09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

31. mál, lögskráning sjómanna

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., var lagt fyrir hið háa Alþingi í janúarmánuði s. l. Það var og er liður í að efna loforð sem ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar gaf sjómannasamtökunum í des. 1978 um aukin félagsleg réttindi sjómanna.

Frv. sem slíkt lætur ekki mikið yfir sér, en er eigi að síður mjög þýðingarmikið. Ýmis mikilvæg starfsréttindi sjómanna hafa með tímanum verið tengd lögskráningu þeirra, ýmist með lögum eða í kjarasamningum. Nefna má sjómannafrádrátt skv. skattalögum, lífeyrisréttindi, slysatryggingar að nokkru leyti, kauptryggingu, rétt til fæðispeninga o. fl. Sama gildir um ýmsar greiðslur til stéttarfélaga sjómanna og sjóða á þeirra vegum. ófært er að útgerðarmaður geti svipt sjómann slíkum réttindum með einhliða afskráningu án vitundar hans og svipt hann þannig möguleikum til réttmætra andmæla og aðgerða, m. a. gagnvart lögskráningarstjóra.

Herra forseti. Ég er sammála þeim breytingum sem hv. Ed. hefur gert á frv. Það er von mín að frv. verði að lögum nú fyrir þinglok.