14.05.1980
Efri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er til meðferðar mál sem mjög er knýjandi að gangi í gegnum báðar d. fyrir þinglok, eins og hv. frsm. félmn. tók fram í gær, þ. e. að úr Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra verði hægt að veita styrki til framkvæmda við heimili sjálfseignarstofnana og annarra aðila svo og vistheimili, en þessir liðir báðir eru úti vegna þeirrar lagabreytingar, sem varð hér í fyrra, og vegna þess að Styrktarsjóður vangefinna var þá ekki tekinn upp. Þetta var útskýrt í gær.

Ég ætla ekki að hefja neinar almennar umræður um þetta mál, en í fyrra urðu mjög miklar og langar umr. hér í þinginu í sambandi við verðtryggingu á Framkvæmdasjóðnum og sýndist sitt hverjum.

Nú er komin hér fram brtt. frá Karli Steinari Guðnasyni og Salome Þorkelsdóttur um það, að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum til a. m. k. 225 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1981. Skal sú fjárhæð hækka í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar miðað við árið 1980 að grunni. Þarna er sem sagt komið að sama deiluefninu varðandi þetta og var í fyrra og þvældist sem lengst fyrir Nd. þá. Nú er ég ekki sem nefndarmaður í stjórnarnefnd Framkvæmdasjóðs þroskaheftra að frábiðja mér peninga, síður en svo. Við þurfum vissulega á meiri peningum að halda en við höfum til ráðstöfunar í dag, en getum þó, það fullyrði ég, veitt öllum allviðunandi úrlausn miðað við það sem nú liggur fyrir.

Til þess að þetta mál yrði ekki að deilumáli, vegna þess að hér kom fram við afgreiðslu fjárlaga mjög eindregin skoðun fjvn. allrar varðandi mál þetta, og til þess að hitt atriðið, sem er alveg óumdeilanlegt, komist greiðlega í gegnum þetta þing, þá hefði ég auðvitað helst kosið að þetta mál yrði tekið upp á hausti komanda við fjvn. og knúið á um það þá, en að við stefndum þessu máli ekki í hættu núna með frekari umr. varðandi mismunandi skoðanir manna hér á, sérstaklega með tilliti til þess sem formaður fjvn. sagði í framsögu sinni um þessi mál, um einróma álit n. að Framkvæmdasjóður þroskaheftra og öryrkja ætti að hafa þetta verkefni. Um það getum við nefnilega deilt endalaust, hvort við eigum að skipta þessu í tvo sjóði eða hvort við eigum að hafa þetta allt undir sama hatti.

Ég hefði helst óskað eftir því, að hv. tillögumenn drægju þessa till. sína til baka, vegna þess að hér er um fjárveitingamál að ræða sem ég vil taka upp næsta haust við fjvn. Verði það ekki, sem ég á von á, kemur þessi till. hér undir atkv. og þrátt fyrir að ég vilji fá þarna ærna peninga get ég ekki — miðað við það, sem fjvn. hefur gert í þessu máli og lagt til, og miðað við það einnig, að ég ber traust til þeirra manna á næsta hausti — farið að samþykkja þessa till. nú og verða þess kannske valdandi að þessi verðtryggingarspurning, sem varð að þessu óskaplega umræðuefni í Nd. í fyrra, komi nú upp á ný og geti tafið málið. Ég verð því að greiða atkv. gegn þessari till., en þætti miklu betra að hún yrði hreinlega dregin til baka og við þyrftum ekki hér um að deila, en fælum fjvn. og svo okkur þm. sjálfum á næsta hausti að vinna að máli þessu.