14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

103. mál, barnalög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir þá gagnrýni, sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum raunar, hversu fáránlega seint er mælt fyrir þessu máli hér á hinu háa Alþingi. En jafnframt vil ég segja það, að í allshn. Nd. hefur verið boðað til fundar á föstudagsmorgun. Þetta frv. hefur nú legið fyrir mörgum þingum. Það var lagt fram nú á miðjum þessum vetri, og ef því verður með nokkru móti við komið og ef þinghald lengist af einhverjum ástæðum, eins og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir taldi að verða mundi, þá þykir mér líklegt að a. m. k. þurfi ekki að standa á því að þetta mál verði afgreitt út úr þessari nefnd.

Það er rétt, sem fram hefur komið í gagnrýnum röddum hér, að það er orðið mjög brýnt að afgreiða þetta mál. Við búum við fáránlega gamla löggjöf í þessum efnum. Við vitum að það eru nánast harmsögur sem gerast af þessum ástæðum, og þá á ég einkum við atriði er varða umgengnisrétt foreldra, sem ekki eru í sambúð, við börn sín. M. a. af þessum ástæðum er mjög brýnt, að þetta frv. verði afgreitt sem allra fyrst. Ef mál fara svo sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði, þá gæti vel verið að möguleiki væri til að afgreiða þetta mál nú fyrir þinglok, en það heyrist mér vera vilji hv. þm.

Ég vil svo aðeins með örfáum orðum mótmæla gáleysislegum orðum sem féllu hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur um afar viðkvæm efni, þ. e. um óskilgetin börn og háar tölur sem hér á Íslandi birtast um þessi efni. Við þekkjum það, að víða í erlendum blöðum er þetta stundum haft að gamanmálum, þessar háu tölur, og á að bera vott skringilegum sambýlisháttum íslenskrar þjóðar. En staðreynd er að þetta er alrangt, þessar tölur eru mjög villandi. Ástæður fyrir þessu eru þær, að ungt fólk í sambúð eignast börn og í afar mörgum tilfellum verður þar um reglubundna sambúð að ræða. En þessar tölur eru þannig til komnar, að þær eru reiknaðar frá fæðingardegi barns, og ég vil frábiðja mér að mál sem þessi séu hér gerð að gamanmálum. Í kringum þetta eru oft afar viðkvæm efni. Hitt tel ég skylt að fram komi, að þessar tölur, þessar háu íslenskar tölur um þessi efni eru mjög villandi og gersamlega út í hött. Það breytir ekki því, hversu áríðandi þetta frv. er af öðrum ástæðum, og þá nefni ég enn og endurtek umgengnisrétt foreldra, sem ekki eru í sambúð, við börn sín. Það er afar brýnt, að þetta frv. verði afgreitt og helst nú fyrir þinglok.