13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2602 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

94. mál, sjómannalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þá brtt., sem n. flytur. Ég kýs að gera örstutta grein fyrir þeirri till. sem ég flyt.

Frsm. lýsti í nokkru aðdraganda að gerð þessa frv. Það er sem sagt flutt til að fullnægja loforði sem sjómannasamtökunum var heitið að komið yrði fram um aukin félagsleg réttindi sjómanna. Það er, eins og segir í grg. með frv., meginmarkmið frv. að auka annars vegar rétt sjómanna til greiðslu launa í veikinda- og slysatilfellum til samræmis við aukin réttindi landverkafólks á þessu sviði, en hins vegar að tryggja sjómönnum réttmætar kaupgreiðslur eftir að afskráning hefur farið fram.

Þegar ég kom til vinnu í samgn., sem hafði þetta frv. til meðferðar, höfðu menn fjallað allmikið um málið og gert nokkrar breytingar við frv., sem flestar eru í þeim brtt. sem lagðar voru fram að lokum.

Ég vil ekki gera lítið úr því að sjómönnum sé tryggður sem mestur réttur við sitt starf, jafnáhættusamt og erfitt sem það er. Þeir hafa sérstöðu að því er varðar öll störf manna í þessu landi. En það, sem gerir það að verkum að ég kýs að flytja þá brtt. sem ég hef lagt fram er sú grundvallarskoðun mín, að með lagasetningu eigi ekki að hrófla við samningum sem gerðir hafa verið, — ekki nema í ítrustu neyð. Ég lít þannig á, að sú breyting, sem n. kom sér saman um að gera á 3. mgr. 1. gr. frv., gangi á móti þeim samningum sem gerðir hafa verið við sjómenn. Aftur á móti er frv., eins og það var lagt fram, í samræmi við þá samninga sem í gildi eru. Ég taldi því meira en réttlætanlegt að hafa þá grein innan þess ramma sem frv. setur, þar sem mér er ekki annað kunnugt en að aðilar hafi verið ásáttir um frv. eins og það var lagt fram. Annað hefur ekki komið fram svo ég víti til.

Í frv. hefst 3. mgr. með þessum hætti, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, skal hann eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði, ef um er að ræða stýrimann, vélstjóra, bryta eða loftskeytamann, en einn mánuð, ef skipverji gegnir annarri stöðu á skipinu.“

Svona er þetta sett upp í frv. eins og það kom til nefndarinnar. N. hefur aftur á móti gert þá breytingu að orða mgr. á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta: „Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, skal hann eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði.“ Lengra nær ekki mgr. í breytingum nefndarinnar.

Eins og ég sagði áðan þótti mér einsýnt að reynt yrði að halda lögunum innan þeirra marka sem samningar hafa gilt um. Ég hef því flutt brtt. sem er á þann hátt — , að í staðinn fyrir orðin „þó ekki lengur en í tvo mánuði“ komi: þó ekki lengur en í einn mánuð, nema um lengri tíma hafi verið samið milli aðila.

Með þeim hætti tel ég að orðalag sé í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið á milli aðila í þessu efni. Ég tel það affarasælast fyrir Alþ. að hrófla sem allra minnst við samningum með lagasetningu. Því flyt ég þessa till. og tel að það sé í samræmi við þá réttlætisvitund, sem við höfum yfirleitt, og virðingu, sem við viljum bera fyrir samningum.