14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

93. mál, skráning og mat fasteigna

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til umfjöllunar frv. til l. um skráningu og mat fasteigna, en á þinginu 1976 var samþ. hér mjög viðamikil löggjöf um fasteignamat sem var í mjög mörgum greinum og mikil vinna var lögð í hér í n. að gera ýmsar breytingar á. Voru fluttar mjög margar brtt. við það frv. áður en það varð að lögum. Það var hins vegar ljóst, að það þyrfti að koma ákveðin reynsla á þessi mál, og það hefur ýmislegt komið í ljós í sambandi við þá löggjöf eins og marga aðra löggjöf sem betur má fara.

Sú breyting, sem hér um ræðir, er fyrst og fremst þess eðlis, að það er gert ráð fyrir því að rýmka heimildir til að fela einstökum sveitarfélögum eða samstarfsstofnunum þeirra að annast tiltekin störf til undirbúnings mati fasteigna. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að Fasteignamat ríkisins hafi eftir sem áður samræmt heildarmat í þessu sambandi á vegum eins opinbers aðila. Hér er fyrst og fremst um að ræða mjög ákveðnar óskir frá Reykjavíkurborg. Hún vill hafa þessi mál meira í sínum höndum og sjálfsagt m. a. vegna þess, að menn sjá ýmis dæmi um að þess er ekki nægilega gætt að leiðrétta þetta fasteignamat. Það er afskaplega mikilvægt að matið sé sanngjarnt og eins rétt og nokkur kostur er, því að það er mjög margvísleg skattlagning í þjóðfélaginu sem byggist á þessu mati. Bæði er það varðandi ríkissjóð, þ. e. eignarskattur, og eins fasteignagjöld til sveitarfélaganna, þannig að sveitarfélögin sjálf eiga þarna mikilla hagsmuna að gæta og þess vegna eðlilegt að þau vilji koma nokkuð nálægt undirbúningi og framkvæmd þessara mála.

Mál þetta hefur áður fengið umfjöllun í Ed., en fjh.- og viðskn. leggur einróma til að frv. þetta verði samþykkt.