13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (2552)

151. mál, Olíumöl

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég á sæti í fjvn. og þekki þess vegna dálítið til málsins og ætla því ekki að ræða það sérstaklega hér, en ég vil þó gefa þá yfirlýsingu, að mér þykir þetta upphlaup vera líkast leiksýningu. Það er vitað mál að öll fjvn. stóð að þeirri till. sem var samþykkt í fjárlögum á sínum tíma um stöðvunarrétt, ef svo má kalla fyrirvara fjvn. Fulltrúar allra flokka beittu sér fyrir þeirri samþykkt. Mér er kunnugt um að allir þingflokkar hafa tekið þessi mál fyrir, rætt þau út frá þeim fjölmörgu gögnum sem fyrir liggja um þessi mál, nema einn flokkur. Það er Sjálfstfl. Frá upphafi hefur það verið ljóst að hann hefur treyst sínum mönnum í fjvn. algerlega fyrir því að fara með umboð flokksins hvað þetta varðar, enda er það fjvn. sem hefur umboðið, en ekki þingflokkarnir. Þar þurfum við ekki að skýla okkur bak við aðra.

Að lokum vil ég segja það, að aðeins er hægt að gleðjast yfir einu af því sem hefur komið fram í þessum umr. Það var yfirlýsing hv. þm. Sverris Hermannssonar þegar hann sagði að Framkvæmdastofnunin eða stjórn hennar hefði í morgun ákveðið að láta leggja fram 700 mill. til varanlegrar vegagerðar í landinu. Það er í fyrsta skipti sem ég get hælt þessari stofnun. Og það er í fyrsta skipti sem það kemur fram að mörkuð hafi verið einhver byggðastefna af viti í þessu landi.