14.05.1980
Neðri deild: 76. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

18. mál, öryggi á vinnustöðum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. er félmn. þessarar hv. d. sammála um afgreiðslu þessa máls, og ég vil taka undir það, sem kom fram í ræðu hans um það, hvernig að afgreiðslu málsins var staðið. Frá mínum bæjardyrum séð var það algert skilyrði þess, að ég skrifaði undir nál., að í því væru þeir fyrirvarar sem hér hafa komið fram og verið lýst í ræðu hv. frsm. og eins hæstv. ráðh. Og ég legg á það áherslu, sem kom fram í máli hæstv. ráðh., að málið verði opnað, ef svo má segja, í hálfa gátt í sumar af stjórnvöldum og þeirri nefnd sem undirbjó lögin, svo að þeir aðilar, sem hafa sett fram ýmsar breytingarhugmyndir varðandi lagafrv., geti komið þeim á framfæri við þessa nefnd og í haust liggi fyrir úttekt sem þm. geta síðan skoðað og þá metið hvort ástæða sé til þess að efna til brtt. við þessi væntanlegu lög eða önnur lög sem þetta mál snertir.

Það mun hafa verið megintilgangur þessarar lagasmíðar að sameina ýmsar stofnanir sem sinna eftirlitsstörfum á vinnustöðum, vinna að hagræðingu, betri aðbúnaði, meira öryggi og betri hollustuháttum á vinnustöðum. Ræturnar liggja til samkomulags sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. 1977, og þetta frv. er afsprengi þeirrar samvinnu sem þá skapaðist. Það er þó rétt að taka fram, að ekki er hægt að segja að í þessu frv. birtist endilega stefna þeirrar ríkisstj. sem þá sat að völdum, því að hún lofaði því á grundvelli ákveðinna viðhorfa að láta vinna þetta lagafrv. sem nú er verið að afgreiða úr hv. d. En eins og ætíð vill verða þegar um stórkostlegar breytingar er að ræða, þá koma upp ýmis vandamál og þetta frv. er engin undantekning hvað það varðar.

Mig langar til að benda í örfáum orðum á nokkur atriði, sem sýna þá erfiðleika sem um er að ræða, og vekja þannig athygli á nokkrum gagnrýnisatriðum, sem fram komu í meðförum málsins, bæði hjá hv. félmn. Ed. og eins n. sem starfaði í þessari hv. deild.

Í fyrsta lagi eru nokkur atriði sem tengjast gildissviði annarra laga og skara önnur lög og aðrar stofnanir en Vinnueftirlit ríkisins, sem gert er ráð fyrir að stofna samkv. þessu lagafrv. Hæstv. ráðh. nefndi það, að nú liggja fyrir frumvarpsdrög um endurskoðun á lögunum frá 1969 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þessi frumvarpsdrög eru tilbúin og formaður nefndarinnar, Ingimar Sigurðsson deildarstjóri í heilbrmrn., kom á fund félmn. og sagði þar, að vissulega væri mikil skörun á milli þessara tveggja lagabálka, en tók það jafnframt fram, að þeir í hans nefnd hefðu undirbúið sína lagasmíð með þeim hætti, að þau lög væru almenns eðlis, en það frv., sem hér er til umr., væri frv. til sérlaga sem giltu umfram hin almennu lög. Engu að síður er það vitað, að fjölmargir, sérstaklega þeir sem starfa á heilbrigðissviðinu, eru óánægðir með að hollustuhættir og ýmis heilbrigðismál, er snerta vinnustaði, heyri ekki lengur undir aðila í heilbrigðiskerfinu. Þetta snertir lög og lagafrv. sem nú liggur fyrir.

