21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt, eins og við þekkjum allir sem höfum rætt þetta mál a.m.k. til þessa úr þessum ræðustól, að ekki sé flogið frá Reykjavík til Ísafjarðar. Við hófum oft þurft að sæta því, og m.a. er skemmst að minnast kosningabaráttu okkar þremenninganna þar sem við lentum iðulega í slíku. En mér kom á óvart að frétta að ástæðan væri sú, að það skorti fjármuni:

Mér var sagt í morgun, að því hefði verið lýst yfir af hálfu Flugfélags Íslands við farþega að ekki væri flugfært til Ísafjarðar vegna veðurs og þó svo flugfært væri mundi ekki vera hægt að fljúga og yrði ekki um neitt flug að ræða fyrir jólin vegna þess að fé vantaði til að hreinsa snjó af flugbrautum og til að hægt væri að viðhafa þann öryggisbúnað sem þarf að viðhafa í sambandi við athugun á lendingarskilyrðum. Þetta kom mér ákaflega á óvart, vegna þess að ég vissi ekki betur en flugmálastjórn ætti allháa fjárveitingu ónotaða frá því sem upphaflega var ráð fyrir gert á fjárlögum og engar óskir höfðu borist fjmrn. um aukafjárveitingar til eins eða neins í sambandi við þessa hluti. Ég spurðist fyrir um það í samgrn., hvort einhver beiðni lægi þar eða það hefði haft einhverjar fréttir af þessu, og svarið var nei. Þeir komu af fjöllum alveg eins og við fjmrn.

Athuganir, sem við höfum gert á þessu máli, virðast benda til þess að þarna sé um að ræða stirðleika hjá flugmálastjórn. Ástæðan fyrir því, að þessi frétt hefur verið gefin út, mun víst vera sú, að starfsmaður flugmálastjórnar á Ísafirði hefur þurft að nota fjárfestingarfé — fé sem átti að nota til framkvæmda við flugvöllinn til að kosta rekstur tækjanna sem á flugvellinum eru, og staðan hjá honum mun hafa verið orðin sú í gær eða í dag að hann hafi ekki lengur átt fyrir olíu á þau tæki, sem eiga að ryðja snjó af flugbrautinni, og ekki heldur á þau tæki, sem eiga að prófa bremsuskilyrðin. Ég vil ekkert um það fullyrða hver er ástæðan fyrir samskiptaörðugleikum milli þessa ágæta og valinkunna starfsmanns og flugmálastjórnar, en mér er sagt að svona sé þetta.

Ég vil aðeins láta það koma fram, að hér er ekki um fjárskort að ræða. Flugmálastjórn á mjög verulegt fé ónotað af fjárveitingu sinni, sem ekki hefur verið leitað eftir og flugmálastjórn getur hvenær sem er sótt í fjmrn. og til ríkisféhirðis um leið og hún óskar eftir að fá það fé afhent.

Ég vil enn fremur taka það fram, að engin erindi hafa borist, hvorki fjmrn. né samgrn., um þetta mál. Hvorugt rn. hafði minnstu hugmynd um málið fyrr en fólk frá Ísafirði bar sig upp um þetta tiltekna mál. Fjmrn. og samgrn. munu hafa samvinnu um að leysa það eftir öðrum leiðum ef ekki tekst að leysa það eftir hinum eðlilegu leiðum í gegnum flugmálastjórn. En sem sé, ég vil endilega taka það fram og leggja á það áherslu, að ástæðan fyrir töfum þessum er ekki fjárskortur, ástæðan er ekki sú að samgrn. hafi ekki sinnt beiðni um fjárveitingu eða aukafjáröflun í þessu skyni. Engin slík beiðni hefur borist samgrn. Ástæðan er ekki heldur sú, að fjmrn. hafi tafið greiðslur. Þvert á móti á flugmálastjórn mjög verulegar greiðslur ónotaðar, sem hún getur sótt í fjmrn. Fjárskortur ætti því ekki að þurfa að tefja að hægt sé að halda uppi eðlilegri flugstarfsemi í landinu og ferðum til Ísafjarðar og annarra staða.