14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

154. mál, Bjargráðasjóður

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur einnig fjallað, eins og ég sagði áðan, um 154. mál, sem er frv. til l. um breyt. á lögum um Bjargráðasjóð. Upphaf þess máls eru brbl. sem voru sett sama dag, 9. nóv. 1979.

Á fund n. komu þeir Hallgrímur Dalberg, formaður stjórnar Bjargráðasjóðs, og Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, og skýrðu okkur frá starfsemi þessa sjóðs. Það kom fram í þeirra máli, að mjög mikið hefði verið leitað til sjóðsins um þessar mundir vegna harðindanna á s. 1. ári, en brbl. á sínum tíma fjölluðu eingöngu um að fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins skuli fólgin í veitingu styrkja og/eða lána eftir reglum sem sjóðsstjórn setur. Stjórn sjóðsins ákveður kjör á lánum, þar með talið lánstíma, vexti og hvort lán skuli bundin verðtryggingu.

Það hafði verið um nokkurn tíma í undirbúningi ein breyting enn á lögum um Bjargráðasjóð og var frv. um það tilbúið á s. 1. ári, en fjmrh. flutti það mál, að vísu nokkuð breytt, sem brtt. fyrir hönd ríkisstj. á þskj. 441. Þar eru ákvæði um tekjur Bjargráðasjóðs sem eru ferns konar: í fyrsta lagi framlög sveitarfélaga, 300 kr. á íbúa, í öðru lagi 0.6% af söluvörum landbúnaðarins, sbr. 2. gr. laga nr. 38 frá 15. febr. 1945, um stofnun Búnaðarmálasjóðs, í þriðja lagi framlag ríkissjóðs samkv. ákvörðun á fjárlögum ár hvert og í fjórða lagi vextir af fé sjóðsins. Gert er ráð fyrir því í þessari brtt., að þessi grein öðlist gildi frá og með 1. jan. 1981, enda hefur framlag til sjóðsins þegar verið ákveðið á fjárlögum og staðfestingar á því leitað í frv. til lánsfjárlaga. Einnig má geta þess, að sveitarfélög hafa að sjálfsögðu gengið frá sínum fjárhagsáætlunum fyrir árið 1980.

Ég vil aðeins að lokum taka það fram, að fjh.- og viðskn. leggur til einróma, að þessi brbl. verði staðfest með þeirri breytingu sem hæstv fjmrh. hefur lagt til.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv. þm. Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen.