13.05.1980
Sameinað þing: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

151. mál, Olíumöl

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Í þessari umr. hefur verið vísað til ummæla Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann viðhafði við 3. umr. um fjárlög þar að lútandi, að fjvn. ætti að verða rannsóknarnefnd og þess vegna væri það óskiljanlegt með öllu að t. d. þm. Alþfl., sem hafa talað fyrir rannsóknarvaldi nefnda, samþykktu ekki þessa till. Málið er auðvitað það, að hér er ónákvæmlega vitnað til þingskapa. Eins og hv. formaður fjvn. hefur upplýst hefur fjvn. ekki slíkt rannsóknarvald nema Alþ. samþykki það sérstaklega. Það er auðvitað kjarni þessa máls.

Aðeins þetta að lokum: Þetta mál snýst auðvitað fyrst og fremst um hvort líða eigi að illa rekinn atvinnurekstur geti í fjárkúgunarskyni komið til almannavaldsins á eftir og krafist þess að almannavaldið greiði fyrir. Það er „prinsip“-málið sem um er að ræða.