09.05.1980
Efri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

166. mál, fjölbrautaskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er flutt, hefur gengið í gegnum Nd. Það var flutt þar nú fyrir nokkrum dögum og hefur verið um það fjallað í menntmn. Nefndin varð sammála um að leggja til að frv. yrði samþ. með breytingu, sem fram kemur á þskj. 456 og er efnislega mjög svipuð því sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frvgr., og þetta mál var afgreitt í dag frá Nd. til hv. Ed.

En efni þessa frv. er það, að menntmrn. og Reykjavíkurborg er heimilt að gera með sér samning um að skólahald í samræmi við 1.–5. gr. laga um fjölbrautaskóla fari fram í tveimur sjálfstæðum skólastofnunum. En þannig stendur á, að í lögum um fjölbrautaskóla er heimildarákvæði um það, að stofna megi í hverju sveitarfélagi einn fjölbrautaskóla. Þetta gildir um Reykjavík að sjálfsögðu eins og önnur sveitarfélög. En nú er svo komið, að fjölbrautaskólinn í Breiðholti er orðinn ákaflega fjölmennur. Þar munu nú vera um 1300 nemendur. Auk þess er angi af þessum skóla, svokallaður Ármúlaskóla, með 600 nemendur. Þetta þykir orðið allt of viðamikið skóla- og stjórnunarbákn, enda hefur Ármúlaskólinn verið í reynd rekinn sem sjálfstæður skóli nú undanfarið skólaár. Í þessu frv. felst það að opna möguleika til þess að Ármúlaskólinn verði rekinn sem sjálfstæð skólastofnun.

Það er ekki miklu meira um þetta að segja annað en það, að ég hef flutt þetta frv. samkv. sérstakri beiðni frá fræðsluráði Reykjavíkur sem hefur lagt mikið upp úr því að þetta mál fengi framgang á þessu þingi. Ég held að ég þurfi ekki, hæstv. forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð. Grg. með frv. skýrir það og ég bendi á að málið gekk í gegnum Nd. umræðulítið og án þess að nokkur ágreiningur væri um efnisatriði þess. Því legg ég til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn., en ég vænti þess, að hv. n. treysti sér til að ljúka afgreiðslu málsins eins fljótt og við verður komið.