14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2669 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á góðvild forseta og reyna að stytta mál mitt, en ég sá mig knúinn til að segja nokkur orð í tilefni af þeim svörum sem hæstv. viðskrh. gaf hér áðan. Ég hefði að vísu talið æskilegra að hann væri hér í salnum.

Ég efast ekkert um að sú gjaldskrárnefnd, sem hæstv. viðskrh. vitnaði til og hann las bréf hennar hér áðan, vinni störf sín af samviskusemi, en það hvarflar þó að manni, þegar maður hlýðir á það svar sem hún gaf og hann las upp, að þetta sé misvitur nefnd. Það kom m. a. fram hjá hæstv. ráðh., að nær allar og ég vil segja allar hitaveitur landsins hafa fengið sínar hækkanir samþykktar, jafnvel þótt gögn væru ófullkomin, eins og fram kom hjá ráðh. En Hitaveita Reykjavíkur fær 1/6 af sinni beiðni, og það er m. a. vegna þess að gögn hennar voru vefengd. En það kom fram hjá hæstv. ráðh., að gjaldskrárnefndin kallaði ekki forráðamenn Hitaveitunnar á sinn fund til að fá nánari skýringar. Hún kallaði ekki hitaveitustjóra á sinn fund, ekki formann stjórnar veitustofnana, borgarstjóra né aðra þá sem með málefni Hitaveitunnar hafa að gera. Hún lét sér nægja þau gögn sem hún fékk og hún vefengdi, en hækkaði hjá öðrum hitaveitum, jafnvel þótt gögn þeirra væru ófullkomin, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. Og bréf gjaldskrárnefndarinnar bar vissulega vott um það, að þessari ágætu nefnd hefði ekki veitt af að fá forráðamenn fyrirtækisins á sinn fund til þess að skýra sitt mál, svo miklar villur og svo mikill misskilningur sem fram kom í því bréfi gjaldskrárnefndar sem hæstv. ráðh. las upp áðan.

Hæstv. ráðh. gat þess t. d., að nefndin hefði talið að spár um vatnssölu á þessu ári væru vanmetnar miðað við vatnssölu s. I. ár og tekjur Hitaveitunnar af þeim sökum mundu verða meiri á þessu ári. Síðan bætti gjaldskrárnefndin við: Og skýtur það skökku við hugmyndir fyrirtækisins um aukna vatnsþörf. — Menn vita að sjálfsögðu að vatnssala sveiflast frá ári til árs, fer fyrst og fremst eftir veðráttu. Áætlun um aukningu vatnssölunnar miðast að sjálfsögðu við reynslutölur undanfarinna ára, en tölur um vatnsþörf eru að sjálfsögðu allt annað en tölur um vatnssölu, því að tölur um vatnsþörf byggjast á því að geta haft nægilegt vatn við verstu skilyrði. Er vatnsþörf að því leyti sambærileg við aflþörf raforkufyrirtækis sem miðar sitt raforkukerfi við það að geta selt rafmagn ótruflað jafnvel á hæstu toppum. En ég vildi sjá upplitið á gjaldskrárnefnd þegar kólnar hér í veðri ef þá væri hægt að draga úr vatnssölunni sem því næmi til notendanna og segja sem svo: Það var svo gott veður í fyrra að við reiknuðum ekki með að það þyrfti að selja svona mikið vatn í ár, og þess vegna verðið þið að sitja við það að búa í kulda í þessu veðri. — Hér er ruglað saman hugtökum á svo ótrúlegan hátt, að það ber ekki vott um neinn vilja gjaldskrárnefndar til að setja sig niður í málefni fyrirtækisins. Þetta ber ekki heldur vott um að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. ráðh. hafi haft neinn áhuga á því að setja sig inn í það, hvað raunverulega er á bak við þær tölur sem nefndar eru. Tölur um hagnað á einstaka ári eða tölur um afkomu eða afskriftir segja auðvitað sáralítið um aðstöðu fyrirtækisins. Það verður að skoða hvað er á bak við þessar tölur, hvert þessi hagnaður hefur farið, í hvað hefur hann verið notaður, hvert er þjóðhagslegt gildi þeirra framkvæmda sem á að leggja í og hvað á að framkvæma. Við skulum huga örlítið að því. Það er að halda áfram djúpborunum til þess að auka heitt vatn. Það er að leggja leiðslur í ný hverfi þannig að hægt sé að sjá nýjum hverfum fyrir heitu vatni, ekki bara hér í Reykjavík, heldur á öllu höfuðborgarsvæðinu, jafnóðum og þessi hverfi byggjast upp. Og það ber ekki vott um mikill skilning hæstv. ríkisstj. eða mikinn vilja hennar raunverulega til þess að standa við þau fyrirheit, sem hún hefur gefið í orkumálum, að sauma þannig að þó þeim fáu orkuöflunarfyrirtækjum í landinu, sem standa á sæmilega styrkum fótum, að hætta sé á því að þau geti ekki sinnt sínu hlutverki.

Hitaveitustjóri hefur fært fyrir því rök og stjórn veitustofnana einnig, að það sé hætta á því að ekki verði hægt vegna þessa að leggja hitaveitu í öll ný hverfi sem tekin verða í notkun á þessu ári. Það er þegar búið að fresta borunum sem taldar voru nauðsynlegar og þar fram eftir götum. Sannleikurinn er sá, að þó að það sé auðvitað aldrei vinsælt að óska eftir hækkunum eða samþykkja hækkanir, þá verða menn að líta á í hvaða skyni farið er fram á þær. Og ég held að miðað við bæði sögu Hitaveitu Reykjavíkur og miðað við hina þungu greiðslubyrði af erlendum lánum vegna fyrri framkvæmda hafi ríkisstj. borið skylda til að kynna sér þetta mál betur en raun ber vitni af þeirri ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti hér áðan og að miklu leyti var byggð á svörum gjaldskrárnefndarinnar og — eins og ég sagði áðan — ber vitni um ótrúlega lítinn vilja til þess að setja sig raunverulega inn í þau vandamál sem þarna er við að glíma.

Ég skal ekki, þó að ég hefði gjarnan haft áhuga á því, ræða þetta mál frekar. Mætti þó m. a. benda á hvað gjaldskráin gæti verið lægri nú ef till. Hitaveitunnar fyrr á árum hefði verið fylgt um gjaldskrá. En ég spara mér það vegna þess hvernig á stendur hér í deildinni og læt því máli mínu lokið.