12.05.1980
Efri deild: 82. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2559 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

179. mál, upplýsingar er varða einkamálefni

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á Alþingi 1973–1974 og 1975–1976 voru fluttar till. til þál. um tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi. Var skorað á ríkisstj. að skipa nefnd manna til að semja frv. til l. um verndun einstaklinga gegn því að komið verði upp safni upplýsinga um skoðanir þeirra eða aðra persónulega hagi með aðstoð tölvutækni. Till. þessar náðu ekki fram að ganga.

Á Alþingi 1976 var flutt till. sama efnis, en áður en hún kom til umr. skipaði þáv. dómsmrh., Ólafur Jóhannesson, nefnd til að vinna að undirbúningi löggjafar um meðferð efnis í tölvum er varða einkahagi manna. Í nefndinni, sem skipuð var í nóv. 1976, áttu sæti þeir dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari, Hjalti Zóphóníasson deildarstjóri og dr. Þorkell Helgason dósent. Í erindisbréfi til nm. var sérstaklega bent á að þörf væri á að hyggja að reglum um söfnun upplýsinga til varðveislu efnis í tölvum og um vernd gegn misnotkun slíks efnis svo og um skyldur þeirra manna sem starfa við rekstur á tölvum. Enn fremur skyldi höfð hliðsjón af löggjöf, sem sett hefur verið í öðrum löndum um þetta efni, svo og löggjafarundirbúningi á því sviði í einstökum löndum og á alþjóðavettvangi.

Nm. kynntu sér efni þetta erlendis með viðræðum og könnunum á Norðurlöndum og með þátttöku á fundum á vegum Evrópuráðs. Viðaði nefndin að sér miklum heimildum, lögum, lagafrv. og ritum um efnið. Einnig kom hingað til lands ráðunautur frá danska dómsmrn. til viðræðna um þetta málefni.

Nefndin kostaði kapps um að hraða störfum. Fór mikill tími í að kynnast þeim mikla efnivið, sem nefndin taldi nauðsynlegt að rannsaka, svo og að hugleiða hvaða úrræði væru fær hér á landi, enda ekki sjálfgefið að unnt væri að styðjast við erlendar fyrirmyndir í hvívetna við þær sérstöku aðstæður sem ríkja hér á landi.

Niðurstaða nefndarinnar varð frv. til 1. um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, og var það lagt fyrir Alþingi undir þinglok vorið 1978. Frv. kom þá aldrei til umr.

Í nóv. 1978 ákvað þáv. dómsmrh., Steingrímur Hermannsson, að frv. skyldi, áður en það yrði á ný lagt fyrir Alþingi, sent til umsagnar ýmsum aðilum sem málið varðaði einkum. Umsagnir þær sem bárust voru síðan sendar nefndinni sem upphaflega samdi frv. og skilaði hún tillögum um nokkrar breytingar á því. Er frv. nú lagt fyrir Alþingi með þeim breytingum.

Frv. fylgir frá nefndarinnar hálfu ítarleg grg. um efni það sem það fjallar um, þörfina á löggjöf á þessu sviði, hvernig málum þessum sé skipað erlendis og skýringar við einstakar greinar frv. Leyfi ég mér að vísa til þeirrar vönduðu grg., en vík hér einkum að þörfinni sem er á því að settar verði reglur um tölvustarfsemi.

Markmið með frv. þessu er að veita einkamálefnum aukna vernd gegn hættu á misnotkun upplýsinga sem varðveittar eða skráðar hafa verið í tölvum. Tölvustarfsemi er orðin daglegur og snar þáttur í þjóðfélaginu á fjölmörgum sviðum við alls konar framkvæmdir, skipulagningu, skráningu, stjórnun, rannsóknir o. fl. Því er tímabært að lögfestar verði reglur um starfrækslu á tölvum, m. a. að því er varðar öryggisráðstafanir, meðferð og geymslu á gögnum, stöðu starfsliðs o. fl. sem að tölvurekstri lýtur, einnig eftirlit með rekstri þeirra. Tölvutæknin er orðin svo fullkomin og hraðvirk að unnt er á mjög skömmum tíma að safna miklum upplýsingaforða, þ. á m. um einkamálefni. Með samtengslum er unnt að vinna upplýsingar úr mörgum áttum og safna saman á einn stað upplýsingum og mynda umfangsmikla tölvubanka.

Núgildandi lög og aðrar réttarreglur veita ekki fullnægjandi vernd gegn atlögu að einkalífi manna sem uggvænt þykir að hljótist af tölvustarfsemi. Sumar upplýsingar eru svo viðkvæmar, að eðlilegt þykir að banna skráningu þeirra og aðrar upplýsingar eru þess eðlis, að ekki má skrá þær nema með sérstökum skilyrðum.

Meðal fleiri atriða, sem kveðið er á um í frv., er heimild manna til að fá vitneskju um upplýsingar sem skráðar eru um þá sjálfa. Ég minni í því sambandi á frv., er áður hefur legið fyrir þinginu og hefur nú verið endurflutt, um aðgang að upplýsingum hjá almannastofnunum. Enn fremur eru reglur um hverjum miðlað verði tölvuskráðum upplýsingum, og er talið réttmætt að áskilja að þeir, sem aðgang hafa að slíkum upplýsingum, sýni fram á að þeir hafi eðlilega hagsmuni af því að öðlast þessar upplýsingar. Ef engar hömlur væru í þessu efni er hætt við að lagaverndin yrði af skornum skammti. Hins vegar er nauðsynlegt að taka tillit til eðlilegrar þróunar og þarfa þjóðlífsins á tölvurekstri. Í frv. er reynt að beina þeirri þróun í þá átt að sanngjarnt tillit skuli tekið til upplýsinga um einkamálefni. Hér rekast því saman tvö fullgild, en andstæð sjónarmið, annars vegar þörf á einkalífsvernd og hins vegar þörf á upplýsingaflæði. Raunhæf lausn fæst ekki með því að einblína um of á annað þessara sjónarmiða á kostnað annarra hagsmuna.

Ég vísa að öðru leyti til frv. sjálfs um einstök atriði og hinnar ítarlegu grg. sem því fylgir. Hér er um að ræða viðamikið og þýðingarmikið efni sem er þess eðlis að það þarfnast rækilegrar athugunar þn. Er ekki við því að búast að til slíks vinnist tími á yfirstandandi þingi nú er líður að þinglokum. Engu að síður þótti rétt að leggja fram frv. á ný til kynningar.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.