13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

151. mál, Olíumöl

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að fara að bera blak af fyrirsvarsmönnum Olíumalar og hvernig þeir hafa haldið á málum í rekstri þess fyrirtækis. Af þeim sökum á það fyrirtæki skilið að fara þráðbeint á hausinn. En það hefur dálítið vafist fyrir mönnum til hvers það mundi leiða. Það eru þær ástæður sem til þess liggja að menn hafa haft svona miklar og margvíslegar athafnir í frammi til að sjá á hvaða ráð væri skynsamlegast að bregða.

Ef þetta fyrirtæki væri gert upp og yrði gjaldþrota liggur það fyrir að nærri öllu fjármagni, sem þar tapast, tapa hálfopinberir eða opinberir aðilar. Sársaukafyllst er tap sveitarfélaga ýmissa og mundi það vafalaust nema milli 300 og 400 millj. kr., þar næst ríkissjóðs að sjálfsögðu með þær tæpar 300 millj. sem söluskattsskuld nemur, þá Útvegsbanka Íslands sem einnig er auðvitað opinbert fyrirtæki með ómælt tap, en þeir einstaklingar, sem við þetta voru að flækjast, mundu mjög litlu tapa og óverulegu í þessu sambandi. Þetta er það fyrsta, þannig að þegar menn hugsa til þess að rétta þetta fyrirtæki við mundi það ekki síst vera til að verja fjármuni opinberra aðila að langsamlega mestum hluta.

Í hinu fallinu er það, að menn hafa leitt hugann að því til hvers mundi leiða í sambandi við framkvæmdir við varanlega vegagerð þar sem staðið hefur verið að málum með mjög slökum hætti, eins og allir þekkja, og gjörsamlega óviðunandi hætti. Menn hafa álitið, og það hafa menn verið sammála um, að sundrun þessa fyrirtækis gæti leitt til þess að tefja mjög fyrir framkvæmdum sem okkur bráðliggur á að ráðast i. Það er önnur aðalröksemdin fyrir því, að menn hafa beitt sér fyrir því að reyna að rétta þetta fyrirtæki við. — Ég er alveg að ljúka máli mínu, hæstv. forseti.

Nú er það svo, eins og fram kom hjá einum hv. ræðumanni, að það er auðvitað markaðurinn fyrir vöruna sem skiptir öllu máli. Framkvæmdasjóður Íslands hefur tekið ákvörðun um að kaupa hlutafé í þessu fyrirtæki fyrir 500 millj. kr. Ég hef, svo ég tali alveg hreint út um það mál, gert ráð fyrir að þetta fyrirtæki yrði Framkvæmdasjóðurinn að taka að sér, svo skapfellilegt sem það er eða hitt þó heldur. Það eru fleiri dæmi þess að hann hafi neyðst til þess, og nefni ég sem dæmi Álafoss og Norðurstjörnuna, en okkur hefur tekist allvel til, þó að ég segi sjálfur frá, að gera þau að myndarlegum fyrirtækjum sem veitt hafa mikla atvinnu og miklar gjaldeyristekjur. Enn fremur er þessi heimild, sem sjálfsagt er að nota eins og komið er málum, með þessar 300 millj. Þá var það á Framkvæmdastofnunarfundi í morgun að stjórn Framkvæmdastofnunar ákvað að bjóða fram 700 millj. kr. af Byggðasjóðsfé — því fé sem hann á að hafa til ráðstöfunar í ár — til framkvæmda í varanlegri vegagerð. Hygg ég að þetta geti að sínu leyti ráðið úrslitum, m. a. um það að þarna yrði þá fjármagn til að kaupa vöru og afurðir Olíumalar hf.

Ég hef tafið umr., hæstv. forseti, en taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram. En málið er, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. tók fram, ekki á enda kljáð. Það hlýtur þó mjög að draga að því innan tíðar. Ég held að þessar umræður færi okkur kannske ekkert nær takmarkinu í þeim efnum. Menn eru að leggjast nokkuð lágt með því að reyna að koma pólitísku höggi hver á annan í þessu máli, og ég verð að segja um umræður manna sem ekkert vit hafa á rekstri eða þessu máli, þar sem þeir standa á blístri og krefjast úttektar sem þeir svo hafa ekkert vit á heldur þegar hún kemur, að mér leiðast þær.