12.05.1980
Efri deild: 82. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

182. mál, starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir og nú er til umr., er eitt þriggja frv. sem nýlega hafa verið lögð hér fram á Alþ. og snerta lífeyrismál. Frv. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og um skráningu lífeyrisréttinda eru flutt af fjmrn. og verður væntanlega mælt fyrir þeim af hæstv. fjmrh., en það frv., sem hér er um að ræða um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, er á vegum félmrn. Það hefur inni að halda svipuð ákvæði og voru í lögum um starfskjör launþega nr. 9/1974 og jafnframt ákvæði um skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem verða þar með færð inn í lagabálk um lágmarksréttindi launafólks.

Það var fyrir fáeinum vikum að lífeyrisnefnd Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og atvinnurekenda sendi fjmrh. og heilbr.- og trmrh. svofellt bréf, dagsett 21. apríl 1980.:

„Hér með fylgja drög að frv. til l. um starfskjör launþega og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, ásamt grg. og aths. Frv. þetta hefur verið samið á vegum átta manna lífeyrisnefndar Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Nefndin hefur jafnframt átt þátt í undirbúningi og samningu frv. til l. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og skráningu lífeyrisréttinda. Nm. eru á einu máli um, að ofangreind þrjú frumvörp verði flutt til að ljúka þeim áfanga í lífeyrismálum, sem hófst með lögunum um eftirlaun aldraðra.“

Undir þetta bréf til ráðherranna rituðu Eðvarð Sigurðsson, Guðmundur H. Garðarsson og Jóhannes Siggeirsson, sem eru fulltrúar Alþýðusambands Íslands í nefndinni, Gunnar J. Friðriksson og Páll Sigurjónsson, sem eru fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands, Skúli J. Pálmason, fulltrúi Vinnuveitendasambands samvinnufélaganna, Ingólfur S. Ingólfsson, fulltrúi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Jón Sigurðsson, formaður átta manna lífeyrisnefndarinnar, sem var fulltrúi ríkisstj., en nefndin varskipuð affyrri ríkisstj. árið 1976.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir almennum ákvæðum um lífeyrisréttindi og skyldutryggingu, en í öðru frv. er kveðið á um stofnun og starfrækslu almenns óbundins lífeyrissjóðs, sem skal vera sjóður þeirra manna sem ekki eiga ótvíræða sjóðsaðild annars staðar og ekki kysu að eiga aðild að þeim lífeyrissjóðum sem fyrir eru eða stofnaðir kynnu að verða og fullnægja ákvæðum laganna. Í þriðja frv., sem hér liggur fyrir hv. Alþ., er loks gert ráð fyrir að tekin verði upp almenn og heildstæð skráning lífeyrisréttinda og iðgjaldagreiðslna. Tvö þessara frv., þau síðastnefndu, um almenna lífeyrissjóðinn eða Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og um skráningu lífeyrisréttinda, heyra undir fjmrn., eins og ég gat um áðan. Þetta frv., sem hér er mælt fyrir, fellur undir verksvið félmrn., þar sem í því felast breytingar á lögum um starfskjör launþega nr. 9/1974.

Með frv. þessu um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda er stefnt að því að koma á almennri aðild allra starfandi manna að lífeyrissjóðum. Að málinu hafa starfað með átta manna nefndinni þeir Höskuldur Jónsson ráðuneytisstjóri fjmrn. og Hallgrímur Snorrason hagfræðingur, en áður hafði Guðjón Hansen tryggingafræðingur unnið að undirbúningi þess. Sú leið var valin að semja frv. til l. sem leysti af hólmi lögin um starfskjör launþega.

Meginákvæði þess frv., sem hér liggur fyrir, felast í 2. 3. og 4. gr. þess. Í 2. gr. er gert ráð fyrir almennum ákvæðum um rétt og skyldur til lífeyrissjóðsaðildar og greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða. Í 3. gr. eru ákvæði um hvernig tryggingaskylda skuli innt af hendi. Og í 4. gr. eru ákvæði um lágmark lífeyrisgjalda. Í 5. gr. er lagt til að óheimilt verði að endurgreiða sjóðfélögum iðgjöld nema um sé að ræða flutning réttinda frá einum sjóði til annars. Óhjákvæmilegt er að endurgreiðslur verði takmarkaðar með þessum hætti, ella næðu lögin um skyldutryggingu naumast tilgangi sínum. Þessi ákvæði í 5. gr. snerta ákvæði í öðrum lögum. Þau snerta ákvæði í lögum um Lífeyrissjóð barnakennara, um Lífeyrissjóð bænda, um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, um Lífeyrissjóð ljósmæðra, um Lífeyrissjóð sjómanna og um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Frv. þetta er hluti einnar heildar og ákaflega mikilvægt að málin fái að fylgjast sem best að. En í áliti svokallaðrar sautján manna nefndar um lífeyrismál, sem einnig starfar frá árinu 1976, er þó lagt til að að sinni verði aðeins afgreitt það frv. sem hér liggur fyrir, þar sem nokkur vafaatriði hafi komið upp varðandi hin frv. tvö.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt þegar við 1. umr. málsins að ég lesi það bréf, sem mér hefur borist frá sautján manna nefndinni, endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins, um þessi mál, þar sem aths. nefndarinnar koma fram. Bréf nefndarinnar er dagsett 9. maí 1980 og hljóðar svo:

