13.05.1980
Sameinað þing: 57. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2583 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

164. mál, vegáætlun 1979-1982

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft till. til þál. um breyt. á vegáætlun fyrir árin 1979–1982 til umfjöllunar og hefur unnið að endurskoðun framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1980. N. klofnaði í afstöðu sinni og meiri hl. n. hefur skilað nál. á þskj. 480, en meiri hl. fjvn. skipa í þessu tilviki þeir Þórarinn Sigurjónsson, Alexander Stefánsson, Friðjón Þórðarson, Geir Gunnarsson, Guðmundur Bjarnason og Eiður Guðnason.

Hafa ber í huga að í þessu tilviki er um aukaendurskoðun að ræða sem aðeins tekur til yfirstandandi árs við þær sérstöku aðstæður sem við höfum hér búið við að því er varðar fjárlög og annað. Við þessa endurskoðun hefur fjvn., svo sem venja er til, notið aðstoðar þeirra Snæbjarnar Jónassonar vegamálastjóra, Helga Hallgrímssonar forstjóra tæknideildar Vegagerðarinnar og annarra starfsmanna Vegagerðar ríkisins.

Við gerð fjárlaga í vetur var ráðstöfunarfé Vegagerðar ríkisins aukið um rúmlega 2000 millj. kr. Þetta viðbótarfjármagn fer að mestu til að verðbæta lögbundna og fasta liði í vegáætlun. Fjárveitingar til sérstakra verkefna í stofnbrautum hækka um 200 millj. kr., en fjárveitingar til almennra verkefna og bundinna slitlaga á stofnbrautum svo og til þjóðbrauta eru óbreyttar að krónutölu frá gildandi vegáætlun. Heildarfjárveitingar til nýrra þjóðvega og brúa verða þá 11 milljarðar 352 millj. kr., og er framkvæmdamáttur þess fjár um 50% meiri en fjárveitingar til þessara liða í vegáætlun 1979.

Þar sem óbreytt krónutala er hins vegar veitt til þjóðbrauta og almennra verkefna á stofnbrautum hefur fjvn. viðhaft óbreytta skiptingu þessa fjár milli kjördæma. Þm. einstakra kjördæma hafa hins vegar fjallað um endurskoðun vegáætlunar, svo sem venja er til, og í nokkrum tilvikum hafa þeir fært fjármagn milli framkvæmda innan sinna kjördæma. Þá hefur fjvn. og fjallað um skiptingu fjár til einstakra verkefna að því er varðar bundin slitlög og sérstök verkefni á stofnbrautum. Sú skipting er óbreytt frá gildandi áætlun að því er snertir bundnu slitlögin, en meiri hl. n. gerði tillögur um nokkrar tilfærslur innan þess sem nefnt er sérstök verkefni, en þær eru í því fólgnar að þau tvö verkefni, Borgarfjörður og Önundarfjörður, þar sem þarf að ná ákveðnum framkvæmdaáföngum, fá þá lágmarksfjárveitingu sem til þess þarf. En til þess að svo mætti verða þyrfti að skerða fjárveitingar til annarra liða í þessum flokki um sem nemur 16%.

Af hálfu minni hl. n. hefur komið fram, að þeir, sem hann skipa, gera ekki sérstaklega aths. við skiptingu fjár milli kjördæma nema að því er varðar sérverkefni og brýr. Afstaða minni hl, kemur fram í sérstöku nál, og verður væntanlega gerð grein fyrir því hér á eftir. Till. meiri hl. er hins vegar að finna á þskj. 479.

Fjvn. hefur borist bréf sem hv. þm. Matthías Bjarnason ritaði fyrir hönd þm. Vestf. varðandi tengingu Inn-Djúps, en á liðnum „Sérstök verkefni“ eru til þess ætlaðar 250 millj. kr. á árinu 1982. Bréf þetta er prentað sem fskj. með nál. meiri hl. fjvn.

Að lokum vil ég segja örfá orð um afstöðu Alþfl. til þessarar till. um breytingu á vegáætlun. Hún er í sem skemmstu máli sú, að við fjárlagagerðina fluttum við Alþfl.-menn ítarlegar till. í mörgum liðum um hvernig mætti lækka útgjöld ríkisins og draga úr skattheimtu og skattbyrðum á almenning, en skattahækkanir virðast hins vegar ætla að verða aðalsmerki og einkenni þessarar stjórnar og það sem hennar verður sjálfsagt lengst minnst fyrir. Allar þær till. til útgjaldalækkunar felldi stjórnarliðið. Þar sem fjár til þeirra útgjalda, sem um ræðir í þessu tilviki, hefur þegar verið aflað telur Alþfl. þá skiptingu, sem hér er gert ráð fyrir, ekki óeðlilega og getur því fyrir sitt leyti veitt henni brautargengi og mun svo gera í þessu tilviki.