14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka nefndarformanni fyrir sérstaklega gott starf. Hann hefur rekið þetta mál áfram af mikilli hörku og vinnusemi og notið þar góðrar aðstoðar Guðmundar Bjarnasonar, sem var frsm. nefndarinnar.

Við erum hér að fjalla um frv, sem fyrir allnokkru var lagt fram. Það varð til á þann hátt að verkalýðssamtökin sömdu um að gert verði stórátak í húsnæðismálum. Það var fyrst árið 1974 — í samningunum þá — að húsnæðismálin, þ. e. það sem nú er ætlað að gera, urðu til þess að greiða fyrir lausn á vinnudeilu. Þá var því heitið að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því að á árunum 1976–1980 yrðu byggðar íbúðir fyrir efnalítið fólk í stéttarfélögum innan ASÍ og hliðstæðra samtaka um land allt. Samkv. yfirlýsingunni skyldi að því stefnt að eigi minna en þriðjungur af áætlaðri íbúðaþörf landsmanna yrði byggður á þessum grundvelli. Jafnframt var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir á samningssviði Alþýðusambandsins tækju þátt í fjármögnun félagslegra íbúðabygginga með kaupum á skuldabréfum fyrir fjárhæð sem næmi 20% af ráðstöfunarfé þeirra. Þessi yfirlýsing var síðan áréttuð af ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar í febr. 1976 við undirritun kjarasamninganna þá. Og síðan heldur málið áfram. Um þetta mál var samið á ný árið 1977 og var það liður í lausn kjarasamninga. Þá var verkalýðshreyfingin búin að kaupa þennan pakka þrisvar sinnum. Nú er það svo, að þegar frv. er loks komið fram er það spurningin hvað sé í þessum pakka, hvers virði hann sé, hvernig honum hafi verið komið til skila.

Það er mitt mat, að það frv. sem Magnús H. Magnússon lagði fyrir Alþ. á sinum tíma, það frv. sem við erum nú að fjalla um, hafi verið býsna gott, enda var það samið af mönnum sem mjög gjörla vissu um þessi mál og er árangur af samkomulagi er varð í nefnd. Það er nokkrir þættir þar sem verkalýðshreyfingin gjarnan vildi breyta, en ég ítreka að það var um samkomulag að ræða.

Það frv., sem Magnús H. Magnússon lagði fyrir, var þannig byggt upp að fjármögnun yrði tryggð, að við gætum hafið nýja þróun í þessum málum, við gætum stefnt að því að byggja íbúðir fyrir láglaunafólk á sama hátt og frændur okkar á Norðurlöndum hafa gert, að lánahlutfallið yrði allt að 90%. Það var hugsun frv. að kerfið sjálft fjármagnaði sig er lengra liði frá, það yrði óháð duttlungum fjárveitingavaldsins að mestu leyti. Hugsunin var sú, að við gætum búið verkafólki betri framtíð í þessum efnum, búið þjóðina betur í húsnæðismálum en nokkru sinni fyrr.

Þegar þetta frv. var lagt fyrir fóru fram allítarlegar umr. um það. Þá kom ljóslega fram að menn misskildu ýmislegt sem í því er, og annað var rangtúlkað.

Nú hefur félmn. skilað áliti og eru allmargar brtt. við frv. Samtals munu þær nema nákvæmlega 100. Sýnist mér að margar hverjar þeirra séu gerðar einungis breytinganna vegna, þjóni engum tilgangi og séu einskis virði. Ég óttast að ef þær brtt., sem stjórnarliðar hafa lagt fram, verði samþykktar verði það kerfi, sem stefnt var að með þessu frv., skilið eftir í uppnámi, það verði ónýtt, vegna þess að það vantar tekjustofna fyrir kerfið og málum ekki þannig fyrir komið að lánahlutfallið geti sannanlega haldist.

Mig langar til að fara yfir nokkrar þær brtt. sem stjórnarliðar hafa lagt fram. Ég mun ekki verða langorður, en það eru nokkur atriði sem ég tel brýna nauðsyn að ræða sérstaklega.

