21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef engar áhyggjur af samgönguerfiðleikum í krataflokknum og engar áhyggjur heldur af því, í hvaða flokki hv. þm. lendir eftir áramótin. Ég geri ekki ráð fyrir að hann muni standa lengi við í sama flokki, því að það er flug sem aldrei bregst.

Ég ætla svo að snúa mér aftur að alvarlegri hlið þessa máls. Ég tel að hér rekist hvað á annars horn. Fjmrh. segir að nógir peningar séu til, flugmálastjóri segir að engir peningar séu til, samgrn. veit ekkert um það, það hefur engin beiðni komið um aukafjárveitingu. En sannleikur málsins er sá, að þarna vantar peninga til að greiða nauðsynlegustu hluti svo að halda megi uppi þjónustu. Það er höfuðatriði málsins að eyða og koma í veg fyrir samgönguerfiðleika innan flugmálastjórnarinnar. Það á ekki við aðra flugvelli. En það er fyrsta skilyrðið að þeim sé rutt úr vegi, að góðar og greiðar samgöngur verði innan flugmálastjórnarinnar og til samgrn. Ég vænti þess, að hæstv. samgrh. kynni sér til hlítar þetta mál, því að svona á ekki að geta komið fyrir, — ég veit að hann er mér alveg sammála um það, — og gefi svo okkur, sem hér spyrjum um þetta, skýrslu um hvernig á þessu stóð og hvað hafi verið í vegi. Læt ég svo útrætt um það.