09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

34. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af þessu með glundroðann. Ég fæ ekki séð að það sé svo mikil hætta á verulegum glundroða þó að þessi háttur verði hafður á sem við Guðmundur G. Þórarinsson leggjum til. Nú er það svo, að menn þurfa ekki endilega að skipta bara við eitt tryggingarfélag. Margir hafa hús sitt tryggt hjá einu tryggingarfélagi, bíl sinn hjá öðru o. s. frv., og mér finnst að þetta sé regluleg ofstjórn, að ætla að hafa svo vit fyrir mönnum að þeir megi ekki velja sér tryggingarfélag sjálfir.

Þetta með sveitarfélögin; að þau fengju þennan rétt eða gengjust fyrir því að semja við sérstök tryggingarfélög um tryggingar, er sprottið af því að þau voru að reyna að ná betri kjörum.

Það er rétt hjá hv. þm., að þetta er ekki stórt mál fjárhagslega fyrir tryggingarfélögin og iðgjöldin ekkert geysimikil. En mér finnst að þarna sé verið að seilast óþarflega langt í afskiptasemi og finn ekki annað en það sé réttmætt að bændur megi velja sitt tryggingarfélag sjálfir eða ráða því hvar þeir tryggja sín útihús, hvaða skoðun sem sveitarfélagið hefur á hvar þeir skuli tryggja sín íbúðarhús.