13.05.1980
Neðri deild: 75. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

94. mál, sjómannalög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var lagt fram í deildinni kvaddi ég mér hljóðs og gagnrýndi að yfirmönnum og undirmönnum skyldi ætlaður misjafn réttur í veikinda- og slysatilfellum. Ég fagna því, að n. hefur tekið þetta mál upp á sína arma og gert á því þær breytingar sem í ljós hefur komið að mikill meiri hl. þm. er hlynntur.

Hins vegar vil ég alfarið mótmæla þeirri fullyrðingu, sem kom fram hjá 8. landsk. þm., að með þessu sé sjómönnum tryggður meiri réttur en öðrum í veikinda- og slysatilfellum. Það er að vísu rétt gagnvart landverkafólki, en það eru stórir hópar í þessu þjóðfélagi sem hafa meiri rétt í slysa- og veikindatilfellum. Það hlýtur hv. 8. landsk. þm. að vera fullkomlega ljóst.

Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega, af því að menn hafa gert hér aflahlutinn að umræðuefni, að það hefur fallið dómur í máli á milli Þjóðleikhússins og starfsmanns þess um hvort starfsmaðurinn ætti rétt á að fá greidda yfirvinnu í veikindum. Dómurinn féll á þann veg, að starfsmaðurinn fékk yfirvinnuna greidda. Þetta hef ég trú á að 8. landsk. þm. hafi einnig vitað því að þetta var prófmál á sínum tíma, en yfirvinnan er mjög sambærileg við aflahlutinn. Þess vegna vil ég undirstrika að það er ekki með þessu verið að færa sjómönnum nein forréttindi í þessu þjóðfélagi. Þeir hafa ekki náð fullum rétti miðað við þær stéttir sem hafa best kjörin.

Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. 6. landsk. þm., því að ég lít svo á að með þessu sé verið að brjóta í blað og veita visst fordæmi, en ég tel að það fordæmi eigi fullkomlega rétt á sér.

Það hefur verið rætt um það hér allmikið, að með þessu væri hinum smærri útgerðarfélögum skapaður stór vandi. Ef ekki verður farið í samtryggingu hjá útgerðarmönnum, þ. e. að þeir myndi annaðhvort sameiginlegan sjóð, sem þeir greiði í allir að staðaldri, eða tryggi sig hjá tryggingafélagi fyrir hluta af þeim greiðslum, sem við þetta geta skapast, er vissulega rétt að hinum smærri útgerðarfélögum getur stafað hætta af þessu. En ég tel alveg fráleitt að gera ráð fyrir að þeir bregðist við á annan hátt en þann að standa sameiginlega að því að bera uppi þann kostnað sem af þessu hlýst. Með því móti tel ég ákaflega skoplegt að halda því fram að þarna sé verið að gera eitt eða neitt sem geti verið hættulegt útgerð í þessu landi.