13.05.1980
Efri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék nokkru nánar en ég hafði gert að því sem gerðist á fundi hv. iðnn. Það var viðbót við það sem ég sagði. Ég hef ekkert við það að athuga sem hv. þm. sagði.

Ég hafði að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, sem mér fannst vera rauði þráðurinn í því sem hann sagði, að við nm. í hv. iðnn. tækjum tillit til þess sem gestir okkar sögðu um þetta efni, og það viljum við allir gera. En æðsta boðorð okkar allra er þó að fara að eigin samvisku og gera það að lokum upp við okkur sjálfa hvað við viljum gera í hverju máli, hvað góðir menn sem í hlut eiga og kunna að leggja eitthvað annað til. Þetta atriði, sem felst í brtt. okkar hv. 11. landsk. þm., er, ef svo mætti segja, „prinsip“-atriði. Það var tekið fram á fundi iðnn. af þeim gesti okkar, Davíð Scheving, sem lagði áherslu á þetta, að hann hefði engar kvartanir fram að færa á hendur fulltrúum Sambands ísl. samvinnufélaga í þessu sambandi. Það varð því að líta á þetta sem „prinsip“ — atriði. Það er í þeim anda sem við flytjum brtt., ég og hv. 11. landsk. þm.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að ef Vinnumálasamband samvinnufélaganna væri tekið inn í stjórn sjóðsins ætti Vinnuveitendasambandið að koma líka. Ég held að þetta sé misskilningur. Ég held að Vinnuveitendasambandið þurfi ekki að koma. Það er nægilegt, ef mætti orða það svo, að hluti af Vinnuveitendasambandinu sé aðili að stjórninni með því að fulltrúi Félags ísl. iðnrekenda er í henni. Félag ísl. iðnrekenda er aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands, þannig að mér sýnist að það yrði fullt samræmi hér á milli þó að Vinnumálasamband samvinnufélaganna kæmi. Auk þess kemur til, að annar aðili vinnumarkaðarins er þegar fyrir í stjórninni samkv. frv., þ. e. Alþýðusamband Íslands. Þannig sýnist mér að það sé fyllsta samræmi í því, ef Vinnumálasamband samvinnufélaganna kemur þarna inn. M. ö. o. sé ég ekki neina meinbugi á því að samþykkja brtt. sem við höfum flutt.