13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

94. mál, sjómannalög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka það fram fyrst, að það er út af fyrir sig fagnaðarefni að nú eig loksins að gera tilraun til að standa við það að sjómenn fái eitthvað út úr félagsmálapakkanum. Þeim var lofað ýmsu af þeirri ríkisstj. sem hæstv. núv. utanrrh. myndaði á sínum tíma, en hins vegar hefur lítið orðið úr efndunum fram að þessu og er satt að segja ekki undarlegt þótt ýmsir í þeirri stétt séu orðnir nokkuð langeygir eftir þessum hluta, ekki síst þeir sem lögbann var sett á á s. l. ári. Má segja að það sé eitt með öðru í sambandi við þingræðisreglur og þingræðishefðir okkar að menn skuli geta sett lögbann á heilar stéttir með brbl. án þess að málin fáist rædd á Alþ. og þeir menn, sem að því stóðu, geri þannig grein fyrir sínu máli. — Ég sakna þess vissulega að ekki skuli vera hægt að eiga nokkur orðaskipti við þá þm. Alþb. í sambandi við þessi áður nefndu gerðardómslög — þessi þrælalög á sjómenn sem sett voru fyrir ári eða svo.

Ég vil segja það annars í sambandi við þær brtt., sem hér liggja fyrir, að eftir þeim upplýsingum, sem fram komu í n. og hægt var að átta sig á, eru þær innan þess ramma sem ríkisstj. taldi að sjómenn hefðu í þeim viðræðum sem fram fóru fyrir vestan í tengslum við deiluna fyrir vestan. Það kom raunar fram í máli hæstv. sjútvrh. áðan, að hann telur að þessar breytingar séu allar til bóta, og geri ég ráð fyrir að það tákni að hann hafi áður verið búinn að lýsa hugmyndum sínum við aðila vinnumarkaðarins í þessum efnum. Ég vil taka undir það, því að ég tel að menn eigi í veikindum allir að hafa sama rétt til veikindaorlofs á launum, sömu tímalengd, og gat illa fellt mig við það orðalag að sumir skyldu fá einn mánuð greiddan, en aðrir tvo. Þetta hefur nú fengist lagfært. En ég vil segja um leið, að ég saknaði þess mjög og þótti mjög illt til þess að vita hversu skamman tíma n. hafði til að athuga þessi mál og hversu illa það var í rauninni búið í hendur hennar.

Það er augljóst mál, að sú regla, sem hér er sett fram um tvo mánuði, skapar fordæmi gagnvart landverkafólki og ég geri ráð fyrir að aukinn þrýstingur verði á meira öryggi fyrir það í veikindum en áður. Þessi sjónarmið voru einmitt rædd í nefndinni.

Ég vil taka undir orð hæstv. ráðh. um að nauðsynlegt sé að taka þessi mál, öryggismál bæði sjómanna og annarra, til ítarlegrar meðferðar, vinna þau mál upp alveg frá grunni þannig að atvinnurekendur og launþegar geti komist að samkomulagi um hvernig best verði að þessu staðið. Það er alveg augljóst mál að illt eða nær ógerningur er að hafa eftirlit með því, hvort veikindatilkynningar hafi í öllum tilvikum við rök að styðjast. Ég vil jafnframt taka það fram, að ég hefði talið eðlilegt að síðasta mgr., eins og hún var í frv. varðandi tilkynningarskyldu skipverja til útgerðar, hefði staðið óbreytt, en það fékkst ekki fram í n. Ég tel að það sé engum til góðs að slakað sé á í þeim efnum að mönnum sé gert að gera grein fyrir veikindum ef til verulegra forfalla kemur af þeim sökum.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég hafði örlítið gaman af því að heyra hv. 8. landsk. þm., Guðrúnu Helgadóttur, ræða þessi mál. Það er leitt til þess að vita ef hún er ekki viðstödd. Það hefur oft borið við á þessu þingi að kjaramál opinberra starfsmanna hefur borið á góma. Hún á sæti í stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og þótt fram hafi komið æ ofan í æ að einstakir hæstv. ráðh. hafi ekki svarað einföldum og sanngjörnum fsp. í sambandi við þá samningagerð hefur þessi hv. þm. ekki sagt eitt einasta orð og ekki látið til sín heyra og ekki haft vit á því að skreppa vestur á Snæfellsnes, eins og formaður Verkamannasambandsins þegar skattalögin voru hér til umr. Ég segi að það væri meiri alvara í málflutningi hennar í sambandi við kjaramál almennt ef hún reyndi að halda sig við það í framtíðinni að berjast fyrir betri kjörum þessa fólks, sem hefur kosið hana til forustu í launþegasamtökum sínum, og sýndi það í verki á Alþ. að hún vildi og þyrði að ganga á móti þessari hæstv. ríkisstj. þegar hagsmunir þessa fólks krefðust, því að það er vissulega oft.

Ég vil að gefnu tilefni, vegna ummælanna sem hæstv. samgrh. hafði áðan, spyrja ráðh. hvort hann sé reiðubúinn til að beita sér fyrir því, að opinberir starfsmenn fái sams konar réttindi gagnvart ríkinu og felast í þessu frv. og brtt. n. handa sjómönnum gagnvart útgerðinni. (Gripið fram í: Þeir hafa fyrirmyndina.)

Ég held að það sé með býsna mismunandi hætti sem opinberir starfsmenn eru ráðnir, — við skulum segja þá starfsfólk hjá ríkinu. Mér er kunnugt um að sá háttur var tekinn upp þegar síðasta vinstri stjórn sat að völdum að fólk, sem vann hjá ríkinu, fékk ekki einu sinni að vera í lífeyrissjóðum. Það var byrjað að lausráða fólk sem var réttindalaust, og ég held að það fólk, sem vinnur hjá ríkinu, sé á afskaplega mismunandi kjörum eftir því við hvað það starfar. Það hefur m. a. komið í ljós að gangastúlkur í sjúkrahúsum verða að una því að hafa misjöfn kjör eftir því í hvaða stéttarfélagi þær eru. (Gripið fram í.) Við skulum hafa þetta starfsmenn ríkisins. Ég spyr, hvort hæstv. samgrh. sé reiðubúinn til að beita sér fyrir því, að starfsmenn ríkisins — hver og einn — njóti sömu réttinda og hann telur sjálfsagt í sambandi við þetta mál að útgerðin tryggi sjómönnum.