13.05.1980
Efri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2597 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að flytja hér langa tölu eftir að formaður iðnn., hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, hefur gert svo ítarlega og góða grein fyrir málinu og umfjöllun þess í iðnn. sem mér þótti hann gera, eins og honum var til trúandi, af hlutlægni og góðum skilningi. Erindi mitt er aðeins að andmæla brtt. við frv., sem hann gerði hér grein fyrir, sem þeir eru flytjendur að hann og hv. þm. Egill Jónsson.

Sjálfur sagði hann frá því, hvernig brtt. er til komin. En ég vil undirstrika það atriði nú við þessa umr. að af hálfu fulltrúa iðnaðarins, sem saman voru komnir á fundi iðnn., þegar eftir því var gengið við þá ljósum orðum hvort þeir fyndu nokkurn þann annmarka eða meinbug, eins og það var orðað, á frv. þessu sem réttlætti að afgreiðsla þess væri nú tafin þannig að hún færi ekki fram á þessu þingi, þá fékkst ekki fram ein einasta rödd, sem með slíku mælti, og enginn sagði slíkan löst á frv. sem afsakaði það að afgreiðsla þess yrði nú tafin, enda gaf hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ekkert slíkt í skyn í sinni ræðu.

Hitt vildi ég að kæmi fram nú við þessa umr., að einungis einn af fulltrúum iðnrekenda, sem á fund n. kom, það var formaður Félags ísl. iðnrekenda, Davíð Scheving Thorsteinsson, gerði grein fyrir áhyggjum sínum út af því, að Samband ísl. samvinnufélaga fengi fulltrúa í stjórn Iðnrekstrarsjóðs, og rökstuddi á þá lund sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson gerði hér áðan og gerði þó hans orð ekki að sínum, heldur gerði þar grein fyrir skoðunum formanns Félags ísl. iðnrekenda. Af hálfu annarra fulltrúa iðnaðarins, sem á fund n. komu, var ekki gerð grein fyrir slíkum ugg sem þessum.

Ég skil hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og hv. þm. Egil Jónsson mjög vel, þar sem þeir leita þess nú að koma málunum þann veg fyrir að enginn úr hópi iðnaðarins, ekki einu sinni Davíð Scheving Thorsteinsson, geti fett fingur út í neitt atriði frv. og þá ekki heldur út í skipun stjórnar Iðnrekstrarsjóðs. Aftur á móti er hugmyndin um það að leysa svo stjórn Iðnrekstrarsjóðs frá hinu slæma Sambandi ísl. samvinnufélaga að setja þar fulltrúa Vinnumálasambands samvinnufélaganna í staðinn með þeim hætti, að samsvara mundi því að Félag ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna fengju ekki fulltrúa í stjórn Iðnrekstrarsjóðs, heldur Vinnuveitendasamband Íslands í staðinn. Ekki segi ég þetta til að kasta rýrð á viðleitni hv. þm. sem að brtt. standa, heldur vil ég aðeins undirstrika það atriði, að við sneiðum ekki fram hjá neinum vanda með þessum hætti. Ef fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga í stjórn Iðnrekstrarsjóðs, sem er samband fyrirtækja á líkan hátt og Félag ísl. iðnrekenda er samtök atvinnurekenda, vildi það viðhafa að stunda þar iðnaðarnjósnir í þágu fyrirtækja sinna, þ. e. samvinnufélaganna, væri náttúrlega fulltrúa Vinnumálasambands samvinnufélaganna, ef við vildum dulbúa fulltrúa SÍS á þann hátt, trúandi til þess á sama hátt. Ætla mætti einnig að þeir fulltrúar, sem Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna skipuðu í stjórn sjóðsins, yrðu starfsmenn, forstórar eða áhrifamenn í einhverjum af fyrirtækjum iðnaðarins og væru þá einnig á sama hátt tortryggilegir í stjórn Iðnrekstrarsjóðs. Ég er þeirrar skoðunar, og ég er viss um að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson er mér sammála um það, að við verðum að leita annarra ráða til að tryggja heiðarleg vinnubrögð í Iðnrekstrarsjóði Við hljótum að finna til þess ráð að setja slíkar reglur um starfsemi stjórnar Iðnrekstrarsjóðs að þar eigi sér ekki stað brall af þeirri tegund sem Davíð Scheving Thorsteinsson — ekki vil ég víkja illu að honum eða neinu ónotalegu hér þar sem hann er víðs fjarri — lét sér til hugar koma að fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga kynni að iðka í sjóðnum.

Svo vil ég í lokin, herra forseti, á sama hátt og formaður iðnn., hv. frsm., leggja áherslu á nauðsyn þess að við afgreiðum þetta mál úr þinginu núna, svo sem heitið hefur verið.