09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

167. mál, söluskattur

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér um ræðir, er einfalt í sniðum. Það er gert ráð fyrir því, að það verði lögbundið að aðgangseyrir að leiksýningum, tónleikum og sýningum á íslenskum kvikmyndum skuli undanþeginn söluskatti.

Eftir að þetta frv. var lagt fram brá svo við að fjmrh. gaf út reglugerð þar sem hann tók af Alþingi ómakið varðandi leiksýningar og tónleika, en hins vegar verða íslenskir kvikmyndagerðarmenn enn að una við það að greiða söluskatt af aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum. Hér er um mjög verulegar fjárhæðir að tefla sem skipta verulegu máli í sambandi við eflingu íslensks kvikmyndaiðnaðar. Það er rétt, að fjmrn. hefur fallist á að a. m. k. í sumum tilvikum skuli söluskattur af þvílíkum aðgangseyri renna í Kvikmyndasjóð, að ég ætla. Í því felst einmitt viðurkenning á því, hvaða baggi söluskatturinn er á þessari framleiðslu eða þessari listgrein, vil ég segja, og verður að hafa í huga í þessu sambandi að hér er um fimmtu hverja krónu að ræða. Söluskattur er orðinn 23.5%, svo að hér er um gífurlega mikla byrði að ræða á þessa listgrein umfram það sem gegnir um aðrar listgreinar. Ég vil enn fremur benda á það, að samkv. núgildandi lögum er aðgangseyrir að íþróttasýningum, íþróttamótum, skíðalyftum, kappreiðum og góðhestakeppni undanþeginn söluskatti, og þykir mér eðlilegt að hið sama gildi um íslenskar kvikmyndir.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því að í þessu frv. er gert ráð fyrir því ákvæði til bráðabirgða, að söluskattur af aðgangseyri að leiksýningum, tónleikum og sýningum á íslenskum kvikmyndum, sem gjaldfallinn er á þessu ári, skuli falla niður og endurgreiðast að þeim hluta sem hann hefur verið inntur af hendi. Eftir því sem mér er best kunnugt hefur Leikfélag Reykjavíkur eitt atvinnuleikhúsa staðið í skilum með söluskattinn, en önnur leikstarfsemi hefur átt í miklum erfiðleikum með að standa skil á honum, og ég hygg að í sumum tilvikum sé þar um þvílíka byrði að ræða, að ef þar yrði krafist fullra skila mundi sú leikstarfsemi leggjast niður. Ég held að einfaldast sé að viðurkenna þessar staðreyndir og gera ráð fyrir því, að þessi söluskattsskuld falli niður, og þá þykir mér eðlilegt að Leikfélag Reykjavíkur gjaldi þess ekki að hafa staðið í skilum að sínum hluta á söluskattinum. Ég get vel fallist á að þessi eftirgjöf taki lengra aftur í tímann. Mér finnst það ekki óeðlilegt að miða við síðustu áramót.

Á þessu ári er áætlað að Leikfélag Reykjavíkur greiði 42–48 millj. kr. í söluskatt, en ríkisstyrkurinn til þess er 32 millj. kr. Af þessu sést að hér er um lítilræði að tefla í tekjuöflun ríkissjóðs, en getur skipt sköpum í sambandi við jákvæða þróun leiklistarstarfsemi, tónleikahalds og kvikmyndagerðar.

Ég skal ekki hafa frekari orð um þetta. Ég hygg að menn geti verið sammála um það, að í sumum greinum sé skattheimta ríkisins eða hins opinbera af listastarfsemi og íþróttastarfsemi allt of mikil. Ég tel, að hér sé um réttlætismál að tefla og jafnréttismál gagnvart kvikmyndagerðinni, og legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.