09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

167. mál, söluskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. — Ég vil að gefnu tilefni vekja athygli á því, að söluskattur er ekki beinn skattur. Söluskattur er skattur sem er lagður á neyslu manna og þ. á m. á hluti eins og hér um ræðir. Það er alger misskilningur, að Þjóðleikhúsið greiði söluskatt eða Leikfélag Reykjavíkur greiði söluskatt, og ég er því almennt mótfallinn að vera alla tíð að bæta við nýjum og nýjum undanþágum frá söluskattinum.

Alþingi hefur á undanförnum árum smátt og smátt verið að bæta inn nýjum og nýjum undanþágum frá söluskattinum, og svo er komið að söluskatturinn er orðinn alger frumskógur sem enginn sér fram úr, og hér á Alþ. hafa menn hjálpað mjög til við að eyðileggja þennan skatt og möguleika á því að halda honum uppi með sómasamlegum hætti.

Hitt er svo allt annað mál, að þetta er ekki það sama og menn vilji ekki styðja vel við bakið á menningarstarfsemi í landinu, við leiklistarlíf, kvikmyndagerð og annað. En er þá ekki meiri manndómur í því að gera það beint á fjárlögum heldur en vera alla tíð að fela sig á bak við það að fella niður söluskatt, en hafa þá ekki manndóm til þess að setja samsvarandi upphæðir til styrktar þessari starfsemi?

Ég vil að gefnu tilefni að það komi fram að ég er mótfallinn því að alltaf sé verið að bæta við undanþágum frá þessum skatti og þar með í reynd að leggja hann í rúst. Það má segja, að ekki sé verið að bæta hér miklu við og þegar búið að því. En ég sé fram á að það verður mjög erfitt að taka upp virðisaukaskatt á Íslandi með tilliti til þess, hversu duglegir menn eru að bæta við nýjum og nýjum undanþágum frá söluskatti, því að virðisaukaskattur gerir ráð fyrir að undanþágur séu helst engar. Það verður mjög erfitt að koma þessum málum heim og saman þegar virðisaukaskattur verður tekinn upp hér á landi, ef menn leggja þá í það.