13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

151. mál, Olíumöl

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að koma inn í umr. um þetta mál sem hefur verið allfyrirferðarmikið á borðum fjvn. undanfarið. Ég verð að segja það eins og er í upphafi, að rétt áður en fjvn. lagði lokahönd á fjárlög til 3. umr. bárust tilmæli um það frá fjmrn. að inn í 6. gr. yrði tekið ákvæði eða heimild í sambandi við fyrirtækið Olíumöl varðandi söluskattsskuldir fyrirtækisins við ríkissjóð. Ég man ekki betur en við fjvn.-menn værum allir sammála um að hlutverk fjvn. í þessu máli yrði að vera meira en að gefa þessa heimild við 3. umr. fjárlaga, málið yrði að koma til skoðunar hjá fjvn. þar sem óljóst var hvernig þetta fyrirtæki væri í raun og veru í stakk búið til framtíðarrekstrar. Það, sem hefur gerst síðan, er að farið hefur verið mjög ítarlega ofan í þessi mál.

Ég vil segja það í sambandi við ummæli fyrrv. hæstv. fjmrh., Sighvats Björgvinssonar, að samkv. þeim upplýsingum um stöðu málsins, sem áttu að vera til í fjmrn., var skuldastaða fyrirtækisins rúmlega 1.5 milljarðar og uppfærð eignastaða fyrirtækisins á sama grundvelli um 1.3 milljarðar, en því miður hefur síðar komið í ljós að skuldastaða fyrirtækisins er að nálgast 2 milljarða. Það gerir málið vissulega miklu, miklu flóknara þegar þess er gætt um leið, að það, sem máli skiptir í sambandi við fyrirtækið, er markaðurinn fyrir þá vöru sem það framleiðir. Því miður, samkv. upplýsingum sem liggja nú fyrir, skortir þarna verulega á að markaður sé í samræmi við framleiðslugetu og framleiðsluþörf fyrirtækisins til að hafa jákvæðan rekstur.

Það er líka ljóst að í fyrirtækinu er yfirfjárfesting, þannig að málið er miklu vandasamara en að hægt sé að afgreiða það við svona umr.

En ég vil leiðrétta hv. fyrirspyrjanda að einu leyti. Hann sagði að tap fyrirtækisins væri 2 milljarðar. Þetta er vissulega alrangt. Það hefur komið fram í athugunum hjá fjvn. að tapið á s.1. ári var tæpar 400 milljónir, en skuldir þess eru að nálgast 2 milljarða. Eignastaðan er aftur á móti um 1.5 milljarðar.