09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

167. mál, söluskattur

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af þeim orðum sem fram komu hjá hv. 3. þm. Austurl. í þessu máli, þar sem hann lýsti andstöðu sinni við það að stöðugt væri verið að fjölga undanþágum frá greiðslu söluskatts. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sjónarmið, að auðvitað er óæskilegt að gera skattkerfið æ flóknara með stöðugt fleiri undanþágum, og á það jafnt við um söluskatt sem aðra skatta. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þessu gefna tilefni, að ástæður fyrir því, að menn freistast til þess í æ ríkari mæli að veita undanþágu frá söluskatti, eru þær, að þessi skattur er orðinn allt of hár. 23.5% söluskattur, eins og hann er orðinn í dag, er orðinn það hár að hann er farinn að hafa veruleg áhrif á neyslu í landinu. Þó að á það megi fallast, að þetta sé ekki skattur í þeirri merkingu að Þjóðleikhúsið greiði ekki skatt eða Leikfélag Reykjavíkur greiði ekki skatt, þá er það þó ómótmælanlegt, að söluskatturinn er lagður á þessa starfsemi, á þessa þjónustu og hefur þau áhrif að hann dregur úr möguleikum fólks til þess að njóta þessarar þjónustu. Þegar að kreppir í þjóðfélaginu og 23.5% söluskattur er t. d. lagður á hvern aðgöngumiða hjá Þjóðleikhúsi eða leikfélagi eða á aðra menningarstarfsemi, þá þýðir það auðvitað að fólk veigrar sér við að njóta þessarar þjónustu. Þetta er eitt það fyrsta sem menn hætta að nota þegar sverfur að. Þess vegna held ég að lækningin á þessu sé í raun og veru sú að stefna að því að lækka söluskattinn, en ekki hækka hann stöðugt gegndarlaust, eins og hv. 3. þm. Austurl. hefur ýmis haft forustu um hér á Alþ. eða a. m. k. verið fylgjandi Ég held því að þegar svo er komið, að söluskattur er orðinn það hár sem raun ber vitni um, þá sé ekkert óeðlilegt þó tillögum um undanþágur frá þessum skatti fjölgi hér á hv. Alþingi og það er þess vegna sem við þrír þm. Sjálfstfl. höfum flutt þessa till. Hún hefur reyndar, eins og kom fram hjá frsm., hv. 7. landsk. þm., fengið þær undirtektir að hæstv. fjmrh. hefur að hluta sett hana í framkvæmd, en að öðru leyti ekki, og því er æskilegt að þetta frv. fái þinglega meðferð. En ég undirstrika: ástæða þess, að þetta er flutt, er sú, að söluskatturinn er orðinn allt of hár. Og ég held að þeir, sem hafa beitt sér fyrir því í síauknum mæli hvað eftir annað hér á Alþ. að hækka þennan skatt, ættu að hugsa sitt ráð betur að því er hann varðar.