. mín er m. a. flutt vegna þess, að við erum stödd á löggjafarsamkomu þjóðarinnar og ég vil gjarnan fá yfirlýsingu hennar um það, að hún telji ástæðu til þess að eftirlit og aðhald komi frá öðrum en ríkisstofnununum sjálfum og fulltrúum ríkisvaldsins á hverjum tíma. Og mér finnst eðlilegast að leitað sé til Neytendasamtakanna og Verslunarráðsins og jafnvel fleiri aðila atvinnulífsins til þess að fá umsagnarrétt — nánast til þess að kynna væntanlegar gjaldskrárbreytingar, í sömu merkingu og ég hef verið að ræða hér um gjaldskrárbreytingar, — breytingar sem tilfærslu á einstökum kostnaðar- eða gjaldaliðum.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hv. allshn. þegar umr. er frestað þótt ég vonist til þess, að jafnvel þessi framsöguræða ein og sér geti haft þau áhrif að viðkomandi rn. og ráðh., sem reyndar eru ekki margir hér staddir, taki tillit til þessara sjónarmiða án þess að til þurfi að koma ályktun hv. Alþingis.

Að lokum: Ég tel að það sé ástæða til þess fyrir hv. Alþingi að stuðla að öflugum viðgangi Neytendasamtakanna, sem nú um nokkurra missera bil hafa reynt að færa út kvíarnar og starfa nú alls staðar á landinu. Ég tel fulla ástæðu til þess, að þau verði styrkt í sínu starfi.