14.05.1980
Efri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ef til vill hefði ég látið hjá líða að taka til máls um þetta sérstaka þingmál, sem hér um ræðir, ef ekki hefði setning hjá hv. síðasta ræðumanni ýtt undir að hugleiða í sambandi við afgreiðslumálsins hvort tannsmiðir væru raunverulega sú kúgaða stétt, sem menn hafa verið að gera skóna að væri, og málið snerist um stéttarlega og kjaralega stöðu þeirra.

Ég hef kynnst lítils háttar síðustu mánuðina átökum sem farið hafa fram varðandi kjaramál og stéttarlega stöðu á milli tannlækna og tannsmiða í sambandi við störf mín í tryggingaráði, og ég er fremur þeirrar skoðunar að andóf tannlækna gegn þessum réttindum, sem hér er um talað tannsmiðum til handa, stafi af því að þeir þykist sjá fram á að e. t. v. missi þeir þarna spón úr askinum sínum. Ég hef rætt þessi mál við forsvarsmenn tannlækna og heyrt einmitt viðbárur í líkingu við þá, sem hv. þm. Davíð Aðalsteinsson lét okkur heyra áðan og gerði þó ekki að sínum orðum, að hverjum sem væri ætti að haldast uppi að vaða upp í menn með óhreinar lúkurnar. Ég leyfi mér náttúrlega að spyrja sem svo, hvort það ættu þá að vera sérréttindi tannlækna að vaða upp í menn með óhreinar lúkurnar, ef um óhreinar lúkur væri að ræða í þessu sambandi.

Mér er kunnugt um að þetta fyrirkomulag, að gera tannsmíðina að iðngrein, hefur gefist prýðilega á Norðurlöndum. Ég vildi samt gjarnan sjá fram á að við færum ekki allar götur aftur til aldamótanna, þegar við kvæðum á um fyrirkomulag á menntun tannsmiða á Íslandi, og þykist sjá raunar ýmsa vankanta á málinu, sem hér liggur fyrir, í þeirri mynd sem það er að þessu leyti, og vildi gjarnan að það yrði skoðað betur.

Hjá okkur hafa vandamálin fyrst og fremst verið sjúklinganna, fólksins sem hefur lent í þeirri ógæfu að missa tennurnar, þurft að láta smíða upp í sig, og hefur þrennt komið þar aðallega til að því er mér virðist: Í fyrsta lagi vandamál þess fólks úti á landsbyggðinni, sem þarf að fara um langan veg til að láta smíða upp í sig, eins og það er almennt kallað, í öðru lagi fólksins í þéttbýlinu, sem hefur mátt búa við skort á tannsmiðum á liðnum árum og áratugum, og svo í þriðja lagi vandi þess fólks, sem hefur lent í höndunum á slæmum tannsmiðum sem hafa, svo sem dæmin sanna, átt það til jafnvel að smíða upp í viðkomandi tennur sem alls ekki pössuðu. Dæmi veit ég um að maður, sem fór um langan veg austan af landi hingað til Reykjavíkur til að láta smíða upp í sig og fékk tennurnar sendar heim í póstkröfu, fékk tvo neðri góma, en engan efri góm. Minnisstæð er mér frásögn ágætismanns eins, hins landsfræga aflakóngs Þorsteins í Laufási í Vestmannaeyjum, af því þegar tannsmiðurinn vandaði svo gerð gómanna upp í hann — eða öllu heldur neðri gómsins — að hann gat aldrei haft réttan kompás um borð í Unni eftir það. Maðurinn hafði laumað segulstáli í tvo af jöxlunum í því skyni að auðvelda Þorsteini að opna munninn ef gómarnir skyldu límast saman. Þetta gerði það að verkum að þegar hann rýndi í kompás í 15 ár eftir það, þangað til hann henti þessum góm var kompásinn alltaf vitlaus.

Ég er ekki að halda því fram að tannlæknir hefði fremur séð við þessu en tannsmiður. Mig minnir einhvern veginn að það hafi verið danskur tannsmiður sem smíðaði þennan segulgóm upp í Þorstein og hefur e. t. v. haft það sér til afsökunar að hann hafi ekki verið nógu kunnugur starfsháttum aflaskipstjóra í Vestmannaeyjum og þörf þeirra fyrir segulstálslausan munn. Hitt er ljóst mál, og það mun fleiri hv. deildarmönnum vera kunnugt, að á því hefur viljað vera töluverður misbrestur að tennurnar, sem smíðaðar hafa verið upp í Íslendinga á liðnum áratugum, hafi allar verið nógu góðar, a. m. k. ekki of góðar.

Ég held að það sé þörf fyrir að við stuðlum að aukinni menntun og þjálfun tannsmiða. Ég er þeirrar skoðunar að við getum gert það með því að gera þetta að sérstakri iðngrein og veita tannsmiðum réttindi við hæfi. En ég þykist ekki alveg viss um að það mál, sem við fjöllum um hérna, sé þann veg búið að það tryggi þetta nógu vel. Ég vildi þess vegna gjarnan að það væri hægt að líta betur á málið, þá með þeim eindregna ásetningi að draga ekki afgreiðslu þess, tryggja að þetta yrði samþykkt t. d. á haustþingi.