13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

151. mál, Olíumöl

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel það ánægjuleg tíðindi út af fyrir sig að hæstbjóðandi í Framkvæmdastofnun hafi með svo myndarlegum hætti gengið fram fyrir skjöldu bæði ríkisstj. og Alþingis að menn þurfi ekki frekari áhyggjur að hafa af Olíumöl né heldur varanlegri vegagerð í landinu eftir því sem mér heyrðist af máli hans. (SvH: Slakaðu þá á.) Þá ætti að vera nærtækast fyrir hæstv. fjmrh., hæstv. ríkisstj., fjvn. og Alþingi að hætta að hugsa um þetta mál fyrst svona er komið.

En ég vil taka það fram í sambandi við þetta mál, að umr. snýst ekki um hvort eigi að leggja niður þá starfsemi, sem fyrirtækið Olíumöl hefur stundað, og sundra starfsemi þess, heldur á hvaða verði ríkisvaldið eða af almannafé, hvort sem það heitir nú ríkissjóður eða Byggðasjóður, eigi að kaupa þetta fyrirtæki til áframhaldandi rekstrar. Á að kaupa þetta fyrirtæki til áframhaldandi rekstrar á langt yfir sannvirði, sem gerir að verkum að það muni aldrei geta staðið undir sér, eða á að kaupa fyrirtækið, sem er gjaldþrota, á því verði sem gerir fært að reka það án taprekstrar á næstu árum miðað við þær framkvæmdir sem við vitum að unnið verður að í vegamálum á þeim tíma? Við skulum gera okkur ljóst að það eru ekki aðeins nokkur hundruð millj. og jafnvel milljarðar á árinu 1980 sem verið er að ræða um. Það er verið að ræða um hvort kaupa eigi þetta fyrirtæki á svo langt yfir sannvirði að almenningur í landinu þurfi að borga kannske 200–400 millj. á hverju einasta ári á næstunni vegna þess að fjármagnskostnaður fyrirtækisins er langt umfram það sem reksturinn stendur undir.

Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast neitt við hæstv. fjmrh. um hvað hann hafi meint með hinu afdráttarlausa bréfi sínu. Hitt er alveg ljóst, að það, sem má marka af bréfinu, virðist ekki vera meining hæstv. ráðh. Ég vil hins vegar taka alveg skýrt og skorinort fram, að það var aldrei minnst á neina rannsókn við okkur Alþfl.-menn í sambandi við þetta mál. Um hana heyrði ég ekki rætt fyrr en samþykktin hafði verið gerð. Hafi það verið og sé það hugmynd hæstv. fjmrh. að það eina, sem fjvn. eigi að gera í þessu máli, sé að rannsaka er að sjálfsögðu nauðsynlegt að fjvn. fái það rannsóknarvald sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að þn. hafi í þessu sambandi. Þá þarf Alþ. að samþykkja slíka heimild til handa fjvn. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Ef það er ætlun hans að fjvn. sé rannsóknarnefnd í þessu tilviki, mun hann þá ekki vera fús að styðja það að hv. fjvn. fái það rannsóknarvald sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir í slíkum tilvikum? Og ég legg áherslu á það í lokin, að alveg ljóst er að hæstv. fjmrh., miðað við yfirlýsingar hans áðan, ætlast ekki til þess að svarið sé já eða nei frá fjvn. vegna þess að hann hefur ekki spurt um slíkt þó að bréf hans sé með þeim hætti. Hann ætlast aðeins til þess að fjvn. rannsaki þetta mál. Til þess að hæstv. fjmrh. fái afstöðu fjvn. þarf hann að spyrja hana um hvort hún vilji veita heimild til þeirra tilteknu aðgerða, sem í samþykkt Alþingis felast, og áður en hæstv. fjmrh. getur um það spurt þarf hann að sjálfsögðu að gera upp hug sinn til málsins.