13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

151. mál, Olíumöl

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni áðan að haft hefði verið samráð við fulltrúa þingflokkanna um að þessi lausn yrði á málinu áður en til samþykkisins kom á umræddu ákvæði við fjárlagaafgreiðsluna. Ég vil taka það fram, ef að hefur ekki komið nógu skýrt fram hjá mér, að ekki var haft samráð við þingflokk Alþfl. um að framkvæma umrædda rannsókn á vegum fjvn. og það fyrsta, sem ég heyrði af slíku, kom fram í grg. formanns þingflokks Alþb., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Fyrr hafði ég og aðrir þm. Alþfl., sem ég hef heyrt frá, ekki hugmynd um að til stæði að gera þessa athugun að einhverju skilyrði fyrir samþykktinni. Það kom mér gersamlega á óvart og það er ósatt, hvort sem það skiptir nú miklu að eða litlu máli, að haft hafi verið samráð við þingflokk Alþfl. (PP: Það stendur hér í þskj.)