Næst vil ég víkja að stofnun, sem ekki er alveg ljóst hvort hverfa á, þegar þetta lagafrv, verður samþ., eða hvort hún kemur til með að lifa af, en það er Brunamálastofnunin. Forstjóri hennar kom á nefndarfund og sagði að hann teldi að þessi lög, sem hér er verið að setja; mundu á engan hátt skerða rétt hans og völd, ef ég má nota hugtakið völd í þessu sambandi, kýs þá að setja það innan gæsalappa. Hins vegar kemur það glögglega fram í áliti hagsýslustjóra, að hann telur að Brunamálastofnunin muni að langmestu leyti og jafnvel öllu leyti leggjast af, leggjast niður. Um þetta eru deildar meiningar og auðvitað þarf niðurstaða um þetta að liggja fyrir áður en Alþ. sleppir endanlega höndum af þessari lagagerð.

Í þriðja lagi vil ég nefna dæmi í þessu sambandi um gildissvið laganna og það snertir fiskiðnaðinn. Það kemur fram í bréfi frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, að þar er um skörun að ræða, því að Framleiðslueftirlit sjávarafurða hefur eftirlit með vissum þáttum fiskiðnaðarins, en það er gert ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir til samþykktar, að þessi nýja stofnun, Vinnueftirlit ríkisins, eigi að hafa með þau mál að gera. Engin svör hafa fengist um þetta atriði og það þarf að liggja klárt fyrir í haust, hvernig á þeim málum verður haldið. Ég vil nefna sérstaklega í þessu sambandi, að það hefur starfað nefnd til skamms tíma sem fjallar um Framleiðslueftirlit fiskiðnaðarins. Á einum stað í áfangaskýrslu þeirrar nefndar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Stofnunin hefur vaxið langt umfram það sem eðlilegt er.“ Ég held að það sé full ástæða fyrir hv. Alþ. að átta sig á því, þegar efnt er til eða stofnað eða sett er á laggirnar stofnun á borð við Vinnueftirlit ríkisins, hvernig sú stofnun kemur til með að þróast. Ég nefni Framleiðslueftirlitið sem dæmi um stofnun sem nú er unnið að að endurskoða, og vissulega væri fróðlegt að frétta af þeirri endurskoðun um þessar mundir, hvort við hana hafi verið hætt við stjórnarskipti eða hvort henni verður haldið áfram. Ég býst ekki við að það gefist tækifæri hér til þess að fara frekar út í þá sálma, en ég nefni þetta atriði þar sem ég tel að ýmsar stofnanir, sem settar eru á laggirnar og líta sakleysislega út í upphafi, hafi tilhneigingu til þess að þenjast út. Og komi upp óhappatilvik, sem má kannske að einhverju leyti rekja til mannfæðar, er reynt að efla viðkomandi eftirlitsstofnanir, sem auðvitað er vonlaust ef koma á í veg fyrir skaðann, því að ábyrgðin verður auðvitað fyrst og fremst að hvíla á þeim, sem vinna við framleiðsluna, og þeim, sem hafa með vinnustaðinn að gera, og að því leyti til er rétt stefna í því lagafrv. sem hér er til umr.

Annað, sem ég vil nefna og ekki er alveg skýrt og ljóst samkv. þessum frv., er það, hvernig fer með fyrirtæki þar sem starfsmannafjöldi er misjafnt frá einum tíma til annars, eins og t. d. gerist við saltfiskverkun, þar sem stundum — við skulum segja hálft árið — eru 4–5, 6–7 menn starfandi, en á vissum hluta ársins yfir 50 starfsmenn. Þá hefur verið bent á óvenjulega mikið vald, sem Vinnueftirliti ríkisins er fengið í hendur með 82. gr., sem er nokkurs konar lögregluvald og finnst varla í íslenskum rétti nema í tollalögum og lögum sem snerta lögreglulið ríkisins.

Næst hefur verið bent á IX. kafla frv., sem fjallar um vinnutímann, og spurt hvort ástæða sé til þess að hafa slík ákvæði í lögum, hvort þau eigi ekki fremur heima í samningum, enda sýnist á frv. að þessi ákvæði séu opnuð og það sagt, að slíkt tilheyri síðan samningum vinnuveitenda annars vegar og launþega hins vegar. Þetta hefur verið gagnrýnt frá tveimur mismunandi hliðum. Annars vegar frá þeim, sem segja að slíkt eigi ekki að setja í lög vegna þess að þetta séu kjaraatriði, og hins vegar frá mönnum úr heilbrigðiskerfinu, sem segja að hvíldartími manna geti aldrei orðið samningsatriði né heldur lagaatriði, heldur hljóti það að hvíla á læknisfræðilegum athugunum.

