14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

154. mál, Bjargráðasjóður

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir miður að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér staddur, en ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum mínum með hans till., þ. e. um framlag ríkissjóðs samkv. þessari till. hans.

Í núgildandi lögum er það þannig, að ríkissjóður hefur lagt fram — eða á að gera það samkv. lögunum — jafnmikið og komið hefur frá öðrum aðilum, þ. e. framlög sveitarfélaga og framlög bændanna. Eins og allir hv. þm. vita er þetta slysa- og neyðarsjóður, og ég vil minna á það, að ég held að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafi rætt um það fyrir ári, þegar sýnt var hvernig árferðið mundi leika heila landshluta, að þeir mundu gera sitt til þess að hlaupa þarna undir bagga. Því miður hefur orðið mikil töf á að þetta yrði gert, af ýmsum ástæðum sem allir hv. þm. þekkja. Það var stjórnmálaástandið síðari hluta síðasta árs og raunar langt fram á vetur nú. En þarna er verið að breyta frá gildandi lögum og ástandið í þessum málum er þannig, að það veitir satt að segja ekki af því að þetta framlag haldist eins og núgildandi lög mæla fyrir um.

Annað atriði er í þessum lögum sem ég vil líka lýsa óánægju minni yfir og tel í raun og veru að sé út í hött að hafa í þessum lögum, og það er að stjórnin geti lánað fé með verðtryggingu úr þessum sjóði. Þetta er, eins og ég sagði áðan, slysa- og neyðarsjóður. Það er verið að hækka í raun og veru iðgjöld bændanna í þennan tryggingarsjóð. Þetta er veruleg upphæð. Þetta eru 0.6% af allri þeirra framleiðslu. Ég skal ekki segja hve mikið þetta er á annað prósent af þeirra raunverulegu tekjum. Af því að þetta er svona sjóður, þá er auðvitað út í hött að ætla sér að lána með þeim verstu lánskjörum sem þekkjast í þessu þjóðfélagi, þ. e. með verðtryggingu. Ég vona að vísu að stjórnin muni aldrei nota þessa heimild, en ég vil benda á það, að fjh.- og viðskn. hefur ekki gert till. um breytingar á þessu, og harma ég það, en ég vil ekki fara að koma hér með brtt., enda væri það þýðingarlítið. Ég vil þó benda á þessi tvö atriði. Ég man ekki betur en þegar Viðlagatrygging var lögfest hafi átt að taka mál Bjargráðasjóðs og þau verkefni, sem hann á að sinna, til athugunar, og ég vonast til að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. félmrh. muni beita sér fyrir því að láta endurskoða lögin á næsta þingi þannig að það verði hægt að verða við því sem stendur í okkar stjórnarsáttmála, að fundnar verði leiðir til þess að þessi sjóður hafi þær tekjur að hann geti valdið því hlutverki sem honum er ætlað.