Þá vil ég byrja fyrst á 1. gr. í brtt. stjórnarliða. Þar er bætt inn kafla sem ég tel vera allsendis óþarfan, — kafla sem skarar verkefni annarra stofnana, segir ekkert nýtt og er reyndar óþarfur, málalengingar einar. Í breyt. við 2. gr. segir:

„Á vegum stofnunarinnar skal unnið að samræmingu og skipulagi opinberra afskipta af húsnæðismálum. Stofnunin skal hafa forustu um stefnumótun í húsnæðismálum. Hún fer með stjórn hins opinbera veðlánakerfis til húsnæðismála.“

Stofnunin er þarna að mínu mati sett yfir ýmsar aðrar stofnanir sem sinna sömu verkefnum og er ástæðulaust að samþykkja slíkt.

Við 3. gr. frv. er breyting gerð sem er mikils virði og ég mun samþykkja. Hún er um að Alþýðusambandið fái aðild að stjórn Húsnæðismálastofnunar. Það hefur gengið erfiðlega að vera við kröfum Alþýðusambandsins um hlutdeild í stjórn á þessari stofnun, en Alþýðusambandið eða verkalýðssamtökin hafa lagt mjög ríka áherslu á að þessari kröfu yrði fullnægt, enda er það ekki að furða því að verkalýðssamtökin koma til með að þurfa að fjármagna mikið af þessu kerfi. Það er réttara sagt svo, að í þeim samningagerðum, sem liðnar eru, hefur hvað eftir annað verið um það samið að slá af kaupkröfum til að tryggja að þeir fjármunir, sem fengjust á annað borð, færu í húsnæðislánakerfið. Það má minna á að 1974 var um það samið að launaskattur yrði hækkaður úr 1% í 2% og að hann gengi til húsnæðislánakerfisins. Síðan má minna á að kerfið sækir alltaf meir og meir til lífeyrissjóðanna sem vissulega eru eign verkafólks og því ekki undarlegt að launþegasamtökin geri kröfur til að hafa nokkur áhrif á stjórn húsnæðismálanna.

Mér er reyndar sagt að þegar félmrh. var að berjast fyrir því að fá þetta ákvæði inn hafi hann þurft að versla við framsóknarmenn um annað atriði, þ. e. um stjórn verkamannabústaða, um að í kaupstöðum með yfir 10 000 íbúa skipi félmrh. til viðbótar einn mann í stjórn verkamannabústaða án tilnefningar og skuli hann vera formaður stjórnarinnar. Þetta þýðir að í tveimur sveitarfélögum, Reykjavíkurborg og Akureyri, verða áhrif verkalýðshreyfingarinnar minnkuð nokkuð með fjölgun í stjórninni. Mér er kunnugt um að Magnús H. Magnússon félmrh. gerði ítrekaðar tilraunir í síðustu ríkisstj. til að leysa þetta vandamál með stjórnunina, fá samstarfsmenn sína til að samþykkja það. Þar stóð ekkert á núv. félmrh. og hans flokki, heldur stóð þar aðallega á fylgi framsóknarmanna, en sem betur fer hefur raunin orðið sú að tekist hefur að beygja þá. Það mætti ske oftar.

Það er ekki vafi á því að aðalgreinin um Byggingarsjóð er 8. gr. Hún fjallar um fjármögnunina. Þar segir í 2. tölul., með leyfi forseta:

„Með árlegum framlögum úr ríkissjóði af launaskatti, byggingarsjóðsgjöldum, af tekju- og eignarskatti og af aðflutningsgjöldum.“

Með þessum hætti skuli aflað fjár til Byggingarsjóðs. Þessi árlegu framlög af launaskatti hafa til þessa numið 2%, og þó er það svo, að á fjárlögum nú var þessi hluti launaskatts til Byggingarsjóðs skertur um upphæð sem nam 3.7 milljörðum. Byggingarsjóður býr því nú við mun rýrari fjárhag en nokkru sinni fyrr.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. er varðar þennan eina lið, og er tilefnið ekki aðeins að þetta er óljóst í grein frv., heldur að nú hefur félmrh. gefið út yfirlýsingu um að 1% af launaskatti fari til Byggingarsjóðs verkamanna, sem vissulega er jákvætt og mikils virði. En það er allsendis óljóst hvort ætlunin er að skerða þessi 2%, þ. e. skipta þeim. Reyndar trúi ég því ekki að ætlunin sé að gera svo.