Og að lokum varðandi óljósar hugmyndir í þessu frv. vil ég minna á að ekkert segir í frv. um það, hvort starfsmenn beri sjálfir ábyrgð á sínum gerðum, ef þeir fara ekki eftir þeim öryggisreglum sem sem er verið að setja í þessari löggjöf.

Þá vík ég örlítið að kostnaðinum. Það er alveg ljóst, að engar hugmyndir liggja fyrir um það, hve mikið þetta muni kosta í framkvæmd, og í umsögn hagsýslustjóra er ekki hægt að lesa nokkuð um það, hvað ríkisvaldið þarf að greiða til þess að halda slíkri stofnun sem þessari gangandi. Þá kemur fram í áliti hagsýslustjóra, að hann telji að markaðir tekjustofnar séu óæskilegir. Það samræmist þeirri hugmynd sem fram hefur komið margoft í hv. Alþ. og í hv. fjvn. M. a. er þessa dagana einmitt verið að brjóta niður þessa mörkuðu tekjustofna með lánsfjárlögum, án þess þó að breyta lögum til frambúðar, heldur aðeins til stutts tíma í senn.

Þá er annar þáttur, sem snertir kostnaðinn sérstaklega, og það er iðgjaldamálið. Ekki sýnist glögglega frá því gengið í frv. hvernig flokka á iðgjaldið á fyrirtæki og hvort taka eigi tillit til þess áhættumunar sem er á fyrirtækjum eftir því við hvaða störf er fengist. Þetta kemur ekki nægilega vel fram í 77. gr. frv.

Þá má benda á í sambandi við kostnaðinn að Vinnuveitendasambandið hefur sagt að ýmis tæki, sem nauðsynlegt er að eiga til þess að hægt sé að ná fram þeim atriðum sem frv. gerir ráð fyrir að náist fram, eru tæki sem á er lúxustollur. Og þeir benda á að ef ríkisvaldið vill ýta undir að fyrirtæki eignist slík öryggistæki og hollustutæki, ef ég má nota það orðalag, þurfi ríkisvaldið að koma til móts við fyrirtækin með því að lækka tolla eða með öðrum hætti.

Þá vil ég að lokum nefna að ýmsir hafa lýst sig óánægða með það, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, og telja að full ástæða hefði verið til að fresta málinu til hausts. Vil ég þar nefna Stéttarsamband bænda, heilbrigðisyfirvöld, landlækni og forstöðumann Heilbrigðiseftirlits og loks að einn aðilinn, sem stóð að samningu þessa frv., Vinnuveitendasamband Íslands, fór ákveðið fram á að málinu yrði frestað til haustsins.

Margt fleira mætti telja. Ég hef tínt hér upp nokkur atriði til þess að benda á að í raun og veru var félmn. Nd. sett í ákveðinn vanda þegar hún fékk þetta mál til meðferðar nú á lokadögum þingsins. Við tókum hins vegar þá stefnu í þessari n., enda mjög sáttfúsir menn, að láta frv. fara í gegn eða leggja til að það yrði samþ. í þeirri von að í sumar yrði unnið frekar að þessum málum. Allir nm. skrifuðu þess vegna undir nál. með þeim fyrirvara. Og nú hefur hæstv. félmrh. lýst að hann vilji vinna að málinu með þessum hætti. Ég er þakklátur honum fyrir þá yfirlýsingu og vænti þess, að þetta mál verði skoðað í sumar með tilliti til þeirra atriða, sem ég hef nefnt hér, og þeirra fjölmörgu atriða annarra, sem komið hafa fram við skoðun málsins í nefndum beggja deilda.