13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

94. mál, sjómannalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef sjaldan séð eins gott mál kynnt úr n. eins vandræðalega og hér hefur verið gert. Það virðist einhvern veginn vera þannig á þessu hinu háa Alþingi að ef eitthvað er lagt fram sem einhver hugmynd er á bak við, einhver nauðsyn til lagfæringar, þá er eins og það verði ævinlega þyngra fyrir fæti að fá það fram. Hér eru menn að leggja fram í gríð og ergi hverja vitleysuna á fætur annarri og allt gengur þetta vel og fallega í gegnum n., en ef á bak við eitthvað af þessu skyldi nú leynast virkileg hugsun fara menn að tafsa.

Ég vil segja það strax, að ég vakti athygli á göllunum við þetta frv. þegar það var lagt fram hér í deildinni, og ég fagna því, að það hefur verið tekið til greina og afgreitt og það hefur verið gert vel. Hér hafa menn verið að vandræðast yfir því. Jú, menn fallast á að það sé kannske alveg rétt að yfirmenn og undirmenn skuli hafa jafnlangt veikindaleyfi, en menn eru hræddir við að nú eru sjómenn komnir með lengra veikindaleyfi en verkafólk í landi. Hugsa sér! Skyldi nú ekki vera töluvert erfiðara fyrir sjómann að fara aftur til vinnu sinnar eftir veikindi en manninn sem getur komið heim til sín á kvöldin og talað við lækninn sinn hvenær sem honum sýnist? Hvernig stendur á að menn segja svona vitleysu hér? Auðvitað eiga sjómenn að hafa lengra veikindafrí en annað fólk. Það liggur í hlutarins eðli og það hefur n. sem betur fer skilið — sumir með semingi þó, en í öllu falli sýnist það geta orðið samþykkt hér.

Jafnframt eru menn að tala um — og ég er að hugsa hvað hv. þm., félagi Guðmundur J. Guðmundsson, hugsar þegar hann heyrir slíkar fullyrðingar og slíkan vandræðagang — að það sé alltaf hættulegt að vera að blanda lagasetningu í kjarasamninga og félagslegar umbætur eigi að koma í gegnum kjarasamninga. Mikið ansans ári held ég að þær væru stutt komnar ef löggjafinn hefði ekki stundum mannað sig upp og sett lög um félagslegar umbætur.

Ég get ekki séð að það geti verið neitt vandamál fyrir útgerðina að greiða sínu fólki veikindafrí rétt eins og öðrum. Það er áreiðanlegt að sjómennirnir okkar færa atvinnurekendum sínum þann auð í bú að það minnsta er að þeir greiði þeim sómasamlegt veikindafrí. Og ég vil ítreka það, sem hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan, að þótt aðeins 8% starfandi manna séu sjómenn eru 20% vinnuslysa slys á sjómönnum. Þessir menn koma síðan í land eftir 50 ára útivist og fá 140 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði sjómanna. Er nú ekki mál til komið að Alþ. manni sig upp og reyni að bæta eitthvað kjör þessara manna? En það er nefnilega með sjómenn eins og fiskinn: Íslendingar hafa alltaf dauðskammast sín fyrir að borða fisk, og það er alveg eins og sjómenn hafi aldrei almennilega komist á blað þegar talað er um félagslegar umbætur. Og að hlusta á hv. 6. landsk. þm. vorkenna útgerðarmönnunum sínum í Bolungarvík. Ætli hann Einar Guðfinnsson telji nokkuð eftir sér að borga þessi veikindaleyfi. (Gripið fram í.) Ég skal engum segja það, Karvel, að þú hafir sagt þetta hérna inni.

Ég skal ekki lengja mál mitt mikið. Ég fagna þessu fram komna frv. og treysti hæstv. samgrh. að hagga þar ekki staf frá því sem nú er. Ég tel, að frv. sé mikil réttarbót fyrir sjómenn, og hygg, að sjómannastéttin kunni vel að meta ef það gengur í gegnum hið háa Alþingi áður en þinglok verða.