Ég vildi því taka af öll tvímæli um, að svo verði gert, með því að flytja þá brtt. sem er hér á þskj. 510. Brtt. er þannig:

„Við 8. gr. 2. tölul. orðist svo:

Með árlegum framlögum úr ríkissjóði sem nemi tekjum hans af 2% launaskatti, byggingarsjóðsgjöldum, af tekju- og eignarskatti og af aðflutningsgjöldum.“

Ég á von á að þetta verði samþykkt, ég trúi ekki öðru, því að það verður til þess að bæta hag Byggingarsjóðs allverulega.

Það mætti bera víðar niður í frv., en mér finnst hryggilegt í umr. um þetta mál að menn virðast alveg misskilja hvað við er átt með því að stytta lánstímann nokkuð og hækka vextina aðeins, þ. e. frá 26 árum niður í 21 ár og nokkru hærri vexti. Það er gerð grein fyrir því í aths. með frv., hvernig þetta verkar, og vil ég benda mönnum á að lesa hvað þar er sagt um málið.

Þegar gerð er tillaga um að stytta lánstímann og hækka vextina þýðir það að fjárstreymið verður meira og líkindi verða meiri til þess að lántakendur fái þá fyrirgreiðslu sem þeim er lofað í þessu frv. Reyndar er alveg ljóst, að ef farið verður að tillögum stjórnarliða um að lengja lánin og lækka vextina verður sjóðnum gert ófært að standa við skuldbindingar sínar. Það dæmi mun líta þannig út, að ef um 21 árs lánstíma og 3.5% vexti er að ræða, þá bendir það eindregið til að greiðslubyrði sé ekki óhæfilega mikil, segir í aths. Nefna má að þegar greiðslubyrðin er mest, þ. e. 2.4 mánaðarlaun í þessu tilviki, svarar hún til um 67 þús. kr. meðalhúsaleigu á árinu 1978, miðað við þau laun sem greiðslurnar eru bornar saman við, og svarar því að um fimmtungur mánaðarlauna eftir skatt, þ. e, um ein vikulaun, gangi til greiðslu afborgana, vaxta og verðtryggingar. Við 26 ára lánstíma verður sambærileg tala 58 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Það munar sem sagt einum vikulaunum efir skatt hvað greitt er hærra í atborganir og vexti af 21 árs láni en 26 ára láni.

Ég er alveg sannfærður um að ef fólk mætti velja um, hvort það fengi í staðinn 60% lánshlutfall eða 80% lánshlutfall, mundi fólk velja styttri lánstímann og hærri vextina, því það er lánshlutfallið sem skiptir mestu máli fyrir fólk sem er að byggja, en ekki endilega hvort lánstíminn er fimm árum skemmri eða lengri. Ef lánshlutfallið er miklu lægra en gert er ráð fyrir, fyrirsjáanlega verður ekki náð, lenda húsbyggjendur óhjákvæmilega í erfiðleikum, þurfa að slá sér skammtímavíxla með þeim okurkjörum sem þeir eru á. Í raun verður vafalaust dýrara að fara þá leið sem stjórnarliðar nú gera ráð fyrir. Ég vona að menn dragi þessa till., til baka, því það er hreinasti misskilningur að fara þessa leið.

Ég vil benda á brtt. við 10. gr. þar stendur svo hljóðandi:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að ákveða nýja lánaflokka að fengu samþykki félmrh.“

Ég verð að segja að mér þykir óþarflega mikið vald tekið af Alþ. með þessari grein og allsendis óeðlilegt að gera slíkt. Ég tel að eigi að ákveða nýja lánaflokka megi það gjarnan koma til skoðunar á Alþ. Það er alveg eins hægt að fela húsnæðismálastjórn að fara með þetta allt saman án nokkurs eftirlits Alþ. ef svo á að vera að hún eigi sjálf að ákveða hvaða lánaflokka hún tekur upp og hverja ekki. Reyndar sýnist mér að allnóg sé fyrir.

