21.12.1979
Neðri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Fyrir svona stundarfjórðungi var þetta mál við það sama á Ísafirði. Það, sem skiptir máli, er að sjálfsögðu hvernig málið stendur þar, en ekki hvað menn gera sér til skemmtunar hér í þinginu. Ég ætla fjmrh. og samgrh. báða það ábyrga að þeir geri sér grein fyrir því, að ekki er nema um örfáa daga að ræða í þessu sambandi og þetta mál þolir ekki bið til kvölds. Það er með Ísafjarðarflugvöll eins og fleiri flugvelli á þessu landi, að ekki er alltaf hægt að fljúga á þá, jafnvel þó að þeir séu auðir. Hins vegar þykir mér að í þessum ræðustól hafi komið fram það mikið af dylgjum í sambandi við þetta mál, að ekki verði undan því skotist að beina þeim ákveðnu tilmælum til samgrh. að hann gefi skýrslu um hver var hin raunverulega ástæða fyrir því, að ekki var mokað af vellinum, ef hún er ekki sú sem fram hefur komið, þ.e.a.s. fjármagnsskortur.