„Endurskoðunarnefnd lífeyriskerfis, sautján manna nefndin, hefur á fundum sínum í þessum mánuði fjallað um þessi lagafrv.:

1. Frv. til l. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

2. Frv. til l. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

3. Frv. til l. um skráningu lífeyrisréttinda.

Nm. eru á einu máli um það, að brýnt sé að lögfest séu sem fyrst ákvæði um mál þau sem frumvörpin fjalla um. Ýmsir nm. telja þó að frumvörpin um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og skráningu lífeyrisréttinda þurfi frekari athugunar við svo að varla sé raunhæft að þau verði afgreidd nú á þessu þingi. Hins vegar eru allir nm., nema fulltrúi BSRB, á því að frv. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé þannig, að æskilegt sé að það verði afgreitt af Alþ. nú fyrir þinglok þar sem það sé nauðsynlegt framhald af setningu laga nr. 97/1979 um eftirlaun aldraðra.“

Í bréfi þessu er því aðeins lögð áhersla á að eitt af þremur frumvörpunum verði endanlega afgreitt frá Alþ. nú í vor, en þá þyrfti að breyta eilítið lagafrv. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda vegna tengsla þess við hin frumvörpin tvö. Tillaga um þessa breyt. fylgir með bréfi þessu.

Fulltrúi BSRB í nefndinni, Kristján Thorlacius, gerði á fundi nefndarinnar 9. maí 1980 eftirfarandi grein fyrir sérstöðu sinni til erindis bréfs þessa:

„Ég vísa til ályktunar stjórnar BSRB, sem lögð var fram á síðasta fundi sautján manna nefndarinnar. Þar sem stjórn BSRB hefur ekki haft aðstöðu til að ræða málið á ný er mín afstaða því í samræmi við ályktun stjórnar bandalagsins frá 5. maí s. 1.“ segir Kristján Thorlacius. Og enn fremur: „Ég bendi á að í grg. átta manna nefndarinnar er lögð áhersla á að þau þrjú frumvörp, sem fyrir nefndinni liggja, séu ein heild sem nauðsyn sé að taka sameiginlega afstöðu til. Mín skoðun er að þetta sé eitt og sama málið.“

Ályktun stjórnar BSRB frá 5. maí s. l., sem vísað er til í grg. fulltrúa BSRB, fylgdi með því bréfi sem mér barst frá endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins í morgun.

Það er því ljóst að með tilliti til þeirra aths., sem komið hafa fram hjá BSRB, hefur sautján manna nefndin og átta manna nefnd atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna um lífeyrismál talið rétt eftir atvikum að fresta í rauninni meðferð tveggja þeirra frv. sem hér er um að ræða, en frv. um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda yrði þó hugsanlega afgreitt á því þingi sem nú stendur yfir.

Nú er vitaskuld ljóst að tíminn er knappur til þingloka og tæplega hægt að gera kröfur til þess að Alþ. afgreiði flókin og viðamikil frv. á þeim fáu dögum sem eftir eru. Það væri þó mjög æskilegt að mínu mati að fyrir lægi, áður en þingi lýkur nú, hver er afstaða hv. Alþ. eða talsmanna stjórnmálaflokkanna, sem fulltrúa eiga á Alþ., til þeirra mála sem hér liggja fyrir.

Það er ljóst að þó að frv. þessi yrðu ekki afgreidd á því þingi, sem lýkur senn, mun ríkisstj. halda áfram að vinna að lífeyrismálunum, sem eru einhver stærstu og þýðingarmestu réttindamál launafólks, og stefnan er vitaskuld sú og hlýtur að vera sú, að hér verði komið upp samræmdu, verðtryggðu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, þannig að það misrétti og réttleysi, sem tíðkast á sumum sviðum þessara mála, verði afnumið. Fyrir liggja yfirlýsingar um það efni frá hagmunasamtökum, aðilum vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkum svo og núv. ríkisstj., þannig að til þess á að vera góður vilji að mál þessi verði leyst með skjótum hætti, en það hefur gengið seinna en viljinn hefur virst benda til á undanförnum árum.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. með tilliti til þess að mál þessi hafi öll samflot gegnum þingið og fái meðferð í sömu n., sem ég teldi eðlilegt miðað við allar aðstæður að væru trn. þingsins.