Í brtt. 11 frá stjórnarliðum segir:

„Heimilt er húsnæðismálastjórn að hafna eða skerða lánveitingu til þeirra umsækjenda sem áður hafa fengið fullt lán úr Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna og eiga íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar.“

Þetta þýðir að ef maður á íbúð, sem hann hugsanlega ætlar sér að selja, er hægt að skerða eða hafna lánveitingu, en sami maður gæti átt þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði eða jafnvel skuttogara og hann fengi lán. Ég tel óþarft að vera með svona ákvæði. Vissulega er ástæðulaust að leyfa mönnum að safna íbúðum. Mér er sagt að hliðstætt ákvæði við þetta hafi verið í lögum um húsnæðismálastjórn til ársins 1973, en þá var það fellt niður. Mætti gjarnan gera það aftur.

Það er einkennandi við þetta frv., þ. e. brtt., hvað gert er vel við sveitarfélögin. Þeim er alls staðar troðið inn í allar greinar. Og samkv. 14. gr., samkv. tillögum stjórnarliða, er sveitarfélögum gert kleift að fá lán til kaupa á íbúðum sem áður hafa verið í notkun. Hugsanlegt er, ef þessi till. verður samþ., að sveitarfélögin verði þarna samkeppnisaðili við einstaklinga um kaup á íbúðum. Slík samkeppni hlýtur að leiða til hækkunar á íbúðaverði. Ef sveitarfélögin vilja kaupa íbúðir til að leigja út geta þau gert það eftir félagslega kerfinu. Því er þetta ákvæði óþarft og reyndar stórskaðlegt, því að auðvitað er verið að taka fjármuni frá hinum, sem ekki njóta þess lánshlutfalls sem talað er um að ná hér.

Þá segir í brtt. stjórnarliða við 19. gr. svo hljóðandi: „Lán samkv. 4. tölul. 11. gr. er heimilt að veita einstaklingum eða sveitarfélögum til meiri háttar endurnýjunar og endurbóta eða viðbygginga við eldra húsnæði, en ekki til almenns viðhalds.“

Þetta er aflar víðfeðmt, ef svo mætti segja. Hér er verið að opna flóðgátt. Til þessa hefur tíðkast að sveitarfélögin gerðu ráð fyrir slíkum verkefnum á fjárhagsáætlun sinni. Ef þessi brtt. verður samþ. er fyrirsjáanlegt að sveitarfélög munu sækja eftir gífurlegu fjármagni, sem auðvitað verður til að þrengja kost annarra, eins og ég hefur áður getið um.

Þá er a-liður brtt. við 20. gr. svo hljóðandi: „Heimilt er húsnæðismálastjórn að greiða fyrri hluta láns til slíkra framkvæmda meðan á framkvæmdum stendur í formi víxilláns, en síðari hluta lánsins má ekki greiða fyrr en framkvæmdum er lokið og þær hafa verið teknar út af trúnaðarmanni tæknideildar stofnunarinnar.“

Ég tel mjög óeðlilegt að blanda Byggingarsjóði í bráðabirgðafyrirgreiðslu. Af grundvallarástæðum er ég á móti þessari till. Það er skoðun mín að Húsnæðismálastofnun eigi að starfrækja veðlánakerfið. Hins vegar eiga bankar og sparisjóðir að sjá um bráðabirgðafyrirgreiðslu hverju sinni. Hætt er við að ef Húsnæðismálastofnun fær þetta verkefni sé hætta á mismunun. Þeir, sem þekkja kerfið geta með þrýstingi — helst pólitískum þrýstingi — náð þeirri fyrirgreiðslu sem unnt er að fá. Hins vegar er líklegt að almenningur, sem þekkir ekki völundarhús kerfisins, verði að sitja hjá án fyrirgreiðslu.

Svo er gerð till. um nýja grein í brtt. stjórnarliða. Greinin, sem á að verða 25. gr., er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita sveitarfélögum lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þess að endurbyggja heilsuspillandi íbúðir sem hagkvæmt er talið að endurnýja, að mati byggingar fróðra manna sem tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins og viðkomandi sveitarstjórn tilnefnir.

Skulu matsmenn gera úttekt á húsnæðinu og gera kostnaðaráætlun um nauðsynlegar endurbætur.

