09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

167. mál, söluskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að ég hef stutt það hér á Alþ. að hækka söluskatt, með atfylgi sjálfstæðismanna og Alþb.-manna sitt á hvað, og ég býst við að það hafi engum, sem að því hefur staðið, verið til mikillar ánægju að gera það. Menn eru yfirleitt ekkert sérstaklega glaðir yfir því að hækka skatta. En við skulum láta það liggja á milli hluta.

Aðalatriðið er það, að menn átti sig á eðli þessa skatts. Það hafa lengi verið uppi deilur um það í þjóðfélaginu, hvort lögð skyldi meiri áhersla á beina skatta eða óbeina skatta, og ég hef skilið þá sjálfstæðismenn þannig, að þeir vildu fremur leggja áherslu á óbeina skatta en beina. Eðli þessara óbeinu skatta er það, að þeir leggjast á neyslu manna, og í eðli sínu eru þeir þannig að þeir eiga að vera hlutlausir gagnvart því hver sú neysla er. Það er eðli skattsins. En þegar menn eru farnir að setja inn í þetta alls konar undanþágur sitt á hvað, þá er búið að breyta eðli þessa skatts. Það þýðir lítið fyrir okkur alþm. að halda fjálglegar ræður um hert skattaeftirlit og aukið eftirlit með skattsvikum þegar menn eru ekki reiðubúnir að standa að því að hafa þennan skatt það alhæfan að það sé bærilegt að hafa þar eitthvert eftirlit.

Nú er ég ekki með þessu að segja að það skipti einhverjum sköpum þó að ein undanþágan bætist við til viðbótar, nú af leiksýningum. Það út af fyrir sig skiptir hér engum sköpum. En mér finnst kominn tími til að menn hugleiði eðli þessa skatts og með hvaða hætti hér skuli haldið áfram. Enda þótt ég hafi staðið að því að hækka söluskatt hafa það verið mér mikil vonbrigði hvað það hefur gengið lítið og verið í reynd lítill áhugi á því á undanförnum árum, jafnvel 10 ára tímabili, að umbreyta þessum skatti þannig að til sóma væri fyrir okkur hér á Alþingi. Við höfum þess í stað á hverju ári bætt við nýjum og nýjum undanþágum, og ég held að það sé kominn tími til að menn horfi um öxl og staldri hér við og beini frekar kröftum sínum að því að breyta um skattform, t. d. fara yfir í virðisaukaskatt. En með þessu áframhaldi er í reynd verið smátt og smátt að gera það ómögulegt að taka upp virðisaukaskatt á Íslandi.