14.05.1980
Efri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vil endurtaka það, að verði frv. samþ. með þeim brtt., sem stjórnarliður hafa lagt fram, er verið að eyðileggja frv. Þá er verið að gera að engu þá miklu vinnu, sem unnin hefur verið með það að markmiði að gera stórátak í húsnæðismálum, og það sem verra er: Það er verið að blekkja verkalýðshreyfinguna. Það er verið að segja fólki að það fái svo og svo mikinn rétt, lofa fólki, en jafnframt er fyrir séð að ekki verður við það staðið. Það var ekki þetta sem verkalýðshreyfingunni var heitið. Því er það sem félmrh. sagði áðan, að það væri verið að efna fyrirheit, ekki rétt að mínu mati vegna þess að verkalýðshreyfingin reiknaði með því, er hún gerði samninga um stórátak í húsnæðismálum, að það yrði gert í raun og veru, að við framkvæmdina yrði staðið.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. ræddi nokkuð um vaxtakjörin í seinni ræðu sinni. Í tilefni af því vil ég endurtaka að það er skoðun mín að sú leið, sem farin er hér varðandi lánalengd og vaxtakjör, verði húsbyggjendum óhagstæðari þegar upp verður staðið en þær tillögur sem voru í frv. Það er afskaplega fallegt að horfa á það að lánstími eigi að vera 26 ár í staðinn fyrir 21 ár og að vextir eigi að lækka úr 3.5% í 2%. En það segir ekki alla söguna þó að tölurnar og tíminn líti fallega út.

Það má setja þetta upp í mjög einfalt dæmi. Ef við höfum lánstímann 21 ár og vexti 3.5% náum við því marki að hafa lánshlutfallið 80%. Það er fyrir séð. Ef við höfum lánstímann 21 ár og vextina 2% náum við ekki þessu lánshlutfalli. Þá er fyrirsjáanlegt að lánshlutfallið fer aldrei hærra en upp að 60%. Sennilega verður það lægra. Ef verkamenn mættu velja um hvort þeir annars vegar hefðu 80% lánshlutfall og lánstíma 21 ár og vextina 3.5% og þar með að greiða sem svarar einum vikulaunum utan skatts meira í afborgun á ári eða þá að hafa lánstímann 21 ár og vextina 2% og lánshlutfallið 60% er ég alveg sannfærður um að verkamenn mundu velja hærri vextina og lengri lánstíma, vegna þess að ef lánshlutfallið næst ekki — það lánshlutfall sem talað er um — kostar það húsbyggjandann aukna fjármuni vegna víxla og bráðabirgðafyrirgreiðslu sem húsbyggjendur þurfa að afla sér. Byggingartíminn verður þá lengri, fyrirhöfnin meiri og kostnaðurinn meiri. Þess vegna tel ég að það sé röng stefna sem tekin er upp í brtt. stjórnarliða, að plata fólk með því, að nú eigi það að hafa lægri vexti og lengri lánstíma, og gefa í skyn, að það nái því lánshlutfalli sem talað er um í frv. Það er ekki raunveruleiki. Við náum því ekki. Það segir sagan okkur. Það eru ekki stjórnarandstæðingar sem eru að finna það upp. Sagan segir okkur að lánshlutfallið hefur ekki orðið það sem það þyrfti að vera vegna þess að kerfið hefur ekki fjármagnað sig sjálft.

Það er því miður svo, að brtt. stjórnarliða gera ráð fyrir að í framtíðinni þurfi húsnæðislánakerfið að standa á brauðfótum líkt og það hefur gert á undanförnum áratugum. Það er ekki slíkt sem verkalýðshreyfingin var að biðja um. Það er ekki slíkt sem launafólk var að biðja um. Það var að biðja um meira öryggi og betri skipan húsnæðismála.

Hv. þm. Guðmundur Bjarnason talaði og um framlag sveitarfélaga. Ég gagnrýndi að það var lækkað úr 20% í frv. niður í 10% án þess að sveitarfélögin hefðu beðið um það. Sveitarfélögin sáu sérstaka ástæðu til að geta þess í umsögn sinni að þau mundu una við þessi 20%. Hins vegar er á öðrum stað í frv. kveðið á um að vanti fjármagn til bygginganna eigi sveitarfélögin að greiða það. Það er ekki vitað hversu mikið það verður. Þessi leið er einmitt eitt af því sem ég tel að verði til að skemma frv. það er fyrirsjáanlegt að ef þetta verður gert skapast deilur á milli sveitarstjórnanna og stjórna verkamannabústaðanna, sem auðvitað enda með því að minna verður byggt, minni fyrirgreiðsla verður veitt og eftir standa húsbyggjendur verr settir en ella.

Félmrh. gaf út yfirlýsingu 30. apríl s. l. Samkv. þessari yfirlýsingu mun ríkisstj. beita sér fyrir því að unnt verði að hefja byggingar á 400 íbúðum í verkamannabústöðum á árinu 1981 og síðan 500 íbúðum á árinu 1982 og 600 íbúðum á árinu 1983. M, a. verða framkvæmdir þessar fjármagnaðar þannig, að tekjur ríkissjóðs af 1% launaskatti renni frá næstu áramótum óskertar til Byggingarsjóðs verkamanna. Í tilefni af þessu langar mig til að spyrja félmrh. Ef við hugsum okkur að þessar 400 íbúðir verkamannabústaða yrðu byggðar á þessu ári er eðlilegt að spurt sé hvernig framkvæmdirnar verði fjármagnaðar. Áætlað verð á íbúð er 30 millj. kr., samtals framkvæmdir upp á 12 milljarða. 1% launaskattur gefur rúma 4.9 milljarða. Samkv. frv. um húsnæðislán eiga kaupendur að leggja fram 10% eða 1.2 milljarða. Samtals er þetta fjármagn 7.3 milljarðar. Þá vantar 4.7 milljarða aðeins á þessu ári. Það er e. t. v. hægt að svara því, að ekki verði íbúðirnar allar byggðar á þessu ári. En það er meiningin að byggja 100 fleiri íbúðir á næsta ári, ekki minnkar vandinn þá, og enn 100 fleiri íbúðir á þar næsta ári. Ekki verður þessu svarað með því að framkvæmdin dreifist á lengri tíma. Hugsanlegt er að afla þessa fjár með lántökum, en þá komum við svo aftur að því, að lán til Byggingarsjóðs verkamanna fást ekki nema með mjög óhagstæðum kjörum, sem enn verður til að rýra greiðslugetu kerfisins.

Það hnígur sem sagt allt að sama brunni. Það er verið að eyðileggja þetta frv. Það er verið að eyðileggja þá hugsun sem launþegasamtökin áttu von á að kæmist í samþykkt um húsnæðismál. Því segi ég: Það er ekki þetta sem var verið að biðja um. Það var beðið um átak í húsnæðismálum, ekki sama ástand. Það var verið að biðja um breytta tíma, meira öryggi, betra þjóðfélag.