Lán þessi mega nema allt að 80% af viðgerðarkostnaði. Þó mega lán til endurbóta á heilsuspillandi íbúð aldrei nema hærri fjárhæð en 70% af fullu láni til nýrrar íbúðar á því ári samkv. sama staðli.“

Þessa till. tel ég og mjög varhugaverða. Till. gerir í raun ráð fyrir að allar hirslur Húsnæðismálastofnunar séu fullar af fjármunum. Till. opnar hrikalegar flóðgáttir sem erfitt verður að fylla upp í, enda er ljóst, eins og ég kom inn á áður, að tekjustofnar Húsnæðismálastofnunar eru gersamlega ófullnægjandi og því er vart hægt að sinna þessum verkefnum. Samkv. þessu væri ekki ólíklegt að hér í Reykjavík yrði sótt um lán til að endurbyggja á Bernhöftstorfunni eða eitthvað í þeim dúr. Þeir ættu samkv. þessu vafalaust að hafa rétt til þess. Það eru ýmis önnur tilvik sem mætti nefna og gera það að verkum að æ meir verður sótt í sjóðinn. Það verður sótt af miklu meiri þunga í hann en nokkru sinni áður, en vissulega verður til að lækka lánshlutfallið enn frekar.

Það er ástæða til að fara yfir mörg önnur atriði í þessum brtt., en ég held ég geri ekki miklu meira að því. Ég tel mig hafa sýnt fram á að kerfið hafi verið opnað óeðlilega mikið. Ef við ætlum að ná árangri í því að greiða úr fyrir fólki, ef við ætlum að gera eitthvert átak í húsnæðismálum, verðum við að afmarka verkefnið á þann veg að við ráðum við það. Frv. Magnúsar H. Magnússonar gerir ráð fyrir að kerfið geti á stuttum tíma leyst vanda húsbyggjenda, gert sjóðnum kleift að standa undir sér sjálfum án þess að eiga á hættu að sífellt verði af honum dregið. Ég hygg að ef þær brtt., sem stjórnarliðar hafa hér komið með, verða samþykktar verði ástandið í húsnæðismálum lítið betra en áður, — gæti orðið verra vegna þess að mönnum eru gefnar nýjar vonir og vonir sem mjög erfitt verður að uppfylla.

Ég minntist á það áðan, að ég tryði því ekki að skipta ætti launaskattinum, þessum tveimur prósentum, milli Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins, það hlyti að vera ætlunin að þriðja prósentið kæmi til viðbótar. Ef svo verður ekki verður Byggingarsjóður ríkisins skilinn eftir mjög illa staddur, miklu verr staddur en nokkru sinni fyrr.

Það er og athyglisvert ef maður fer aftur í greinarnar, — ég veit ekki hvað liggur til grundvallar því, — að í till. stjórnarliða er ætlað að lækka framlag sveitarfélaganna til Byggingarsjóðs verkamanna úr 20% í 10%. Sérstaklega finnst mér það undarlegt með tilliti til þess, að í umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga er þess getið sérstaklega að sambandið hafi ekkert við það að athuga þó að þessi 20% komi frá sveitarfélögunum.

Vafalaust gerir félmrh, á eftir grein fyrir því, hvernig hann ætlar að leggja til að Byggingarsjóður verði fjármagnaður, ef það reynist rétt að skipta eigi þessum tveimur prósentum. En það hefur komið hér fram í máli manna, og er reyndar fyrirsjáanlegt, að skortur á fjármagni er svo hrikalegur að líklegt er að við sitjum eftir með samþykkt frv. sem gerir sáralítið eða ekkert gagn.

Hræddur er ég um að verkalýðssamtökin muni meta ný lög um húsnæðismál afar lítils ef þau í reynd lofa öllum öllu, en ekkert séð fyrir um framkvæmd laganna. Þá er greinilegt að verið er að selja verkalýðssamtökunum tóman pakka, — pakka sem oft er búið að semja um, sem þau eru oft búin að kaupa, en fá nú að sjá hvað er innan í.

Ég harma að brtt. stjórnarliða gera tilraun til að eyðileggja það frv. sem fyrir þinginu lá og liggur, brjóta það niður, opna allar flóðgáttir þannig að ekki verði hægt að sinna þeim þörfum sem því er þó ætlað að sinna.