09.05.1980
Neðri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

161. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki o.fl.

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur því frv. sem hér er til umr. Hins vegar vil ég taka undir það með hv, síðasta ræðumanni, að það er fyllsta ástæða til þess að endurskoða fyrir haustþing þau lög sem hér er verið að gera breytingu á. Ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að menn átti sig á því, um hvað þetta frv. snýst. Það er býsna óglöggt fyrir þá menn, sem ekki hafa kynnt sér vandlega tilganginn með flutningi þessa frv., en tilgangurinn er einfaldlega sá að hefja framleiðslu eða veita mjólkurbúum heimild til framleiðslu á nýrri tegund viðbits, sem samanstendur 75% af smjöri og 25% af jurtaolíu. Þetta er þekkt viðbit, ef ég má nota það orð, í Svíþjóð og mikið notað þar og þykir gott. Grundvallartilgangurinn með þessu er auðvitað sá að reyna að lækka smjörfjallið og það er af hinu góða.

Hins vegar er reynsla Svía af sölu þessa nýja viðbits sú, að það hefur ekki, því miður, lækkað þeirra smjörfjall. Ég óttast mjög að það muni gerast hér, að um leið og þetta kemur á markað muni draga úr sölu á smjöri, þannig að höfuðtilgangurinn, rauði þráðurinn með flutningi þessa frv., að draga úr smjörbirgðum eða minnka þær, muni ekki nást. Hins vegar er þetta tilraunarinnar virði.

Þau andmæli, sem komu fram við þetta frv. frá iðnrekendum, eru í grundvallaratriðum þau, að þeir óttast samkeppni. Þeir óttast að verða fyrir mjög verulegri samkeppni vegna þessarar nýju framleiðslu og telja að af þeim sökum eigi ekki að heimila þetta. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það þurfi ekki að vorkenna smjörlíkisframleiðendum á Íslandi, sem eru einu iðnrekendurnir sem njóta lögverndar gagnvart samkeppni. Þeir njóta hennar vegna þess að smjörlíki er talið með landbúnaðarafurðum og smjörlíkisinnflutningur er bannaður.

Ég vil líka geta þess hér, að það kom fram á fundum í landbn. frá fulltrúum iðnrekenda, að framkvæmdavaldið hefur ekki verið nægilega vel á varðbergi í sambandi við þau lög sem í gildi eru um notkun á mjólkurafurðum. Var t. d. bent á það, að bakarar hefðu um langt skeið framleitt rjómakökur með þeytikremi, sem er auðvitað ólöglegt. (Gripið fram í: Er það ekki gott?) Það var einnig fullyrt á þessum fundi, að hér gerðist það að ís væri framleiddur úr gömlu smjöri. Það er sýnu alvarlegra að mínu mati. Ég tel að framkvæmdavaldinu beri að athuga þetta mál og rannsaka og kanna réttmæti þessara ásakana. En ég vil sem sagt styðja þetta frv. vegna þess að ég tel að þarna sé gerð ærleg tilraun til þess að draga úr eða minnka smjörfjallið okkar fræga, þótt ég efist mjög um að það muni takast að einhverju verulegu leyti. En frv. styð ég og þau andmæli, sem komið hafa frá iðnrekendum hef ég að engu.